12.06.1941
Efri deild: 77. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 512 í B-deild Alþingistíðinda. (1096)

167. mál, ríkisstjóri Íslands

Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Það er síður en svo, að ég sé á móti því, að samþ. sé sú till., sem tekin var aftur til bráðabirgða í Nd. En það, sem fyrst þarf að ræða við ríkisstj., og ég hef ekki haft enn þá tíma til, er, hvort hægt sé að koma þessu við. Meðal annars hefur verið rætt um það, þótt engin ákvörðun hafi verið tekin, að ríkisstjórinn hafi skrifstofu hér í Ed. fyrst um sinn, og þarf þá að sjá fyrir því, að þinginu sé lokið, og í annan stað að laga þannig til, að hann geti tekið á móti mönnum og haft viðtöl. Ég álít vel farið, að ríkisstjóri taki við embætti sínu 17. júní. Mun ég skjótlega taka til athugunar ásamt hinum í stj., hvort þetta verði ekki hægt að framkvæma þingstarfanna vegna.