06.05.1941
Neðri deild: 52. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 939 í B-deild Alþingistíðinda. (2410)

94. mál, girðingar til varnar gegn útbreiðslu sauðfjársjúkdóma og fjárskipta

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson) :

Hv. 2. þm. Rang. minntist á, að sér þætti mæðiveikinefnd vera nokkuð einráð yfir þessum málum. Mæðiveikinefnd hefur sínar reglur að fara eftir, sem Alþ. hefur sett henni.

Ef girðingarnar verða settar, verður það að sjálfsögðu ákveðið af Alþ., en hins vegar hefur mæðiveikinefnd tillögurétt um það, í hvaða röð þær verði settar og hvenær. Í brtt. landbn. er þetta undirstrikað enn betur, að það skuli aðeins gert, ef nauðsynlegt fé er fyrir hendi. Annars skal ég geta þess út af ummælum hv. þm., að margar þessar girðingar, sem þarna eru upp taldar, eru þegar lagðar. Þá er það ekki heldur rétt, að hér sé verið að binda sýslusjóðunum neina stóra bagga í sambandi við lagningu girðinganna. Það er aðeins ætlazt til þess, að þeir annist 1/3 hluta af viðhaldi girðinganna. Annars ætla ég ekki að fara langt út í að ræða málið. Ég gerði það allýtarlega við l. umr.

Ég skal enn fremur geta þess, að ákvæði þessara nýju gr., sem landbn. leggur til, að bætt verði aftan við 32. gr., eru aðeins gerð til að kveða skýrar á. Það er ekki gert ráð fyrir, að þessi fjárskipti fari fram nema með samþykki mikils meiri hluta manna í viðkomandi héruðum og samþykki landbúnaðarráðh. liggi fyrir um þau. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir, að fjárskiptin fari aðeins fram á jaðrasvæðunum fyrst, en færist svo innar, eftir því sem svæðin þrengjast. En þetta þótti n. ekki nógu skýrt í frv. og ber þess vegna fram þessa brtt., sem ég tel óþarft að skýra frekar, en vænti að d. taki vel.