01.04.1940
Efri deild: 26. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 237 í B-deild Alþingistíðinda. (380)

99. mál, lækkun lögbundinna gjalda

Brynjólfur Bjarnason:

Menn hafa staðið undrandi yfir ýmsu, sem þetta þing hefir ungað út, en þetta frv. er eitt hið allra furðulegasta, sem hér hefir sézt.

Samkv. fjárlfrv. hæstv. fjmrh. átti að skera niður framlög til verklegra framkvæmda og, til landbúnaðarins um meira en eina millj. kr. þetta var harðlega fordæmt af blöðum þeirra flokka, sem að stj. standa, og sömuleiðis af meiri hluta Alþingis. Í brtt. fjvn. eru þessir niðurskurðir afnumdir. Að vísu fylgdi sá böggull skammrifi, að fjvn. setti í fjárl. heimild til þess að skera niður ólögboðin gjöld um 35%. Nú er þessi niðurskurður, sem var í fjárlfrv., kominn hér afturgenginn og að auki nokkuð til viðbótar. Það á að skera niður framlög ríkissjóðs til byggingarsjóða í sveitum og kaupstöðum, til nýbýla og samvinnubyggða, til endurbygginga íbúðarhúsa í sveitum og til jarðabótastyrkja. Svo mikið flaustursverk er á þessu máli, að það er ekkert annað en ein hringavitleysa, eins og hv. 1. þm. N.-M. sýndi fram á um niðurskurð framlags til nýbýla og samvinnubyggð,. það má með sanni segja, eins og hv. 1. þm. N.-M. sýndi fram á, að það er mesta furðulegt, um leið og það er sorglegt, en þó hlægilegt, að á sama tíma, sem mest er um það talað að flytja atvinnuleysingjana úr kaupstöðunum út í sveitir landsins, er verið að gera þeim, sem í sveitum búa, ólíft að vera þar. Það er í raun og veru ekki um annað verið að ræða en að bera fólkið út, því það mætti eins vel flytja það upp á öræfi skv. þessum fyrirmælum. Að vísu er hér aðeins um heimild að ræða, og í ræðu hæstv. fjmrh. voru ekki færð önnur rök með frv, en að þetta væri aðeins heimild. En hvaða trygging er fyrir því, að hæstv. fjmrh. noti ekki þessa heimild, jafnvel þó að þess þyrfti ekki nauðsynlega með? Ég heyrði það líka greinilega á ræðu hæstv. fjmrh., að hann lítur þannig á þessa heimild, að hún geri honum frjálst að verja fé ríkissjóðs eftir sínu höfði. Hann sagði á þá leið, að jafnvel þó að fé yrði fyrir hendi til þess að standast þessi útgjöld, þá mætti búast við því, að því yrði að verja öðruvísi en til þessara framkvæmda. Hæstv. fjmrh. vill fá að vera einráður um það, hvernig eigi að verja 1/3 af tekjum ríkissjóðs. Það hefir verið sýnt fram á það með rökum, að það er ekki hægt að skera niður framlag til landbúnaðarins án þess að bíða við það stórtjón. En hér er þó farið fram á að skera niður framlög til þeirra framkvæmda í stórum stíl. Það er furðulegt, að farið skuli vera fram á slíkar heimildir á sama tíma og samþ. eru l. um að stofna allskonar sjóði, svo sem íþróttasjóð, rafveitulánasjóð o.s.frv. Hverskonar samræmi er í slíkum vinnubrögðum? Hafa menn athugað það, hvort hinum lægstlaunuðu starfsmönnum ríkisins er lengur kleift að lifa af sínum launum, ef verðlagsupphótin verður skorin niður um 35% samkv. 7. lið I. gr. þessa frv.? þegar l. um launauppbót til embættismanna væru til umr. hér í hv. d., þá var ekki við það komandi, að þeir menn, sem hefðu 8–20 þús. kr. árslaun, yrðu undanþegnir verðlagsuppbótinni. Þá voru nógir peningarnir; þá var ekki verið að tala um nauðsyn þess að skera niður útgjöld til þeirra hluta. Menn spyrja, eins og hæstv. fjmrh. í ræðu sinni áðan: Hvað verður, ef tekjur ríkissjóðs hrökkva ekki fyrir gjöldum? En ég vil spyrja: Hafa menn yfirleitt athugað það, hvað af því myndi leiða, ef verklegar framkvæmdir yrðu skornar niður um 35%? Það myndi þýða neyðarástand í landinu. væri þá hægt að komast hjá því að kalla saman þing til þess að gera einhverjar ráðstafanir? Halda menn virkilega, að öll vandamál verði leyst með því að láta tekjur og gjöld standast á í fjárlagafrv.? Það er hægt að gera margar aðrar ráðstafanir til þess að spara og lúta tekjur og gjöld standast á, sem liggja miklu nær en þessi till. Það er alveg vafalaust hægt að spara á 2. millj. kr. með niðurskurði á hálaunum og bitlingum, og það er alveg vafalaust, að ef góður vilji er fyrir hendi, þá væri hægt að fara þessa leið. Ef það yrði nú meiri eða minni hungursneyð í landinu, þá er áreiðanlegt, að mönnum fyndist lítil huggun í því, að tekjur og gildstæðust á í fjárl. Það er einhver mesta skammsýni, sem hugsazt getur, að láta eins og þetta sé ekki annað en smáreikningsdæmi og allt sé í lagi, ef gjaldadálkurinn stenzt bara einhvernveginn á við tekjudálkinn. Skyldi það vera mönnum mikil huggun í slíku neyðarástandi að vitu til þess, að hjátekjumennirnir haldi áfram að fá sínar 10—20 þús. kr. og dýrtíðaruppbót þar að auki.