02.05.1941
Efri deild: 49. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 898 í B-deild Alþingistíðinda. (2218)

122. mál, verkamannabústaðir

Magnús Jónsson:

Ég verð að segja um þetta frv. almennt, að mér finnast forsendur þess vera hæpnar, því að það að bæta upp framlög til byggingarsjóðanna eftir vísitölu, sem ég skal koma að aftur, hver ætti að vera, byggist á því, að tilgangurinn ætti að vera sá að vera alltaf að byggja. Það getur ekki náð nokkurri átt, ef við fengjum tímabil, sem byggingarkostnaður færi mörg hundruð prósent upp, og þá yrði ekki hægt að byggja, en svo kæmi hann niður aftur og þá yrði farið að byggja, þá hefði í millitíðinni orðið að greiða einhverjar geysilegar, e. t. v. næstum ótrúlegar fjárhæðir í byggingarsjóðina til verks, sem engum dettur í hug að vinna. Þegar greidd er verðlagsuppbót á laun manna, þá er verið að greiða í þarfir, sem verður að fullnægja, jafnhliða því sem menn taka þessa borgun. En hér er ekki um það að ræða, að menn hugsi sér að byggja, hversu hátt sem verðið fer. Ég held þess vegna, að grundvöllurinn undir þessu sé nokkuð hæpinn og engan veginn sambærilegur við verðlagsuppbót á laun.

Um hitt atriðið, sem hv. 1. þm. N.-M. vék að, að verðlagsuppbótin ætti að miðast við vísitölu byggingarkostnaðar, er það að segja, að hans skoðun á því er alveg rökrétt. Ég vil aðeins benda á þann annmarka á þessu, að ég hygg, að þeir tímar geti komið, að það verði erfitt að reikna þessa vísitölu út. (PZ: Hagstofan reiknar hana árlega út.) Hvernig á að reikna verð á þeim vörutegundum, sem ekki eru til í landinu? Ég held þess vegna, að þetta frv. sé allhæpið og að það verði að reyna að finna einhverja aðra aðferð. Ég er hræddur um, að n. hafi ekki athugað málið nógu vel.

Ég vildi aðeins láta þetta koma fram nú, af því að þetta er 3. umr. Ef hins vegar breyta á frv., þá þyrfti að fresta umr.