26.03.1940
Neðri deild: 22. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 352 í B-deild Alþingistíðinda. (822)

60. mál, bifreiðalög

*Frsm. (Gísli Sveinsson):

Hv. 1. þm. Rang., sem á hér brtt. á þskj. 153, beindi að nokkru orðum sínum til mín, en ekki sé ég hv. þm. í d.

Ég skal þá víkja að öðru atriði, sem er í sjálfu sér veigameira en atriðið um skaðabótaskylduna, það er ákvæðið um hægri handar umferðina. Það er í sjálfu sér ekki svo sérlega miklu við það að bæta, sem hæstv. forsrh. hefir tekið fram og fram hefir komið bæði af hálfu formælenda n. og eins af þeim gögnum, sem fyrir liggja.

Ég þykist vita, að hv. þm. sé vel ljóst, hvernig þessu máli er komið, en það má auðvitað til sanns vegar færa, að umhugsunartími hefir ekki verið sérlega mikill að þessu sinni, og hefði ég sjálfur kosið, að hann hefði verið meiri. Það hefðu líka átt að vera umr. um þessi mál í blöðum áður en það kom fyrir þingið. Nú getur maður sagt, að hv. þm. ættu að vera þess umkomnir að kynna sér mál og gera sér grein fyrir afstöðu sinni á skömmum tíma, en það eru ýmsir fleiri, sem hér koma við sögu. Og þótt ekki hafi borizt neinar áskoranir viðvíkjandi þessu máli, þá hefir það flogið fyrir, að bílstjórar væru nokkuð andvígir þessari breyt.

Nú er það sannast mála, að kostnaðurinn við slíka breyt. sem þessa hlýtur að aukast með hverju ári, sem líður. Af þessum ástæðum hafa Svíar mikinn áhuga fyrir að breyta þessu hjá sér sem fyrst, en það mun hafa tafizt hjá þeim vegna stríðsins og ástandsins í álfunni. Svíþjóð er hinsvegar eina landið, ásamt Stóra-Bretlandi, sem ekki hefir breytt til í þessu efni ... og að við eigum að „dependera“ af Bretum, og þá ekki sízt í því að halda vinstri handar umferð, meðan þeir halda henni. En við höfum tekið upp heila lagabálka eftir öðrum þjóðum og bundizt samningum um ýmis þau efni við hinar Norðurlandaþjóðirnar, mest til þess að fylgja því, sem alþjóðlegt mætti kallast, jafnvel þótt Stóra-Bretland hefði þar enn sínar sérvenjur og frábrugðna löggjöf, eins og till. er. Nú er hægri umferð einráð eða að verða einráð í Evrópu. nema á Stóra-Bretlandi, og sömuleiðis í Ameríku, í Bandaríkjunum, í Kanada, þrátt fyrir samband þess við Bretland, í Mexíkó og svo mætti telja áfram. Þeir hv. þm., sem þykjast varbúnir við að greiða nú atkv. um málið eða dæma um, hvor betri sé, vinstri eða hægri umferð, munu þó hafa áttað sig á því, að ekki muni gagna að spyrna lengi móti broddunum og því verra að taka afleiðingum breyt. sem lengur dregst að framkvæma hana. Hitt er óskylt mál, hvort menn muni komast upp með það að hlýða ekki hinum nýju reglum, og kvíði ég því ekki, en sízt yrði það léttara viðfangsefni seinna meir. Það hefir áður tekizt að breyta umferðarreglum jafnvel á einni nóttu, og tekizt ágætlega. Menn, sem koma til annara landa, hafa reynt það, að ekki þarf nema fárra daga umhugsun til að venjast nægilega breyttum umferðarreglum. Gætu menn það ekki, kæmu víst fáir heilir heim úr utanferðum. Engar þær ástæður mæla gegn breytingunni, að átylla sé til að stöðva nú þennan lagabálk hér í Nd., hvað sem hv. Ed. kann síðan að gera í málinu. Fyrir því verð ég að leggja móti því, að brtt. á þskj. 149 verði samþ.

Út af brtt. hv. 1. þm. Rang. (SvbH) á þskj. 153 vil ég taka fram, að ég tel hana óþarfa, eftir að fram eru komnar brtt. við sömu grein, 34. gr. frv., á þskj. 200. Einnig hefir þessi brtt. verið lögð fyrir þann hæstaréttardómara, Gissur Bergsteinsson, sem sérstaklega hefir unnið að samningu frv., og taldi hann, að með brtt. á þskj. 200 næðist það, sem hv. 1. þm. Rang. vildi með brtt. sinni við 34. gr. Hún getur ekki hér eftir fallið óbreytt við frvgr., ef brtt. á þskj. 200 verða samþ., eins og ég vænti. Því vildi ég, að hv. þm. tæki brtt. sína aftur, er skoðun hans hefir verið fullnægt á annan hátt.

Það er einkennilegt, að. hv. þm. Mýr. (BÁ) skuli nú vakna upp við illan draum og andmæla frv. af þeim sökum, hve illa það sé undirbúið. Það hefir legið fyrir þinginu áður. Fyrst var það borið fram af hv. þm. Barð. (BJ) og var sett í nefnd. Þá virtist mér og fleirum það meingallað í sumu, ekki sízt að orðfæri, og ýmis ákvæði svo ruglingsleg, að ekki væru nokkur tiltök að lögleiða það óbreytt til að gilda um langan tíma. Þá var hv. þm. Mýr. með frv. eins og það var. Segjum hann hafi ekki verið vaknaður. Eftir að frv. hafði verið lagfært mjög og komizt gegnum Nd., sofnaði það í Ed. Aftur var það borið fram á þingi, og þá í viðunandi búningi, en varð ekki útrætt. Þá hefði hv. þm. Mýr. átt að vera vaknaður. Nú kemur það í þriðja sinn og hefir gengið milli allra þeirra aðila, sem bezt ættu að vita um málið, og hefir tekið þeim breytingum, sem æskilegar þóttu frá sjónarmiðum samgöngumála, lögreglumála, dómsmála o. fl. Það virðist lítið annað en smámunasemi að bregða fæti fyrir slíkt nauðsynjamál sem bifreiðalögin eru með mótrökum eins og þeim, að fyrirsögn frv. nái ekki yfir allt, sem í frv. felst, þótt hún nái yfir höfuðatriðin. Hvað sem menn segja um hægri akstur eða vinstri, næsta dagskrármálið, tel ég lítt verjandi að stöðva þessi mál hér við 3. umr. heldur verði þau nú að ganga áfram til hv. Ed.