26.05.1941
Sameinað þing: 21. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í B-deild Alþingistíðinda. (212)

1. mál, fjárlög

Þorsteinn Þorsteinason:

Herra forseti! Það ber svo til, að ég tek til máls næst á eftir hv. þm. Mýr. og að hann er ekki með till., sem ég mun mæla hér fyrir og er á þskj. 622,VIII. Hann gat ekki stillt sig um, þó að hann hafi seinna meir hug á að koma með slíka till. hér, annað en snúast heldur á móti henni og frekar eggja þingmenn til þess að mæla ekki með henni, eða samþykkja hana ekki. Þessi till. er um það, að ríkissjóður ábyrgist fyrir kauptúnin á Snæfellsnesi, Ólafsvík og Hellissand, allt að 640 þús. kr. lán, sem þau þurfa að taka til rafveitu nú á þessu ári.

Það er þannig farið með mig, að ég ætla ekki að segja margt um þessa till., af því að mín aðstaða er þar dálítið einkennileg. Ég ætla ekki að koma fram með neina brtt. við fjárlögin sem nm. í fjvn., en þar sem mér hefur verið falið að fara að nokkru leyti með mál Snæfellinga á þessu þingi í fjarveru þm. þeirra, þá er mér ekki unnt, eins og hv. þm. vita, að ganga framhjá beiðni þessara kjósenda í Snæfellsnessýslu, og varð ég því að flytja þessa till., og vænti ég þess, að þingheimur taki þessu máli vel.

Ég get tekið það fram til skýringar þessu máli, að afl það, sem á að nota til þessarar rafvirkjunar, verður tekið úr Fossá, sem er rétt innan við kauptúnið Ólafsvík og hefur góða, haganlega og mikla fallhæð, og verður því. mjög hægt um virkjunina til Ólafsvíkur. En á milli Ólafsvíkur og Sands er að vísu mikil vegalengd, um 7 km., og gerir það kostnaðinn við rafveituna ekki svo lítinn.

Fulltrúar þessara hreppa hafa komið hingað í vetur til þess að láta athuga þetta mál, og hafa þeir fengið áætlun um alla aðstöðu. Einnig hafa þeir leitað fyrir sér um lán til þessara framkvæmda, og hafa þeir von um það, ef ríkisstj. bregzt vel við og vill styðja mál þeirra.

Ég verð að segja það um þessi kauptún, að þau hafa oft að undanförnu borið mjög skarðan hlut frá borði, þegar verið var að útbýta gæðum þessa heims frá Alþingi. Það hefur lítið verið lagt þar í hafnargerðir, til lendingarbóta eða til annarra mannvirkja, miðað við önnur kauptún landsins. En einmitt þessi kauptún liggja nærri ágætum fiskimiðum, og þau hafa verið forðabúr margra landsmanna, því að það hefur verið svo, að í harðindum leituðu bæði Norðlendingar og Sunnlendingar „undir Jökul“ til bjargar, þegar hún var þrotin heima hjá þeim. Ég geri ráð fyrir, að einhverjir minnist gestrisni þessara kauptúna, en ég ætla ekki að fara frekar út í það hér.

Nú um nokkur ár hefur brugðizt mjög bjargarvon í þessum kauptúnum. Lendingarskilyrði hafa verið slæm og fiskur minni en áður, og kauptúnin hafa því lent í fátækt og átt við erfiða aðstöðu að búa. Einkum hefur þó Hellissandur átt erfiða afkomu nú um langt skeið; en íbúarnir hafa ekki viljað flýja úr þorpi sínu, þó að þeir hafi átt þar við miklu verri lífskjör að búa en íbúar flestra annarra kauptúna á landinu.

Ég geri ráð fyrir því, að ef þessi rafveita kæmist á, þá mundi hún mjög styrkja þorpin til þess að halda við því frystihúsi, sem þegar er komið í Ólafsvík, og hjálpa til að koma upp öðru frystihúsi, sem í ráði er að koma upp á Sandi. Kauptúnin gætu bjargazt með miklu betra móti, ef rafmagn kæmi þangað nægilegt, og afkoma íbúanna, sem eru á 2. þús. manns, mundi stórum taka stakkaskiptum, ef þau fengju þessa rafveitu, og iðnaður þá aukast þar. Ég vona því, að Alþingi muni nú líta með sanngirni á þetta mál og styðja að því, að það nái fram að ganga.

Ég vænti þess einnig, að sú till., sem nú hefur komið hér fram aftan við þessa till., muni ekki verða því til trafala, heldur muni hún verða til þess, að hv. þm. styðji þetta mál. En sé sú till. sett til styrktar þessar í till. minni, þá vænti ég, að þeir styðji hana, en ef hún er sett til höfuðs henni, þá sýna þeir flutningsmenn hennar sinn hug í atkvgr. um þessa tillögu okkar.