04.03.1940
Neðri deild: 9. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 255 í B-deild Alþingistíðinda. (421)

34. mál, skipun læknishéraða

*Ásgeir Ásgeirsson:

Suðureyrarhreppur í Súgandafirði var einn af þessum hreppum, sem átti að athuga um, hvort unnt væri að setja þar á stofn sérstakt héraðslæknisembætti. Heilbrigðisstjórnin hefir komizt að þeirri niðurstöðu, að ekki væri unnt að gera svo lítinn hrepp sérstakt læknishérað, þó að aðrar ástæður mæltu með því. Ég hefi tekið eftir, að á þessu sama þingi er strikaður út á fjárl. styrkur til hjúkrunarkonu í Súgandafirði, sem hafði verið á fjárl. í nokkur ár. Ég skil ekki, að athugun heilbrigðisstj. hafi leitt til þess, að ekki væri hægt að telja þörf á að hafa þarna hjúkrunarkonu, sem starfaði í samráði við lækni. við það gæti sparazt kostnaður við að sækja lækni og flytja til baka, en það er mjög erfitt og kostnaðarsamt, og stundum eru allar leiðir ófærar, bæði á landi og sjó. Er því mikil nauðsyn á að hafa þarna hjúkrunarkonu, sem gæti starfað þarna í samráði við héraðslækni. Ég vil fastlega vænta þess, að landlæknir og heilbrigðisstjórn sjái svo til, að þessi styrkur verði aftur tekinn upp á fjárl., og mun ég þá ekki gera aths. við, þó að ekki verði stofnað þarna sérstakt læknishérað.