12.05.1941
Efri deild: 58. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 738 í B-deild Alþingistíðinda. (1735)

123. mál, læknisvitjanasjóður

Páll Hermannsson:

Ég vildi aðeins vekja athygli hæstv. Alþ. á því, að hér í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að fjárframlag ríkissjóðs til þessara sjóða megi ekki vera hærra en. 1 kr. á hvern þann íbúa í læknishéraðinu, sem á heima utan þess kauptúns, kaupstaðar eða hrepps, sem læknirinn á heima í. Gæti ekki viljað til, að einhvers staðar stæði þannig á, að læknir sæti t. d. í allfjölmennum hreppi eða kauptúni, en hefði þó læknisþjónustu í öðrum hreppi, sem ætti mjög erfitt með læknisvitjun, en væri sjálfur fámennur. Ég vildi biðja hv. n. að athuga það, hvort þessi eina króna gæti ekki í einstökum tilfellum orðið fulllítið framlag og ekki sízt með tilliti til þess, að nú er krónan ekki í ákaflegu háu verði. Annars finnst mér mjög eðlilegt, að reynt sé að setja 1. sem þessi. Það hefur verið að undanförnu úthlutað úr ríkissjóði fé í þessu augnamiði. Og eins og högum er háttað, finnst mér þetta sanngjarnt. Það er t. d. á það að líta, að læknar taka nokkuð af launum sínum í aukatekjum, og nokkuð af þessum aukatekjum eru beinlínis dagpeningar, sem þeir fá á ferðalögum, sem þeir, sem vitja læknis, eiga að greiða, auk annars gjalds til læknis. Mér finnst, að það geti komið til mála að hækka laun lækna, sem búa í dreifbýlinu, en láta dagpeninga þeirra á ferðalögum algerlega falla niður. Ég vildi gjarnan heyra upplýsingar hv. frsm. um það, hvernig n. hefur skilið þetta í 1. gr. að því er snertir þriðjungsframlagið. Það má vera, að það sé skýrt, en mér virðist hv. frsm. skilja það nokkuð öðruvísi heldur en ég skil það.