14.06.1941
Neðri deild: 80. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1177 í B-deild Alþingistíðinda. (2767)

168. mál, ráðstafanir og tekjuöflunar vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna

Atvmrh. (Ólafur Thors) :

Af þeim ástæðum, sem hv. þdm. eru kunnar, að menn eru að gera sér vonir um að slíta Alþ. 17. júní, mun ég láta nægja að gera stutta aths. út af ræðu hv. þm. Borgf. (PO).

Ég skil vel, að hann fellir sig illa við það, að ríkisstj. skyldi ekki bera gæfu til þess að leiða þetta stóra mál inn í hæstv. Alþ. á sama hátt og önnur mál, á þann hátt, sem hann vill vera láta, að samkomulag náist um þau áður en þau komast inn í salarkynni hæstv. Alþ. En við þessu er ekkert að segja. Þetta samkomulag hefur ekki náðst, og það er ef til vill engum sérstökum þar um að kenna. En ég skil vel, að hv. þm., sem hafa svipaðan hugsunarhátt og hv. þm. Borgf., þeir harmi þetta og sjái í því nokkurn forboða þess, sem þeir óska ekki eftir að verði, þ. e. meira ósamkomulags, sem kunni að draga til samvinnuslita. En efnislega sé ég nú orðið ekki aðra meinbugi á þessu máli en þessa formshlið, því það, að hæstv. viðskmrh. sættir sig við þá breyt., sem gerð hefur verið á 5. gr. frv., er hálft samþykki hans fyrir framgangi málsins í sinni núverandi mynd. (Viðskmrh.: Nei, alls ekki.) Ég játa, að æskilegast hefði verið, að samkomulag hefði getað náðst í fyllra mæli, áður en málið kom inn í d., en ég vona, að það þurfi ekki að vera forboði hins verra.

Það voru aðeins tvö atriði í ræðu hv. þm. Borgf., í sambandi við sjálft frv., sem ég vildi drepa á.

Hv. þm, leiddi athygli að því, að samkv. sínum skilningi verði ekki heimilt samkv. frv. að draga fram hagsmuni mjólkurframleiðenda. Ég hef margsinnis talað um þetta atriði við menn, sem hafa samið um málið af hálfu flokkanna.

Þar á meðal samstarfsmenn mína í ríkisstj. og þm. úr fjhn. beggja d., og mér hefur virzt á þeim öllum, að þeir álitu, að undir þetta orðalag „styrjaldarástæður“ geti fallið nægilega margt til þess að hægt verði að draga fram hag þessara framleiðenda. Og ég sé ekki ástæðu til þess eingöngu að ívilna þeim bændum, sem hafa kjötframleiðslu. Ég þykist engan veginn tala sem þm. ákveðins kjördæmis, þó ég fullyrði hiklaust, að hagur mjólkurframleiðenda sé verri en annarra bænda. Ég mun þess vegna ekki sætta mig við neina framkvæmd l., sem ekki dregur fram það sjónarmið, sem hv. þm. Borgf. talaði um.

Varðandi till. hv. þm. A.-Húnv., sem ég var með í að fella, vil ég segja það, að ég get ekki sætt mig við, að bændum, sem framleiða kjöt og Búnaðarfélagi Íslands sem umbjóðanda þeirra, sé selt sjálfdæmi um verðlagsákvarðanir á þessari framleiðslu. Því er ekki saman jafnandi í þessu sambandi, hvernig uppbót á laun starfsmanna ríkisins og annarra launþega er ákveðin, vegna þess að sú n., sem það framkvæmir, er skipuð þannig, að atvinnurekendafélagið sem umbjóðandi þeirra, sem borga, á einn mann í n. og launþegar einn, en oddamaðurinn er skipaður af hæstarétti. Hér er því ekki um sambærilegt að ræða.

Ég vil svo bara að lokum, að gefnu tilefni, gefa þá yfirlýsingu, að þegar þetta frv. var flutt af hæstv. viðskmrh., þá var mér ekki einasta kunnugt um, að hann ætlaði að gera till. um útflutningsgjald af sjávarafurðum, heldur var mér líka kunnugt um, að hann ætlaði að gera till. um beina skatta á allar tekjur, e. t. v. aðrar en framleiðslutekjur. Ég vil ekki segja, að við höfum verið búnir að ræða út um þennan skatt, en ég var sammála honum að fara þessar leiðir. Ég vil taka þetta fram, vegna þess að bæjarblöðin, og þá ekki sízt það blað, sem næst mér stendur, hafa gert harðvítugar árásir á viðskmrh. fyrir þessar till. Ef hér er um einhverjar sakir að ræða, er ég honum fyllilega samsekur. Um tekjuöflunarleiðina stóð ég með honum, þótt ég sé feginn þeirri breyt., sem þar hefur fengizt á.

Þetta vildi ég að gefnu. tilefni hafa sagt og biðja blöðin að birta.