02.04.1940
Efri deild: 27. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í D-deild Alþingistíðinda. (2646)

96. mál, húsmæðrafræðsla

Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Herra forseti! Menntmn. hafði til meðferðar breyt. á l. um húsmæðrafræðslu, sem miðar í þá átt að auka framlag ríkisins um stofnkostnað úr 1/2 í 3/4, og er það í samræmi við þá stefnu, sem upp var tekin á síðasta þingi gagnvart héraðsskólunum. Þegar n. fór að ræða þetta mál, varð hún fyrir þeim örðugleikum, að ekki lágu fyrir henni neinar upplýsingar um það, hvernig hag húsmæðraskólanna í landinu væri farið, nema eins, þar sem hv. þm. N.-M. gátu gefið fulla skýrslu um skólann í þeirra héraði, Hallormsstaðaskólann. Nokkrar tilraunir hafa verið gerðar til þess að leita þessara upplýsinga, en þær virðast ekki hafa legið svo fyrir, að hægt hafi verið að láta þær af hendi eins og sakir standa. Hinsvegar hefir það komið fram í umr., að fjárhagsaðstæður margra þessara skóla væru e. t. v. það góðar, að ekki myndi vera mjög aðkallandi að veita þeim þau fríðindi, sem frv. fer fram á. Ekki taldi n. þó útilokað, að þetta álit kynni að breytast að fengnum upplýsingum, og til þess að útiloka ekki skólana frá þessum fríðindum í framtíðinni, flytur n. till. um, að ríkisstj. athugi möguleika skólanna og hvort þörf sé á að létta undir með þeim með stofnkostnaðinn frá því, sem nú þegar er gert. Þrátt fyrir það. að n. er þess fullviss, að einn skólinn muni vera þannig staddur fjárhagslega, að hann hafi ríka þörf fyrir aðstoð sem þessa, þá sá n. sér ekki fært að breyta l. fyrir þann skóla einan. Um þetta mál í heild kom það einnig til umr. í n., að húsmæðrafræðslan má teljast komin á góðan rekspöl í sveitum landsins — ég hygg, að skólarnir séu 5, sem settir hafa verið á stofn í hinum ýmsu fjórðungum landsins — en segja má, að þarna sé svo gott sem alveg óplægður akur í kaupstöðum og kauptúnum landsins. Ef ég man rétt, þá er aðeins til einn húsmæðraskóli í kaupstað, fyrir utan skólann á Blönduósi, sem fremur verður að teljast sveitaskóli. Menn ganga þess ekki duldir, að húsmæðrafræðsla er ekki síður nauðsynleg í bæjum og kaupstöðum en í sveitum, og virðist sem því máli hafi ekki verið sýnd nógu mikil ræktarsemi, þar sem enn hefir ekki verið sett neitt fast fyrirkomulag um það í l., hvernig haga skuli húsmæðrafræðslunni í kaupstöðum og bæjum. Því er ekki að neita, að frá kauptúnum og bæjum hafa borizt til Alþingis háværar raddir um að taka þessi mál til athugunar og undirbúa löggjöf í þessum efnum, og að lagt yrði fram nokkurt fé, svo að skólar geti risið upp á þessum stöðum. Af þessum ástæðum hefir n. orðið sammála um það„ að rétt væri að fela ríkisstj. enn á ný þetta mál til athugunar fyrir næsta Alþingi. Fyrir 2 árum var samþ. till. hér í þessari hv. d. um, að ríkisstj. undirbyggi þetta mál, en það hefir dregizt úr hömlu, en n. telur samt fyrir sitt leyti rétt að vísa þessu máli til hæstv. ríkisstj. á ný, svo leggja megi fram till., sem séu vel undirbúnar, svo sjást megi einhver árangur af þeim röddum, sem fram hafa komið um að koma þessum málum í viðunandi horf.

Ég held, að ég hafi með þessum orðum mínum í aðaldráttunum lýst viðhorfi n. í þessu máli og hvers vegna hún hefir ekki beitt sér fyrir framgangi þess frv., sem til hennar var vísað um þetta efni. vænti ég, að d. verði sammála um þetta mál.