27.05.1941
Efri deild: 69. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 907 í B-deild Alþingistíðinda. (2309)

146. mál, söngmálastjórar þjóðkirkjunnar

Frsm. (Árni Jónsson):

Herra forseti! Ég get byrjað á því, að mér er það mikil ánægja að vera frsm. þessa máls, vegna þess að ég hygg, að hér sé um hið mesta nytjamál að ræða. Ég hef persónulega reynslu af því, að söngur er eitthvað það hollasta, sem maður leggur fyrir sig, og þá ekki sízt safnaðarsöngur, hvort sem er í kirkjusöfnuði eða öðrum söfnuði. Enda er ekki dregið í efa, að söngur er alls staðar til þess að lyfta og til þess að menn færist saman. Og ég hygg einmitt, að á þessum tímum, sem nú ganga yfir, sé þess þörf, hér eins og annars staðar, að efla söng, bæði andlegan söng og veraldlegan söng, meira en nokkru sinni fyrr. Ég las það í „Times“ skömmu eftir byltinguna í Rússlandi, — en þá var ákaflega mikil neyð í Rússlandi og óeirðagjarnt, enda var þá matvælaskortur þar og erfiðleikar á öllum sviðum, — þá var það þannig þar, að mönnum var yfirleitt ákaflega illa launað allt, sem unnið var. Lærðir prófessorar, ef þeir yfirleitt fengu nokkuð að gera, voru ekki launaðir þar hærra þá en óbreyttir verkamenn. En það var sagt, að einn maður væri þar í landi, sem fengi laun eitthvað líkt og á Vesturlöndum tíðkaðist, og það var söngvarinn Sjaljapin. Hann var af stjórnarvöldunum fenginn til þess að syngja í samkomusölum. Og þetta þótti hafa betri áhrif til þess að sefa fólkið og efla frið en nokkuð annað.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir því, að skipaður skuli hér söngmálastjóri þjóðkirkjunnar, sem sé maður söngfróður, vanur að kenna söngflokkum, er á að halda námskeið með kirkjuorganistum og leiðbeina þeim um söngkennslu og söngstjórn, aðstoða þá við stofnun safnaðarsöngflokka og vinna á annan hátt að því, að safnaðarsöngur verði sem almennastur og fegurstur.

Það stendur hér ekkert um það, hver laun þessa manns eigi að vera. En þau eiga að greiðast úr ríkissjóði, og ég geri ráð fyrir því, að þau verði sómasamleg, því að vissulega verður þetta ekki þýðingarminnsti starfsmaður kirkjunnar, þegar þar að kemur. Ég mætti hér mjög vel gefnum leikmanni á götunni í gær, og þá barst þetta frv. í tal, og hann sagðist álíta, að höfuðvilla lútersku kirkjunnar væri það að gera ræðuna að slíku aðalatriði í guðsþjónustunni eins og gert hefur verið. Og ég hygg, það það sé höfuðvilla að leggja ekki meiri áherzlu á söng í kirkjunum en gert er, samanborið við ræðuna, og einkum með því móti að gera sönginn almennari en verið hefur. Í sveitum er það nú víða svo í kirkjum, að fáir standa þar við orgelið í messugerðum og syngja, og það oft af vanefnum, en fáir eða engir aðrir í kirkjunni syngja. Ég álít, að það ætti að syngja meira í kirkjunum, og sérstaklega, að söngnum sé hagað svo, að fólkið taki meiri þátt í honum en nú gerist. Með því væri söfnuðurinn ekki aðeins áheyrendur, heldur líka þátttakendur í guðsþjónustunni. Ég hef tekið eftir því við brezkar guðsþjónustur — og hv. þm. geta kynnt sér það mál nokkuð sjálfir hér nú —, a. m. k. veit ég, að þannig er oft um brezkar guðsþjónustur, að ræðan er þar tiltölulega mjög stutt, kannske ekki yfir 10 mínútur, en þar er almennt sungið, og sungið einraddað, í staðinn fyrir að hér er það svo, að söngkórar syngja í kirkjum, en flestir þeir, sem í kirkjunni eru, þegja. Í brezkum guðsþjónustum tíðkast það mjög, að allur söfnuðurinn tekur þátt í söngnum, og ég hygg, að þessu væri hægt að koma á hér. Það hafa verið gerðar tilraunir hér á landi, sem ganga í þessa átt, sem er þátturinn í útvarpinu „takið undir“, þar sem Páll Ísólfsson hefur með þeim hætti fengið marga úti um allt land til þess að raula með heima á sínum heimilum við útvarpið. Og ég veit af ýmsu, þar á meðal bréfum til útvarpsins, sem ég hef séð, að þetta er ákaflega vel þegið af fólkinu.

Þetta frv. er borið fram af menntmn. Nd. samkv. ósk biskups og þjóðkirkjuráðs. En eins og kunnugt er, er núverandi biskup mjög áhugasamur maður um öll málefni kirkjunnar, og þá ekki sízt um það, að listin nái betur að komast inn í kirkjuna heldur en verið hefur. Og einn þátturinn í því, að listin komist betur inn í kirkjuna, er þetta frv., sem hér liggur fyrir. Ég efast ekki um, að þessu frv. verður vel tekið af hv. þd., og skal ég því ekki hafa þessi orð mín fleiri.