26.04.1941
Neðri deild: 45. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 562 í B-deild Alþingistíðinda. (1210)

62. mál, Búnaðarbanki Íslands

Sigurður Kristjánsson:

Ég á hér litla brtt. á þskj. 253, og þar sem ég mælti fyrir henni við 2. umr., þarf ég ekki að endurtaka neitt af því, sem ég sagði þá, og skal því vera stuttorður.

Má búast við því, ef farið verður að fela einni n. Alþ. að ráða stjórn eða stjórnarnefndarmenn við einhverja stofnun, eins og hér í frv. að fela á landbn. Alþ. að kjósa stjórn Búnaðarbankans, að aðrir aðilar rísi upp og vilji fá hliðstæða íhlutun um stjórn þeirra stofnana, sem fara með þau mál, er sérstaklega heyra undir þeirra verksvið. Iðnaðarn. mundi, ef til vill, vilja ráða stjórn iðnlánasjóðs, fjvn. og fjhn. stjórnum bankanna, sjútvn. stjórn fiskveiðasjóðs og ýmsu fleiru, sem útgerðinni við kemur. Mér sýnist, að hér sé að þarflausu verið að stofna til þess, að smærri hópar manna innan Alþ. taki að sér að ráða hlutum, sem í eðli sínu heyra undir ríkisstj. eða sameinað Alþ. Ég vil, að hér sé numið staðar á þeirri braut í tíma.

Ég hafði ætlað mér að bera fram brtt. viðvíkjandi 2. gr. f. þessa frv., þar sem ákveðnir eru vextir af útlánum. En hv. frsm. málsins gaf mér þær upplýsingar, að landbn. mundi koma með brtt. þessu viðvíkjandi við 3. umr., og lét ég því fyrir farast að flytja brtt. við þennan lið frv. Nú sé ég, að hv. n. hefur farið þá óvissu leið í þessum efnum að bera fram till. um, að ekki skuli vera í l. nein ákvæði um upphæð vaxtanna, en þá fellur það náttúrlega undir stofnunina sjálfa að ákveða þetta.

Nú fæ ég ekki skilið, hvers vegna væntanlegir lántakendur úr þessari lánadeild, sem hér er um að ræða, mega ekki eiga það víst fyrirfram, hvað vextirnir eru háir, og þar af leiðandi er ég óánægður með þessa úrlausn málsins.

En af því að þetta er síðasta umr. málsins hér í hv. d., þá vil ég leyfa mér að bera fram skriflega brtt. um það, að í stað 6%, eins og hér liggur fyrir í frv., komi 4½%.