12.05.1941
Efri deild: 58. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 737 í B-deild Alþingistíðinda. (1733)

123. mál, læknisvitjanasjóður

Frsm. (Sigurjón Á Ólafsson) :

Herra forseti! Þetta mál er komið frá hv. Nd. og er flutt af hv. 2. þm. Rang. og hv. þm. N.-Ísf. Efni þessa frv. er á þá lund, að gert er ráð fyrir að stofna læknisvitjanasjóði, sem ríkið leggur svo til allt að 1 kr. á hvert nef í viðkomandi læknishéruðum, þar sem þessir sjóðir verða stofnaðir. Þetta er efni l. gr.

Í 2. gr. er svo nánar gert ráð fyrir því, hver séu hlunnindi þeirra, sem eiga að njóta styrks úr læknisvitjanasjóðunum, og hverjir eigi að hafa stjórn þessara sjóða með höndum á viðkomandi stöðum. Svo er til ætlazt, að í viðkomandi læknishéruðum sé bæjarfógeti, sýslumaður eða. lögreglustjóri sjálfkjörnir, og auk þess viðkomandi héraðslæknir sem annar maður, og 3. maður sé oddviti eða maður, sem oddvitar hreppsins koma sér saman um að kjósa í þessa stjórn. Þessi stjórn á að sjálfsögðu að hafa alla vörzlu sjóðsins, og að öðru leyti að úthluta úr honum til þeirra, sem talið er, að slíks styrks þurfi með, sem sjóðurinn gerir ráð fyrir. Það er gert ráð fyrir því við nánara starfssvið sjóðsins, að honum sé sett reglugerð.

Um leið og slíkur sjóður er stofnaður í einhverju læknishéraði, þá er að sjálfsögðu felldur niður sá styrkur, sem til slíkrar starfsemi er veittur á fjárl. Á fjárl. yfirstandandi árs er varið í þessu augnamiði tæpum 13 þús. kr., sem er beinn styrkur til læknisvitjana í hinum ýmsu héruðum á landinu. Héruðin, sem njóta styrksins, eru 31, og mér telst, að innan þessara læknishéraða, sem nú fá þennan styrk, séu innan við 40 hreppar. Lægsti styrkur nú er 150 kr. til eins hrepps, og hæsti styrkur er 1 þús. kr. til annars hrepps, sem er raunar smákaupstaður, en það er Raufarhöfn. Ef það, yrði almennt, að slíkir sjóðir yrðu myndaðir, þá mundu að sjálfsögðu falla niður þessar fjárhæðir og þessi sundurliðun, sem nú er í fjárl., og það er m. a. vegna þess, að allshn. er fylgjandi þessu frv. Hún telur það mjög vel ráðið, að sundurliðunin, sem nú er í fjárl., hverfi, og í staðinn komi ein ákveðin upphæð, sem yrði bundin í þessum l., því hún fer að sjálfsögðu eftir því, hve margir sjóðir verða stofnaðir og í hve fjölmennum héruðum þeir verða. Ég skal ekki neita því, að ef almennt yrði horfið að því ráði að stofna þessa sjóði, þá má reikna með, að hér verði um nokkru hærri upphæð að ræða en ríkissjóður hefur orðið að greiða til þessa. Þó að gert sé ráð fyrir því, að þriðjungsframlag komi annars staðar að, m. ö. o. að hrepparnir leggi fram þessa upphæð, þá eru það samt allveruleg töp fyrir héruðin, að slíkir sjóðir sem þessir verði stofnaðir.

Ég hygg nú, að innan n. sé nokkurn veginn samhljóða álit um það, að þessir læknisvitjanastyrkir þurfi að vera í allmörgum stöðum á landinu, þar sem strjálbýlt er og erfitt að sækja lækni, sérstaklega þar sem þarf að fara langan fjallveg eða sjóleið og sókn læknis með mönnuðum bát kostar einstaklinginn, sem hlut á að máli, mjög stórar upphæðir, sem ekki eru sambærilegar við þá góðu aðstöðu, sem fólkið í kaupstöðunum hefur til að leita læknis, þar sem læknirinn býr. Og því er ekki óeðlilegt, þó að einstaklingar þeir, sem búa í strjálbýlinu, njóti styrks af almannafé til þess að greiða fyrir læknisvitjunum.

Allshn. fellst á þessa stefnu, sem í frv. felst, jafnvel þó að það feli í sér nokkuð meiri útgjöld úr ríkissjóði heldur en verið hefur til þessa.

Ég skal ekki fara fleiri orðum um þetta mál. Við sáum ekki ástæðu til að breyta neinu í frv. og mælum með því, að það. verði samþ. í því formi sem Nd. samþ. það.