16.04.1941
Efri deild: 36. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 588 í B-deild Alþingistíðinda. (1269)

102. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson) :

Við þessa umr. málsins þykir mér rétt að láta falla nokkur almenn orð um það frv., sem hér liggur fyrir hv. d., um breyt. á skattal., og geri ég það af hálfu Alþfl.

Ég mun ekki fara inn á neinar almennar hugleiðingar yfirleitt um skattastefnur, eins og kom fram í ræðu hæstv. fjmrh., sem hann lauk nú rétt áðan. Það getur verið, að til þess gefist betra tóm síðar að ræða um hin mismunandi viðhorf í þeim málum yfirleitt, en það verður vissulega að segjast um það frv. og þau, sem hér liggja fyrir, að þau séu ekki mótuð af einni ákveðinni skattastefnu á kostnað annarrar sérstaklega. Að því leyti get ég að vissu leyti tekið undir með frsm. þessa máls, hv. 1. þm. Reykv., og hæstv. viðskmrh., að ef þetta mál hefði verið á valdi Alþfl., mundi hann hafa afgreitt það nokkuð á aðra lund en það liggur hér fyrir. Ég geri jafnvel ráð fyrir því, að hinir flokkarnir, sem staðið hafa að umr. um þetta mál og undirbúningi þessa frv., geti sagt nokkuð á líkan veg, eins og kom líka fram í umr. í dag. Það verður sjálfsagt ætíð þannig, ef leitað er samkomulags milli sjónarmiða, sem ekki falla saman, jafnvel þó að ekki beri mjög mikið á milli, að ef samkomulag næst um einhver stærri atriði, þá verður tæplega við það búið, að einn ráði þar öllu og annar verði algerlega undan að láta. Þetta vildi ég almennt segja um þetta mál og frv. það, sem hér liggur fyrir til umr. Síðan vildi ég með nokkrum orðum víkja að þeim höfuðatriðum, sem í frv. felast, út frá því sjónarmiði, sem Alþfl. vildi til þessa máls leggja, og benda á þau atriði, sem Alþfl. hefði kosið, að væru á aðra lund, ef hann hefði mátt ráða.

Eins og hv. þdm. er kunnugt, hafa skattamálin lengi verið til íhugunar meðal manna og verið rædd allýtarlega, sérstaklega í mþn., sem til þess var skipuð, þar sem flokkar þeir, sem standa að núverandi ríkisstj., áttu allir sína fulltrúa. Þar komu fram í höfuðatriðum þau ólíku sjónarmið og viðhorf, sem óneitanlega eru á milli þessara 3 flokka í þessu málefni.

Frá því 1938 og með breyt. á árinu 1939 höfum við til þessa dags búið við eitt bráðabirgðaskipulag í einum þætti skattamálanna, sem er það að undanþiggja útgerðarfyrirtæki skatti að verulegu leyti og útsvarsgreiðslum til bæjar- og sveitarfélaga. Ýmis önnur fyrirmæli voru í þessari löggjöf, er sérstaklega voru undantekningaákvæði. Þessi sérstaka löggjöf átti rætur sínar að rekja til þess, að mörg undanfarin ár hafði íslenzk útgerð verið rekin með verulegum töpum, og ekki var þá á árinu 1938 fyrirsjáanlegt, að veruleg breyt. yrði þá á, heldur bentu flestar líkur til þess, að nokkuð mundi líkt áfram halda næstu árin um gengi þessa atvinnurekstrar, ef ekki breyttist allt viðhorf í heiminum yfirleitt. Af þessari ástæðu voru skattalögin 1938 sett og nokkuð breytt á Alþingi 1939, eins og ég gat um áðan. En svo gerast þeir viðburðir, sem allir vita, að á árinu 1939 brauzt út stórveldastyrjöld, og eins og alltaf, þegar slíkt á sér stað, gerbreytist svo margt, ekki einungis hjá stríðsþjóðunum sjálfum, heldur mörgum þeim þjóðum, sem ekki búa í nálægð við þær. Allt fer úr sínum venjulegu skorðum og gerbreytist fyrir þessi miklu átök, sem háð eru af stórveldunum. Það kom í ljós. Í upphafi þessa stríðs eins og varð í síðustu heimsstyrjöld, að íslenzkir hættir breyttust á skömmum tíma. Sá atvinnurekstur, sem hafði verið rekinn með verulegu tapi og þótti fyrir margra hluta sakir næsta óálitlegur, varð nú í skyndi að einstæðum gróðavegi. Fiskveiðar yfirleitt eða sala á fiskafurðum í Bretlandi og fyrst framan af í Þýzkalandi gerbreyttist svo í skyndi, að af þessum atvinnurekstri varð stórgróði. Þegar fram vatt svo um skeið, varð auðséð, að forsendurnar hafa fallið undan þeirri löggjöf, sem sett var 1938 og miðuð við það ástand, sem þá ríkti. Svo mjög var þessum grundvelli raskað, að þau fyrirtæki og sá atvinnurekstur, sem yfirleitt hafði gefið lítinn ágóða eða jafnvel hjá sumum fyrirtækjum var rekinn með stórtapi, varð nú einstæðasti gróðavegur, sem þekkzt hefur í sögu íslenzku þjóðarinnar. Af þessum ástæðum varð auðsætt, að þessum lögum, sem á sínum tíma var hugsaður annar aldur, varð að breyta. Þess vegna setti Alþfl. það fram fyrir alllöngu síðan, og var undir það tekið af öðrum, að við svo búið mætti ekki lengur standa, þessu yrði að breyta. Það varð því eitt höfuðatriðið að áliti Alþfl. upp úr þessari endurskoðun skattalöggjafarinnar að afnema eða gerbreyta þeirri löggjöf, sem sett var 1938 og miðuð við allt aðrar aðstæður, á þeim tímum, sem engan óraði fyrir, að mundi verða svo stór bylting í þessum atvinnuhætti eins og varð. Fyrsta höfuðatriðið í endurskoðun þessarar skattalöggjafar var því það að afnema skattfrelsi útgerðarinnar. Það má segja, að með vissum undantekningum sé þetta gert í frv. því, sem fyrir liggur. Í síðustu gr. frv. er, eins og frv. ber með sér, lagt til, að felld sé algerlega úr gildi hin svokallaða skattfrelsislöggjöf. Hins vegar hefur því verið lýst yfir í umr., bæði af hv. frsm. og hæstv. viðskmrh., að löggjöfin eða frv. það, sem hér er til umr., feli í sér nokkur ákvæði, er geri það að verkum að milda fyrir útgerðarfyrirtækjum hvað snertir skattálagningu fyrir 1940, og á ég þar sérstaklega við þau ákvæði frv., sem gera ráð fyrir því, að útgerðarfyrirtækjum sé leyfilegt að draga frá skattskyldum tekjum 1940 tap það, sem hefur orðið á fyrirtækjunum á tímabilinu frá 1. jan. 1931 til 31. des. 1939. Þá er komið að fyrsta atriðinu og því höfuðatriði, verð ég að segja, sem mestur ágreiningur hefur orðið um í þessum umr. við Alþfl. og hina flokkana, sem að þessum samkomulagstilraunum hafa staðið hins vegar, og það er tapsfrádrátturinn. Strax í sambandi við umr. um þetta mál lýstum við yfir till. okkar, sem voru á allt aðra lund heldur en hér kemur

fram í frv., og höfum við áskilið okkur rétt til að bera fram brtt., sem er í samræmi við okkar sjónarmið. Það var að vísu ekki svo af hálfu okkar Alþfl.-manna, að við vildum, að með því að leyfa ekki jafnmikinn tapsfrádrátt og í frv., vildum við koma því til leiðar, að fyrirtækjum, sem eru illa stæð, yrði ekki íþyngt svo, að þau gætu ekki risið upp á sæmilegum fjárhagslegum grundvelli. Við lögðum það til, að tapinu yrði aðeins leyft að ná yfir 3 næstliðin áramót, en svo yrði gerð sú takmörkun á frádrættinum, að hann yrði ekki meiri en næmi því, að fyrirtækin skulduðu ekki meira en 150 þús. kr. á hvern togara og samsvarandi upphæð á önnur fiskiskip, og þar sem um aðrar eignir væri að ræða, skuldir, sem næmu því maií, er skattal. hafa slegið föstu sem réttu skattmati á eignum manna til skattframtals, sem ég hirði ekki um að greina hér nánar, því þau fyrirmæli er að finna í 19. gr. skattal.

Þessi skoðun okkar varð því miður ekki ofan á í þessum umr., og höfum við áskilið okkur rétt til að bera fram brtt, við frv., er ganga í líka átt og ég hef nú nefnt. Á þessu stigi málsins sé ég ekki ástæðu til að fara út í neinar rökræður um þetta atriði, þar sem þess gefst kostur, þegar brtt. koma fram á Alþingi. Enda hafa þær umr., sem orðið hafa um þetta atriði, ekki heldur verið á þá lund, að ég sjái ástæðu til að víkja að þeim frekar, enda yrði það aðeins endurtekning, þar sem þetta atriði kemur sérstaklega til umr. og úrslita á sínum tíma. Það má segja, að með þessari breyt. á tapsfrádrættinum sé skattfrelsið afnumið, eins og það var í l. frá 1938, og er það að sjálfsögðu stórt atriði, sem hefur ekki heldur orðið verulegur ágreiningur um, að l. frá 1938 mættu ekki óbreytt standa. hað höfuðatriði, sem Alþfl. er ekki ánægður með, að þessi verulegi frádráttur sé leyfður, hefur þó orðið ofan á í þessu máli eins og það er lagt fyrir Alþingi. Það, sem Alþfl. lagði megináherzlu á í milliþn., var stofnun nýbyggingarsjóðanna, og segja má að vísu, að þessi hugsun sé tekin til greina í frv., þótt það sé nokkuð á aðra lund en Alþfl. hefði kosið, ef hann hefði einn mátt ráða efni þessa frv.

En aðalatriðið í þessu sambandi er það, að með ákv. þessa frv. er gert ráð fyrir, að í löggjöfinni skuli felast viss. vernd og réttur til þess að endurnýja atvinnutækin. Það hefur alltaf verið höfuðmál frá sjónarmiði Alþfl. að gera skynsamlegar ráðslafanir til að endurnýja öll íslenzk atvinnutæki og þá sérstaklega þau, sem notuð eru við sjávarframleiðsluna.

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um nauðsyn þessa, því að þessi framleiðslutæki eru beztu hjálpartæki þjóðfélagsheildarinnar og hinn mesti búbætir, hvernig sem lætur í ári.

Hins vegar hafa tæki þessi elzt og gengið úr sér og ekki verið endurnýjuð vegna slæms rekstrar eða fátæktar framleiðendanna. Og nú er svo komið, að mörg skipin, sérstaklega togararnir, eru orðin ævagömul og geta ekki enzt mikið lengur. Þess vegna er þörfin á endurnýjun þeirra orðin mjög brýn.

Í annan stað vakti það fyrir Alþfl. með till. sínum að þeir peningar, sem nú hafa runnið í stríðum straumum til útgerðarfél., verði ekki teknir út úr framleiðslunni í eitthvað óskylt henni og miður þarft fyrir þjóðfélagsheildina. Það getur skapað öngþveiti og aukið dýrtíðina, eins og t. d. þegar útgerðarmennirnir draga fé út úr framleiðslunni til þess að kaupa aðrar eignir, svo sem jarðir og hús, sem svo fara síhækkandi í verði, og stuðlar að því að auka á vandræði í landinu.

Segja má, að fyrir Alþfl. hafi fyrst og fremst vakað með stofnun endurbyggingarsjóðanna að tryggja það, að það fé, sem nú hefur græðzt, gangi í framleiðsluna sjálfa. Að féð lenti ekki í braski, heldur gengi til að endurnýja framleiðslutæki atvinnuvegarins.

Ég sagði áðan, að þessi hugsun hefði að nokkru verið tekin upp í frv., en nokkuð á aðra lund en Alþfl. hefði kosið. Við hefðum helzt kosið, að þetta fé hefði allt verið lagt í einn sjóð frá öllum fyrirtækjunum, og sjóðurinn hefði verið undir stjórn hins opinbera, og féð því aðeins hreyft, að færð væru í hvert sinn full rök fyrir því, að nota ætti það til þess að kaupa ný framleiðslutæki. En þetta fór á aðra lund, eins og mörg önnur atriði.

Þriðja atriðið, sem Alþfl. barðist fyrir í milliþn., var lækkun skattstigans á lágum tekjum og miðlungstekjum. Eins og frsm. tók fram, er gildandi skattstigi frá árinu 1935. En þessi skattstigi hefur tvisvar verið hækkaður. Fyrst og fremst með hækkun þeirri, sem kallaður var hátekjuskattur og lagður var á skattskyldar tekjur, er námu kr. 3000 og meira. Og síðan var svo bætt 12% skattviðauka ofan á allan skattinn, sem orðinn var tvöfaldur fyrir hjá sumum skattgreiðendum. Þessi mikli skattur hefur því orðið mikil byrði fyrir margar stéttir þjóðfélagsins. En einkum hefur hann orðið láglaunastéttunum og mönnum með miðlungstekjur mjög þungbær, þegar þess er gætt, að útsvarsgreiðslur hafa síðustu árin mest mætt á þeim.

Nú þegar flest atvinnufyrirtæki skila góðum arði og allt stendur með meiri blóma, virtist ekki vera nokkurt vit eða sanngirni í því að leggja sömu byrðar á launastéttirnar, sem hafa lág laun eða miðlungstekjur, og gert var 1935. Því að þá var ástandið miðað við mikla tekjurýrð ríkissjóðs annars vegar og hins vegar mikla þörf opinberra framkvæmda vegna mikils atvinnuleysis. Skattstiginn 1935, hátekjuskatturinn og 12% viðaukinn voru einmitt miðaðir við það. Þess vegna var þá lagt meira á en tekjur fátækra manna gátu yfirleitt borið. En nú, þegar batnar í ári og tekjur ríkis og bæjarfélaga aukast, er sjálfsagt að láta þá menn njóta þessa góðæris og bæta hag þeirra, sem undanfarið hafa stunið undan erfiðum og allt of þungum skattaálögum.

Það má segja, að nokkuð sé bætt úr þessu með frv. þessu, en það er þó ekki til fullnustu. Neðan til er skattstiginn frá 1935 tekinn upp svo að segja óbreyttur, en hækkaður nokkuð þegar kemur yfir 8–9 þús. kr. skattskyldar tekjur. Nokkur úrbót er það, að hátekjuskatturinn og 12% viðaukinn eru afnumdir. En helzt er þó umreikningurinn, sem gert er ráð fyrir í 4. gr. frv., og hækkun persónufrádráttarins í

3. gr. því fólki nokkuð til léttis, sem harðast hefur orðið úti undanfarið.

Alþfl. getur að mestu leyti unað við þá afgreiðslu, sem málið fékk í milliþn. Einkum má segja, að allmikil bót sé að þessum þrem atriðum: Afnámi hátekjuskattsins, umreikningnum og hækkun persónufrádráttarins. Og á þann hátt hafi náðst það, sem Alþýðuflokkurinn leggur mest upp úr: Að eins og nú hagar til í hinu íslenzka þjóðfélagi, eigi launastéttirnar að njóta í lækkuðum gjöldum þess mikla gróða, sem ýmis fyrirtæki hafa haft síðastl. ár. Þau eiga tvímælalaust að geta borið kúfinn af tekjuþörf ríkisins, án þess að seilzt sé of djúpt í vasa hinna fátækari.

Í sambandi við umræður þær, sem hafa orðið um skattstigann, skal ég einkum víkja að því, sem hæstv. viðskmrh. sagði. Hann sagði, að það hefði vakað fyrir Framsfl., að skattstiganum yrði öllum breytt til lækkunar, en að svo yrði hætt að draga frá skattskyldum tekjum greitt útsvar, tekju- og eignarskatt.

Alþfl. lýsti yfir því í milliþn., að hann væri í meginatriðum ekki andvígur þessari tillögu Framsfl. og hann gæti aðhyllzt þessa breyt. síðar. En við Alþfl.-menn lítum svo á, að nú, þegar gróði einstakra fyrirtækja er svona mikill, þá sé þetta ekki heppilegur tími til að fara að lækka skattstigann og breyta þar með þessu meginatriði löggjafarinnar.

Það fyrirkomulag, sem nú er á þessu, skapar skattgreiðendum visst aðhald um að standa í skilum, því þeir njóta þess í lækkuðum skatti næsta ár, sem þeir greiða af opinberum gjöldum árið á undan.

Meðan ekki hefur skapazt meira öryggi um innheimtu skatts og útsvara, verður að telja, að bæjar- og sveitarfélögum sé mikið hagræði í núgildandi fyrirkomulagi um frádrátt vegna greidds skatts og útsvars.

Löggjöf hefði vantað um slíkt eðlilegt aðhald, ef þessi frádráttur væri nú afnuminn, og þess vegna var Alþfl. ekki reiðubúinn til þess að ganga með til þessara meginbreytinga á skattalöggjöfinni. En flokkurinn er engan veginn á móti þessu atriði í sjálfu sér og er albúinn til þess síðar að breyta þessu í það horf, sem Framsfl. leggur til, ef hann teldi, að tryggilega og rétt væri frá breyt. gengið.

Þá var enn eitt atriði, sem Alþfl. lagði mikla áherzlu á, en það var að setja lög um sérstakan stríðsgróðaskatt. Frv. um þetta hefur verið lagt hér fram á þskj. 179. Það er ekki til umr. fyrr en næst á eftir því máli, sem hér liggur fyrir, og fer ég því ekki nánar út í það.

Það má segja, að í frv. sé fullnægt þeirri höfuðhugsun, er fyrir Alþfl. vakti, enda þótt flokkurinn hefði kosið að hafa. ýmislegt í því frv., eins og þessu, nokkuð með öðrum hætti, ef hann hefði mátt ráða.

Þá kem ég að því atriði, sem kallað er umreikningur og hv. frsm. skýrði allýtarlega í framsöguræðu sinni. Alþfl. lagði höfuðáherzlu á þessi þrjú meginatriði í milliþn.1. hækkun skattstigans á lágum og miðlungstekjum. 2. umreikninginn vegna gengisfalls krónunnar. 3. Hækkun persónufrádráttarins.

Þetta stefnir í rétta átt; þótt Alþfl. hafi lagt til, að þær tekjur yrðu nokkuð lægri en hér er gert ráð fyrir; sem umreikningur kæmi til greinavið. En vitaskuld má deila um það; hvar setja skuli takmörkin, og verður jafnan matsatriði.

Þá kem ég að hækkun persónufrádráttarins. Þó að ekki væru að öllu teknar upp till. Alþfl. í milliþn., þá er niðurstaðan svipuð. Flokkurinn lagði til, að frádrátturinn yrði hærri fyrir börn og aðra skylduómaga, en hins vegar hefði þá frádrátturinn fyrir þá fullorðnu mátt vera lægri, og sérstaklega fyrir einhleypt fólk.

Í till. þessa frv. er frádrátturinn fyrir hjón með 3 börn 3900 kr., en átti eftir til1. Alþfl. að vera 4000 kr., lægri fyrir fullorðna, en hærri fyrir börnin. Það má segja, að þetta sé nú aðeins bitamunur, en ekki fjár. Annars er enn ekki fullgengið frá undirbúningi þessa máls, og geta því enn komið fram brtt. bæði frá Alþfl. og öðrum flokkum. En þó tel ég, að þær breyt., sem í frv. þessu felast, séu allar til batnaðar. — Hv. frsm. gat þess, að með hækkun persónufrádráttarins hefði ekki náðst fullkomið réttlæti, og því hefði verið gripið til umreikningsins, sem er í raun og veru leiðrétting á ástandi því, sem skapazt hefur vegna verðfalls peninganna. Og hækkun frádráttarins er í raun réttri leiðrétting á eldri löggjöf. Þess vegna má segja, að nokkrar umbætur felist í þessu frv.

Þá vi1 ég stuttlega nefna þá breyt., sem gerð er á löggjöfinni um það, að útgerðarhlutafélög mega ekki lengur verja 90% skattfrjálsum til varasjóðanna. Sú breyt., sem hér er gerð, er í raun og veru mjög eðlileg leiðrétting á því, sem fólst í skattfrelsisl., og lagði Alþfl. áherzlu á, að í stað 90% kæmi 50%. Það var þetta höfuðsjónarmið, sem mótaði afstöðu Alþfl. til málsins, enda þótt hann hefði kosið, eins og ég gat um í upphafi, að hafa ýmislegt á aðra lund.

Margt hefur þó verið tekið upp í frv., sem að áliti Alþfl. er til stórbóta miðað við það, sem verið hefur í skattalöggjöfinni undanfarin ár.

Að svo mæltu sé ég ekki ástæðu til að ræða frekar um frv. almennt á þessu stigi málsins. Til þess gefst vafalaust tækifæri síðar. En þó vil ég geta þess viðvíkjandi hinum ótakmarkaða tapsfrádrætti, sem helzt frá gömlu l., að um það atriði áskiljum við okkur rétt tillað bera fram sérstaka brtt. síðar.