04.04.1941
Neðri deild: 31. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 802 í B-deild Alþingistíðinda. (1982)

77. mál, fiskveiðasjóður Íslands

Pétur Ottesen:

Ég skal ekki vera margorður um þetta frv. við þessa umr. Það gefst væntanlega tækifæri til að fara nánar út í það við 2. umr. málsins, og á þá raunar betur við að fara út í einstakar gr. frv. Vil ég mega vænta þess, að sú umr. fari fram bráðlega, því ég vil mjög eindregið taka undir þær raddir, sem fram hafa komið, að nauðsyn sé að setja löggjöf um rýmkun ákvæðanna um fiskveiðasjóðinn og með því sýna viðleitni til að mæta hinni auknu lánsþörf, sem blasir við í þessu efni, og bæta aðstöðuna til hagkvæmari lána. Ég sé, að samkvæmt þessu frv. muni það verða verulegri fjárhæð minna, sem sjóðnum fellur til, en ætlazt var til samkv. mínu frv. Hins vegar er rétt að geta þess, að með þessari efling á sjóðnum er ekki krafizt jafnmikilla fórna af útgerðinni eins og gert er ráð fyrir í frv. mínu, því hér er ætlazt til, að helmingur af því útflutningsgjaldi, sem til ríkissjóðs fellur nú, verði lagt til fiskveiðasjóðs sem tekjur handa honum, til viðbótar því útflutningsgjaldi, sem honum áskotnast samkvæmt l. um fiskveiðasjóðsgjald. Ég tók það fram við l. umr. um frv. mitt, að ég viðurkenndi fúslega, að með því væri nokkuð hart að gengið, en þegar litið væri til hinnar miklu þarfar fyrir útgerðina, sem fyrir hendi væri, og þess hagnaðar í betri lánskjörum, sem leiðir af að sjóðnum er lagt til mikið sjálfseignarfé, þá fyndist mér þó vel mega færa rök fyrir því, að svo langt yrði gengið sem ég lagði til í frv. mínu. Hins vegar ber að fagna hverju samkomulagi, sem orðið getur, um þetta mál og felur í sér allverulega lausn á málinu, eins og þetta frv. óneitanlega gerir, þó að mér virðist hins vegar, að með því muni sjóðurinn ekki fá tekjuauka, sem nemur öllu meiru en helmingi af þeim tekjum, sem honum hefði áskotnazt samkvæmt mínu frv. Það hefur borizt í tal, að sjóðurinn ætti allmikla tekjuvon í greiðslum úr skuldaskila sjóði vélbátaeigenda. Út af þessu vil ég taka fram sem mína skoðun, að ég álít, að það sé hæpið að treysta mjög á þetta sem mikla tekjuvon. upphaflega, þegar ákvæðin um þetta voru sett, var talið, að þetta væri hæpin tekjuvon, enda sýndi reynslan það, allt fram til verðlagshækkunarinnar á s. l. ári, að þetta var ekki út í loftið. Hitt ber svo að viðurkenna, að síðan hagur útgerðarinnar batnaði, hefur orðið gagngerð breyting á í þessu efni, og það mun að sjálfsögðu haldast meðan ástandið er eins og það nú er. En það má undir engum kringumstæðum láta þetta villa sér sýn um, að þarna sé um framtíðartekjuvon að ræða á borð við það, sem verið hefur á síðustu mánuðum.

Ég lofaði í upphafi máls míns að fara ekki út í umr. um einstakar gr. frv., enda eiga þær umr., sem ég vildi hefja um þetta mál, betur heima við 2. umr.