06.05.1941
Neðri deild: 52. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 733 í B-deild Alþingistíðinda. (1704)

83. mál, landskiptalög

Eiríkur Einarsson:

Ég get fallizt á ummæli hv. frsm. um þessa breyt., svo langt sem þau ná. Þau tilfelli eru hugsanleg, að óánægja með landskipti sé milli aðila, sem í raun og veru sitja við sáttaborð. En sé gengið út frá því, sem er miklu algengara, að grunnt sé á því góða milli þeirra óánægðu, er öðru máli að gegna. Það vakti sérstaklega fyrir mér, að óánægja annars aðilans gæti orðið árekstraratriði gagnvart hinum. Ég veit, að ég þarf ekki að skýra þetta nánar. Viðvíkjandi fyrirspurn hv. frsm. um það, hvort meining mín væri sú að vilja fella niður 3. tölul. 1. gr., þá finnst mér gr. svo tvíræð eins og hún er nú orðuð, að nauðsynlegt sé að fella niður þennan tölul., og mundi ég þá greiða atkv. með gr. Ég vænti þess, að hv. n. athugi, hvort ekki megi breyta frv. á þennan hátt, þar sem ég treystist ekki til að bera fram brtt. við gr. eins og hún er orðuð í heild sinni og liggur nú fyrir.