29.04.1941
Neðri deild: 47. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 661 í B-deild Alþingistíðinda. (1326)

102. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Haraldur Guðmundsson:

Áður en ég geng til hvílu, þykir mér hlýða að þakka sálusorgara mínum fyrir þær hógværu umvandanir og heilræði, sem hann flutti í síðustu ræðu sinni. Að vísu verð ég að ætla, að þessi síðasta athugasemd hans hefði verið betur komin í annan stað en beina henni til mín, þó að honum finnist hann hafa ofmælt, er hann sagði, að mismunurinn á því, hve dýrt væri að lifa, byggðist á, hvaða kröfur menn gerðu til lífsins.

Þetta voru orð hv. þm., þó að hann kjósi þau á annan hátt mælt, að segja að ég hafi gert honum þessi orð, í stað þess að játa, að honum finnist of mikið sagt. Hitt er rétt, að hið ljóta orð bílífi tók hann sér í munn. Ég sagði aldrei, að hann hefði sagt það. En hafi hann skilið það svo, þá bið ég hann afsökunar á því að hafa ekki gert grein fyrir þessu, ekki sízt þegar maður er svo prýðilega áminntur.

Um þessi atriði hef ég ekki fleira að segja, en um 2 efnisatriði í ræðu hans vil ég segja aðeins örfá orð.

Hv. þm. viðurkenndi í sinni seinustu ræðu, að það, sem í raun og veru væri rétt að miða við, væri ekki kröfur manna til lífsins, heldur mismunurinn á ýmsum stöðum á verði hinna brýnustu lífsnauðsynja, sem hver maður þarf til þess að geta lifað eins og manneskja. Þar er ég honum sammála. Það, sem okkur greinir því á milli, er það, hvort heildarverðið muni vera hærra eða lægra í þessum byggðarlögum eða sveitum, sem hér er gert ráð fyrir í mínum og hans till.

Ég hirði ekki að færa fleiri rök fyrir þessu en ég hef gert, því að það er vitað, að yfirleitt er einmitt þessi þáttur svo stór, og mun ódýrari í sveitum fyrir framleiðendur; að það gerir heildarkostnaðinn, sem menn verða að hafa til að lifa, lægri þar heldur en í Reykjavík og öðrum kaupstöðum.

Ég þóttist sýna fram á það með þeim upplýsingum, sem ég gaf, hvernig kostnaðurinn skiptist í Reykjavík, og líkt mun vera í öðrum kaupstöðum.

Það dæmi, sem ég tók, að sveitabóndinn nyti frádráttar fyrir hjú sín, áður en skattskyldar tekjur eru ákveðnar, það snertir ekki persónufrádráttinn, en sýnir bara það, að hann stendur að ýmsu öðru leyti betur að vígi heldur en aðrir menn í landinu. Ég veit það, eins og hv. þm. ætti einnig að vera kunnugt, að það er ekki nema tiltölulega sáralítill hluti af húsmæðrum í kaupstöðum, sem hafa húshjálp, en aftur á móti eru ýmsir í sveitum, sem hafa aðstoð við heimilisstörfin, ekki einungis bændur, heldur líka embættismenn, sem ekki eru framleiðendur, ef þeir hafa ráð á því að veita sér húshjálp. Yfirleitt mun það vera svo, að menn, sem hafa svipaðan efnahag, veita sér yfirleitt svipuð þægindi.

Ég hygg, að það sé þarfleysa að halda lengur áfram þessum kappræðum okkar, en vil endurtaka það, sem ég sagði fyrr, að þessa till., sem ég og hæstv. viðskmrh. bárum fram, ber ekki að skoða svo, að ég telji þann mismun, sem er á persónufrádrættinum, að hann sé jafn mismuninum, sem er á framfærslukostnaðinum í hinum mismunandi byggðarlögum, en aðeins til þess, að þingið viðurkenni þá staðreynd, sem hver maður veit, að er fyrir hendi.

Hv. þm. sagði, að kaupgjaldið væri hæst í Reykjavík og öðrum kaupstöðum, en lægra í sveitunum. Í höfuðatriðum er það rétt, einmitt vegna þess, að lífið sjálft sýnir, að það er ómögulegt að komast hjá því, ef fólk á að geta lifað af launum sínum, að þau séu mismunandi eftir því, í hvaða byggðarlögum þeir búa. Þar með hefur hann sannað, að það sé eðlilegt og sjálfsagt að gera mismun á persónufrádrættinum eftir því, um hvaða byggðarlög sé að ræða.