17.04.1941
Efri deild: 37. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 885 í B-deild Alþingistíðinda. (2162)

101. mál, byggingar og landnámssjóður

Sigurjón Á. Ólafsson:

Ræða hv. frsm. gefur mér ekki tilefni til langrar ræðu. En út af því, sem hann mótmælti í minni fyrri ræðu, að ég sagði, að Alþfl. hefði átt ríkan þátt í því, að þessi l. voru sett um byggingar- og landnámssjóð, vil ég ráða honum til að lesa sér til í Alþ.tíð. og sannfæra sig um, að það er ekki allt út í loftið, sem ég sagði um þetta. (ÞÞ: Ekki allt). En þessi sjóður er byggður upp af þeirri hugsun, sem Jón heitinn Baldvinsson á sínum tíma flutti hér á þingi um nýbýli. Hann mun hafa flutt fyrst þá hugmynd, og upp úr því hygg ég, að þessi sjóður hafi verið stofnaður. En framkvæmdin hefur mestmegnis verið í höndum Framsfl., því að framkvæmdin hefur hvílt á nýbýlastjóra, sem einnig er búnaðarmálastjóri, og hefur honum farið sú framkvæmd prýðilega úr hendi. Þess vegna benti ég á, hvort þessi niðurlagning nýbýlastjórans væri nauðsynleg. Og ég hef ekki heyrt rök fyrir þeirri nauðsyn enn.

Að öðru leyti tel ég ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um málið á þessu stigi, því að mér skildist á frsm., að hann vildi taka það til góðviljaðrar athugunar, hvort Alþfl. gæti ekki átt mann í nýbýlastj. framvegis, sem hann hefði átt að hafa í slíkri n. frá byrjun. Þakka ég honum fyrir hans góðu undirtektir um það, svo langt sem þær ná.