11.03.1940
Neðri deild: 14. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 272 í B-deild Alþingistíðinda. (513)

11. mál, vitabyggingar

Frsm. (Sigurður Kristjánsson):

Sjútvn. hefir orðið sammála um að mæla með því, að frv. þetta verði samþ. En n. leggur til, að á því verði gerðar lítilsháttar breyt., eins og sjá má á áliti hennar á þskj. 76 En sú breyt. er á þá leið, að inn í 7. gr. i. komi sú breyt., að leita skuli ráða, auk forstöðumanns styrimannaskólans og forseta Fiskifélags Íslands, einnig forseta Farmanna- og fiskimannasambands Íslands.

Þessi breyt. á vital. hefir verið borin fram áður á Alþ., og ástæðan nú fyrir henni er hin sama og þá var, að það mun alveg áreiðanlegt, að engir menn séu kunnugri þessum málum, að undanskildum vitamálastjóra sjálfum, heldur en þeir menn, sem eru í stöðugum siglingum umhverfis landið, sem eru fyrst og fremst skipstjórar á strandferðaskipunum. Það má þess vegna búast við, að ekki sé unnt að leita ráða hjá neinum, sem betur vita um það, hvernig vitar séu bezt settir, heldur en einmitt Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands. Og þá má ætla, að formaður þess félagsskapar sé að jafnaði sá maður, sem er bezt treystandi til þess að gefa skynsamlegar upplýsingar í þessu efni.

Ég sé enga ástæðu til að bæta neinu frekar við það, sem hér er sagt í grg. frv., nú við þessa umr., og allra sízt vegna þess, að frv. um sama efni hefir áður verið flutt hér á hæstv. Alþ. og málið því kunnugt hv. þm.