30.04.1941
Efri deild: 48. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 766 í B-deild Alþingistíðinda. (1870)

126. mál, veðmálastarfsemi í sambandi við kappreiðar

Flm. (Sigurjón Á. Ólafsson) :

Herra forseti! Ég hef nú ekki miklu við að bæta frá því, sem grg. hermir um tilefni þessa máls. Ég skal geta þess, að mér er kunnugt um, að sjómannadagsráðið, sem nefnt er hér í frv., hefur þegar rætt við hestmannafél. Fák um það, hvort það teldi, að þessi breyt. kæmi sér nokkuð verr fyrir það. Var það fullt samkomulag við þetta félag, að þessi breyt. yrði gerð, þar sem þeir töldu, að þetta kæmi sér ekki að neinu leyti í bága.

Lagabreyt. þessi er gerð með það fyrir augum að styrkja og efla sjóminjasafn það, sem sjómannadagsráðið hefur verið frumkvöðull að, að stofnað yrði. Eins og sagt er í grg., hefur Alþ. viðurkennt þessa hugmynd og styrkt hana um tveggja ára skeið með dálítilli upphæð á fjárl., sem yrði varið til stofnunar þessa safns og til að kaupa handa því ýmsa muni, sem dreifðir eru um allt land. Enn fremur hafði ríkisstj. afskipti af undirbúningi málsins og til hennar var leitað, þegar skipa átti formann fyrir n. þeirri, sem starfar að þessum málum. En sjómannadagsráðið leit svo á, að þrátt fyrir góðan vilja Alþ. um fjárframlög, yrði að afla meira fjár, meðal annars vegna þess, að ýmsir merkir munir í landinu eru að fara forgörðum, og vinda verður bráðan bug að því að bjarga þeim, ef þeir eiga ekki að glatast. Getur það tekið allmikla fyrirhöfn að tína saman og leita uppi þessa fágætu muni, og eðlilega hefur það talsverðan kostnað í för með sér að koma þeim á ákveðna staði. Auk þess eru sumir þeirra ekki falir nema fyrir nokkurt verð. Í þessu sambandi má benda á, að slíkt safn sem þetta ætti að eiga heil skip, t. d. hákarlaskip, sem geymd væru handa eftirkomendunum sem sýnisgripur um líf forfeðranna. Auðvitað hefur það talsverðan kostnað í för með sér að hreyfa slíka muni, sem ég nefndi, og svo getur verið um fleiri.

Hvað mikið fjármagn kynni að skapast af slíkri starfsemi, er ekki gott að segja um. En mjög margir hafa mikinn áhuga fyrir góðum gæðingum, enda eru kappreiðar Fáks vel sóttar. Kappróðurinn er mjög gömul íþrótt hér á landi og afar nauðsynleg öllum, sérstaklega þeim, er sjó stunda. Var hún mjög iðkuð. meðan árabátarnir voru notaðir, og varð hver maður að vera vel þjálfaður í róðri, ef hann átti að vera álitinn hæfur til sjósóknar. En með vélaöldinni hefur róðurinn horfið úr sögunni að mestu leyti og er nú lítilsháttar stundaður sem íþrótt. Eru menn þeirrar skoðunar, að gera eigi þessa gömlu íþrótt að skyldukvöð fyrir hvern einasta mann, sem út á sjóinn leitar. Kappróðurinn þykir líka mikil og skemmtileg íþrótt, og eins og kunnugt er, er hún mjög iðkuð við erlenda háskóla. Ætti það að verða okkur metnaðarmál, að róðurinn hverfi ekki úr sögunni með næstu kynslóðum.

Sjómannadagsráðið er fulltrúi sameinaðra stéttarfélaga í bænum, þeirra manna, sem sjóinn stunda, og eins og getið er um í grg., hefur ráð þetta gert þegar ráðstafanir til, að byggðir verði sérstakir bátar til þess að halda uppi kappróðrum. Kosta félögin til þess miklu fé, enda eru bátar dýrir með því lagi, sem nauðsynlegt er til kappróðurs, og þurfa að vera mjög vandaðir. Er ætlazt til, að 75% af veðmálastarfsemi í sambandi víð kappróðurinn renni til sjóminjasafnsins, en afganginum varið til aukins bátakosts.

Þetta er í stuttu máli það, sem bak við frv. liggur. Hér er ekki neitt tekið úr sjóðum ríkisins, heldur er um heimild að ræða til fjáröflunar til styrktar góðu máli, og vona ég, að hv. d. geti fallizt á frv.