25.04.1941
Efri deild: 44. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 895 í B-deild Alþingistíðinda. (2208)

122. mál, verkamannabústaðir

Bjarni Snæbjörnsson:

Ég ætla einungis að segja fáein orð, af því að mér virðist frsm. n. ekki hafa svarað því, sem hv. þm. Vestm. spurði um. Ég vil því endurtaka spurningu hans eins og mér virtist hún koma fram. En mér virtist hún á þá leið, að þar sem ákveðin væri í l. einhver upphæð, sem ríkissjóður átti að greiða, áður en dýrtíðin kom, skyldi nú greitt samkv. vísitölu úr ríkissjóði til þessara framkvæmda. Við skulum taka til dæmis hafnargerð, segjum, að 1. mæli svo fyrir, að ríkissjóður eigi að greiða 300 þús. kr. til hafnargerðarinnar og l. hafi verið samin áður en stríðið byrjaði. Þá er spurningin, hvort það sé meining allshn., að ríkissjóður fari að leggja fram til viðbótar þá upphæð, sem nemur hækkun dýrtíðarinnar. Þetta virðist mér vera það, sem hv. þm. Vestm. gat um, en ekki það, hvort það ætti að leggja þetta fé til hliðar þar til hægt yrði að hefja framkvæmd verksins. Það væri fróðlegt að fá upplýsingar um þetta hjá hv. frsm. allshn.