21.05.1941
Efri deild: 65. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 858 í B-deild Alþingistíðinda. (2104)

110. mál, húsmæðrafræðsla í kaupstöðum

Frsm. minni hl. (Jónas Jónsson) :

Það er ekki alveg rétt hjá hv. síðasta ræðumanni, sem hann gaf í skyn, að málið hefði verið vel undirbúið, því að fyrst og fremst er það hið leiðinlega við það, svo stórt mál sem þetta er, að það hefur ákaflega lítil hreyfing verið á því að gera nokkrar framkvæmdir á þeim stöðum, sem bornir eru fram sérstaklega, kaupstöðunum. En eins og hv. frsm. tók fram, þá hefur mikill áhugi verið ríkjandi í þessum málum í sveitunum, og konurnar þar hafa lagt fram krafta sína til þess að koma upp húsmæðraskólum, eins og t. d. á Staðarfelli, Blönduósi, Laugalandi, Laugum og á Hallormsstað. En í hinni stóru Reykjavík hefur ekki verið gert neitt í þessa átt, fyrr en nú um leið og hafinn er nokkur undirbúningur undir það að byggja húsmæðraskóla. Sums staðar í kaupstöðum hefur þessum skólum verið komið upp, t. d. á Ísafirði. Þar hefur verið rekinn myndarlegur, lítill skóli í mörg ár, og þar er hægt að segja, að áhugi kvenna hafi verið sambærilegur við það, sem verið hefur í sveitunum. Þess vegna er náttúrlega ekki hægt að neita því, að á meðan ekki er sérstakur áhugi fyrir svona málum á þeim stöðum, þar sem á að hjálpa, þá vantar mikinn undirbúning.

Það er ekki hægt að segja, að þetta mál sé borið fram sem menntmnfrv., og ekki er það stjfrv. Það virðist því vera þannig, að þessar konur hafi tekið frv. um sveitaskólana frá 1938 og breytt því, líklega án þess þó, að, það hafi verið gert á þann hátt, að það væri eðlileg breyt., — svo hafi stj. sent málið til n., og hún hafi svo látið það fara áfram. Þannig hefur málið oltið mjög hirðuleysislega gegnum þingið, án þess að hinir stærri ágallar hafi verið lagaðir. Hin eina aths., sem við frv. hefur verið gerð, er svo skrifl. brtt., sem kom fram við 3. umr. í Nd. Ef hv. þm. (SÁÓ) kallar þetta góðan undirbúning, þá er hann ekki kröfuharður. Enn meira undrar mig þó á því, að fulltrúi Sjálfstfl. skuli fylgja þessu máli fram, eins og það er, vegna þess að hér er um að ræða hreinan og beinan ríkisrekstur. Það hefði mátt vænta þess af sjálfstæðismönnum, sem vilja leggja mikið upp úr sjálfsbjörg manna, að þeir hefðu stutt mjög að því, að einstaklingar kæmu upp slíkum skóla hér í Reykjavík í stað þess að hann yrði rekinn af ríkinu. Ég álít, að eins og nú standa sakir, þá hefði verið ástæða til þess að ætla, að hér í Reykjavík hefði verið byrjaður myndarlegur undirbúningur í þessu máli fyrir nokkrum árum, — það hefði verið eðlilegra heldur en að þingið svo að segja byrji á því að búa til l., áður en nokkur verulegur undirbúningur er hafinn um málið. Ég skal annars taka nokkur dæmi úr okkar skólasögu. Fyrir 11 árum, þegar gagnfræðaskólal. voru sett, þá voru í flestum kaupstöðum komnir slíkir skólar, og þar að auki var sú löggjöf nokkuð mikið og vel undirbúin. Þingið taldi þá rétt að skipta rekstrarkostnaðinum milli bæjarfélaganna og ríkisins. En meiri hl. menntmn. neitar nú algerlega að láta nema hverfandi lítinn stofnkostnað koma á bæina og ekkert af rekstrarkostn. Ég vil vekja eftirtekt hv. frsm. meiri hl. á því, hvað tilgangslaust er að samþ. slík l. sem þessi, ef ekki er neinn áhugi ríkjandi á bak við þetta mál. Hér í Reykjavík er skóli, svo kallaður Ingimarsskóli, sem hefur haft um 300 nemendur. Þessi skóli hefur starfað í 11 ár án þess að ríkið hafi lagt til hans nema 28 þús. kr. og bærinn ekki neitt. En skólastjórinn hefur verið svo hagsýnn, að hann hefur getað reytt saman nokkra fjárhæð á hverju ári, þannig að skólinn á nú talsverðan byggingarsjóð upp á að hlaupa. Á þessum 11 árum hefur verið byggt myndarlegt skólahús í Hafnarfirði, einnig er gott hús á Ísafirði, bæjarstj. Siglufjarðar hefur einnig komið upp skóla. Maður getur einnig tekið Norðfjörð og Akureyri, þá kaupstaði vantar algerlega skólahús, og í Vestmannaeyjum er leiguhús notað til kennslunnar, og það er víst, að skólinn óskar eftir breyt., en fær hana ekki samt sem áður. Nú vildi ég spyrja hv. 2. landsk., hvaða líkur eru til þess, að þessi löggjöf hafi nokkra þýðingu, úr því að Ingimarsskólinn, sem búinn er að starfa í 11 ár og hefur fulla þörf fyrir hús, hefur ekki getað fengið skólahús, enda þótt skólastj. hafi dregið saman talsverða upphæð til þess að styðja þetta. Til hvers er að vera að setja löggjöf eins og þessa algerlega út í bláinn. Ég ætla samt að fylgja þessu frv. milli umr., þó að ég búist við, að lítið verði úr framkvæmdum fyrst um sinn hér í Reykjavík, og það er þó eini staðurinn, sem nokkuð var undirbúinn, þó að sá undirbúningur væri mjög lítill.

Ég hef gert nokkrar brtt. við frv., sem snerta efnisatriði þess. Ég tel það mjög undarlegt, að þær konur, sem hafa gert þetta uppkast, skuli ekki hafa haft nánari upptalningu á því, hvað nemendur eiga að læra, — ég hef því leyft mér að bæta inn í nokkrum námsgreinum, til þess að það léki ekki neinn vafi á því, hvað ætti að kenna. Eitt af því, sem vantar hér inn í, og einnig hefur vantað hjá sveitaskólunum, er meðferð ungbarna. Ég hef leyft mér að setja það hér inn, því að það er undarlegt að gera það ekki að skyldu fyrir þær ungu stúlkur, sem stunda nám í þessum skólum, að þær læri að fara með ungbörn. Margar ungar stúlkur hafa áhuga fyrir brúðum, a. m. k. þegar þær eru á bernskuskeiði, og það er lítið samræmi í því, að ungar stúlkur, sem hafa haft áhuga fyrir brúðum, séu ekki látnar nota þann áhuga til þess að æfa sig í því að fara með ungbörn. Mér finnst það vera hirðuleysi að kasta svona höndunum að því, hvað eigi að kenna í þessum skólum.

Það er gert ráð fyrir sérstökum skólan. fyrir þessa skóla. Ég hef lagt til, að sérstök skólan. yrði í Reykjavík, og yrði hún skipuð 2–3 mönnum. Í öðrum kaupstöðum gætu skólan. gagnfræðaskólanna haft þetta með höndum. Þetta er ekki stórt atriði, en mætti þó fara betur. Á margan hátt er nauðsynlegt að geta haft sem nánast samstar í milli þessara skóla og gagnfræðaskólanna, t. d. með íþróttir og annað fleira, sem gagnfræðaskólarnir geta hjálpað með. Það er mjög eðlilegt, að þessir skólar hafi sem mesta samvinnu. T. d. hefur skólastj. í Vestm. verið með ráðagerðir um það að geta kennt matreiðslu í skólanum. Þar hafa nú þegar verið haldin námskeið í matreiðslu fyrir skip og báta, og hefur það tekizt svo vel, að þeir piltar, sem þar hafa verið, eru eftirsóttir í bænum í staðinn fyrir þernur. Það er lítill vafi á því, að utan Reykjavíkur verður mest samband milli húsmæðraskólanna og þessara gagnfræðaskóla.

Þá kem ég að 8. gr. Þar hef ég farið bil beggja. Í staðinn fyrir, að í frv., eins og það lá fyrir n., var gert ráð fyrir, að ríkið kostaði þessa skóla að ½, kom þessi skrifl. brtt., sem setti 3/4 á ríkið og ¼ á bæina, og þar að auki er gert ráð fyrir, að öll kennsla komi á ríkið. Þetta hlýtur að vera borið fram fyrir ókunnugleika þeirra, sem sömdu frv. Reglan, sem gilt hefur um gagnfræðaskólana, er sú, að bæirnir leggi fram 3/5 af stofnkostnaði skólanna og rekstrarstyrk í sama hlutfalli, en ríkið leggur fram 2/5 bæði í stofnkostn. og til kennslunnar. Nú vil ég fara bil beggja og legg til, að kostn. við byggingar greiðist að 3/5 úr ríkissjóði og 2/5 frá bæjunum, — á sama hátt skiptist kennsla sú, sem hér er tilgreind.

Ég ætla þá að færa rök fyrir því, hvers vegna ég álít, að það sé ekki nein ósanngirni í því að hafa ekki alveg sömu fríðindi í sveitum og bæjum. Það vakir ekki fyrir mér með þessar í till. að létta undir með sveitunum, en þyngja á bæjunum, heldur er hún aðeins byggð á réttum skilningi á því, hvernig aðstaðan er. Ég hef í nál. mínu útskýrt það, að sveitaskólarnir verða að vera allt annars eðlis en kaupstaðaskólarnir. Sveitaskólarnir verða að vera heimavistarskólar fyrir kennara og stúlkurnar, auk þess sem þar verða að vera hinar nauðsynlegustu byggingar fyrir búskap, til þess að hægt verði að kenna undir stöðu undir réttan búskap. En það vita guð og menn, að það er ekkert vit í því að hafa kúabú eða svínabú við skóla hér í Reykjavík, því að það er ekki nein aðstaða til þess fyrir fólkið, sem vex upp í bæjunum, að hafa neinn sveitabúskap. Byggingarkostnaður sveitaskólanna hlýtur því að verða meiri en kaupstaðaskólanna, þar sem þeir verða einnig að hafa búskap. Einn höfuðmisskilningurinn í þessu frv. er sá, að þessar góðu konur ætlast til þess, að kaupstaðaskólarnir verði hafðir með heimavistum. Ég get upplýst það, að sumir af mestu ráðamönnum bæjarins hafa aðra skoðun á þessu, — þeir álíta, að það sé hin mesta fjarstæða að ætla að búa út heimavistir í þessum skóla. Að þessu athuguðu verður það ljóst, að allur kostnaður við sveitaskólana hlýtur að verða miklu meiri en í kaupstöðunum, þar sem stúlkurnar geta búið á heimilum sínum, þ. e. sofið heima. Hið sama er að segja um kennara skólans (í Rvík), engar líkur eru til þess, að farið verði að byggja yfir þá í sambandi við skólann. Ég hef þannig leitt rök að því, að skólakostnaðurinn er miklu meiri í sveitunum. Í sveitunum er líka miklu meiri skólaþörf, þar verður árlega að vísa stórum hóp umsækjenda frá vegna rúmleysis skólanna og þó er ekki nema lítill partur af stúlkum, sem reyna að sækja um skólana. Þar kemur til greina, að margar þessar stúlkur eru svo fátækar, að þær geta ekki risið undir því að kosta sig.

Þetta frv. virðist gera ráð fyrir því, að hér í Reykjavík verði byggður skóli fyrir um 30 nemendur á ári, eða um það bil fyrir eina af hverjum tíu stúlkum, sem fermdar eru hér árlega. Ég geri ráð fyrir því, að ástæðan fyrir því, að menn hugsa svo smátt, sé sú, að menn hafi látið fyrirmyndina í sveitunum villa sig. En þess er að gæta, að hinar smáu skólabyggingar í sveitunum voru neyðarúrræði þar, af því að ekki var hægt að hafa heimangöngu. Ef menn hugsa sér, eins og líka er rétt, að hafa þessa skóla það stóra, að þeir nái til flestra húsmæðraefna, er nauðsynlegt, að hinar ungu stúlkur fái með einhverju móti þá æfingu og þann lærdóm, sem nauðsynlegur er, til þess að þær geti rækt húsmóðurstarfið vel. Um þetta er ég alveg samdóma hv. frsm. meiri hl. Í þessum efnum hefur höfuðborgin ekki skilið sinn vitjunartíma, úr því að svona lítið hefur verið gert fram að þessu. Það er mikið velferðarmál fyrir bæinn, að hægt sé að koma upp stórum verkstæðum fyrir stúlkurnar, verkstæðum, sem fullkomlega munu borga sig. Það mun fullkomlega borga sig að gera þetta. Það er hins vegar eðlilegt, að ýmis félög hér í bænum, sem hafa getu til þess, veiti stuðning sinn í þessum málum.

Mér finnst það dálítið broslegt viðvíkjandi undirbúningi þessara skóla, að ríkið ætlar að leggja fram 3/4 stofnkostnaðar og auk þess allan kostnað við kennsluna.

Þá voru bollaleggingar í þessu frv. um það, að bæjarstjórnir og ýmislegt gott fólk í bæjunum ráði stofnun þessara skóla. Það á náttúrlega að fara saman með útlát og völd. Ef bæirnir eiga ekki að borga neitt til þessara skóla, þá eiga þeir vitanlega að ráða að sama skapi. Ég hef tekið þetta með, en það er ekki af því, að ég álíti, að það hafi verið öfugt, heldur af því, að það er skakkt hugsað. Ég álít, að bæirnir geti ekki ráðið þessu. Ef þeir vilja komast hjá fjárútlátum til skólanna, þá eiga þeir ekki heldur að ráða framkvæmdum þeirra.

Eitt af því, sem hefur gleymzt við þessar breyt. í hv. Nd. við 3. umr. og ég legg til að verði leiðrétt, er það, að í 10. gr. stendur ennþá, að bærinn eigi að borga hálfa húsaleigu, af því að upphaflega var gert ráð fyrir að bærinn borgaði hálfan stofnkostnað. Nú færi ég það til samræmis við frv. Ef menn vilja leggja áherzlu á að samþ. vitleysu, þá er það aðeins til að gera frv. skemmtilegt og til þess að tryggja það, að endurskoðun á því fari fljótlega fram.

Ég hef í nál. bent á það, að svipað þessu hafi verið ástatt á Alþingi 1919. Þá stóðu sumir þm. í þeirri trú, að ríkið væri svo ríkt, og það voru náttúrlega ekki lakari þm. þá en nú. En ein fjárveiting stendur ennþá sem minnisvarði um það, hvernig stríðsgróðavitleysan hefur áhrif á menn. Það var þegar Alþingi veitti Jóni Dúasyni, nýútskrifuðum hagfræðikandidat, 12 þús. kr. námsstyrk til að læra bankafræði. Þessari rausn fylgdi ekki nokkur skynsamleg fyrirhyggja. En auðvitað var þessi maður svo hygginn, að hann sótti svo seinna um bankastjórastöðu við veglegasta banka landsins og sagði eins og var: Alþingi hefur mælt með mér, og það er ekki út í bláinn, heldur af því, að ég er valinn til stórra hluta. Nú fór það svo, að maðurinn notaði þessa peninga, en hann hefur ekki fengizt við neina bankastarfsemi síðan. Mér finnst, að afgreiðsla þessa máls hjá meiri hl. Nd. minni á þetta sama ástand.

Það er rétt, að sem stendur hefur fjmrh. meira í kassa en vant er. En nú lítur því miður ekki sem bezt út, þar sem öll útflutningsverzlun okkar til Englands hefur fallið niður, og í um 40 íshúsum á landinu er mikið af fiski, sem ætti að vera kominn til Englands, en ekki kemst þangað eins og sakir standa. Ég hefði gaman af að skjóta því til míns vinar, hv. frsm. meiri hl., hvort hann sé viss um, þegar þetta ástand er búið að standa lengi, að ríkissjóður, sem nú á mikið af aurum, verði eins ríkur og hann gerir ráð fyrir.

Ég veit, að þær tölur, sem hér eru nefndar, setja ekki ríkið á hausinn. Það er bara skilningsleysið á að taka málið eftir eðli sínu, sem ég get ekki sætt mig við. Þó að nú sem stendur sé dálítið til í ríkissjóði, þá er það oftast svo, að hann er fátækur. Það er þess vegna engin framsýni í því að vera að gera útreikninga og framkvæmdir núna, eins og þegar 12 þús. kr. námsstyrkurinn var veittur.

Þetta frv. stefnir að því leyti í rétta átt, að það er æskilegt, að komið sé hreyfingu á húsmæðrafræðsluna í kaupstöðum. Og ég ætla að greiða atkv. með brtt. mínum og á móti brtt. í frv. En samt sem áður mun ég greiða atkv. með frv. út úr hv. d.

Ég vildi nota þetta tækifæri til þess að gera grein fyrir því, hvernig ég tel, að þessu máli eigi að vera skipað í framtíðinni. Ef menn vilja

samþ. einhverja vitleysu núna, þá þeir um það. En þeir verða þá kannske fúsari á að laga það, þegar reynslan kennir þeim, að ekki er hægt að byggja á því síðar.