14.06.1941
Neðri deild: 80. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1178 í B-deild Alþingistíðinda. (2768)

168. mál, ráðstafanir og tekjuöflunar vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna

Héðinn Valdimarsson:

Áður en frv. fer út úr d. vildi ég gera grein fyrir afstöðu minni gagnvart því.

Það eru allir sammála um, að ástæðurnar fyrir þessu frv. séu nægilegar til þess, að miklum tíma sé varið til athugunar á því, hvernig bezt verði hægt að ráða fram úr þessu vandamáli. En mér virðist, að með frv. sé ekki bent á neinar leiðir, heldur séu stj. gefnar víðtækar heimildir til fjáröflunar og aðgerða án þess að neitt liggi fyrir um það, hvaða leiðir hún ætlar sér að fara. Ég hef ekki heyrt, að ríkisstj. hafi skýrt frá því, hvaða leiðir hún ætli að fara um framkvæmd málsins, og í frv. sjálfu er svo tiltölulega lítið um það talað, að það gefur ekki nema litla bendingu. Aftur á móti hefur meðal almennings talsvert verið talað um eina vissa leið, sem sé þá að breyta gengi íslenzku krónunnar í þá átt, sem áður var. Og frá öllum öðrum sjónarmiðum en hinum pólitísku út á við, virðist þetta vera eðlilegasta leiðin. Hæstv. viðskmrh. hefur lýst því yfir, að ríkisstj. viti ekki, hvort þessi leið sé fær, vegna afstöðunnar til Breta. Mér finnst, þar sem þetta mál er búið að tefjast hjá þinginu svona lengi, þá hefði verið nægilegur tími fyrir ríkisstj. til þess að kynna sér þessi mál. Og ef hæstv. ríkisstj. skyldi nú vita, að þessi leið væri ekki fær, en vildi ekki segja það, þá tel ég slíkt alrangt, því hv. þm. eiga heimtingu á að vita slíkt.

Eftir því, sem mér hefur skilizt, þá munu Bretar hafa viljað, þegar þeir komu hér fyrst, hafa hærra gengi á ísl. kr., eftir því sem sagt hefur verið 20–22 kr., en ríkisstj. mun hafa spornað við því, að slík þróun yrði. Það er að vísu kunnugt, að nú er íslenzka krónan innan hins svokallaða pundasvæðis, en það segir ekki, að hlutfallið milli hennar og pundsins geti ekki breytzt. Og ég verð að segja, að svo lengi sem ríkisstj. segir ekki, að af viðskiptalegum ástæðum sé gengisbreyting ekki fær, þá tel ég ekki hægt að ganga fram hjá þeirri leið. Með gengisbreytingu fæst sú rétting á dýrtíðinni, sem ekki næst á annan hátt. Ég hef enga trú á, að verðlagseftirlit komi að verulegu gagni. Ef aftur á móti á að fara að verja fé úr ríkissjóði til þess að selja undir sannvirði, þá ætti þingið að setja nánari reglur fyrir því, þannig að það væri ekki allt í höndum ríkisstj. A. m. k. hef ég ekki trú á því, að hægt sé að treysta ríkisstj. til þess að framkvæma þetta án þess að hafa sérstakar reglur til að fara eftir, þannig að einstökum mönnum eða stéttum væri ekki mismunað. Ég vil sérstaklega benda á, að mér finnst heimildirnar til ríkisstj. samkv. frv. vera of losaralegar. Má þar benda t. d. á útflutningsgjaldið. Það er algerlega í höndum ríkisstj. að ákveða, hvaða skatta hún leggur á útflutninginn. Þetta finnst mér mjög óviðkunnanlegt og óheppilegt, að ganga svona frá slíku stórmáli sem þessu, sem nægur tími hefur verið til að athuga og velta fyrir sér. Ég vil í þessu sambandi benda á leið, sem ég tel, að mátt hefði fara í staðinn fyrir þessa skatta. Það eru skyldulán, sem hver borgari hefði verið skyldaður til að veita vaxtalaust og hefði átt að endurgreiða eftir venju með slík lán. Þessa leið hefði verið hægt að fara, en hvorki hæstv. ríkisstj. eða hv. þm. virðast hafa viljað fara inn á þá braut né aðrar brautir, sem heppilegar mættu teljast til að hleypa meiri krafti í framleiðsluna og atvinnulífið og skapa möguleika til að hafa framleiðslutækin betur undirbúin eftir stríðið.

Ég vil því enda mál mitt á því að lýsa yfir því, að eins og frv. liggur fyrir get ég ekki greitt því atkv. mitt, bæði vegna þess, að ekki eru teknar upp í það þær leiðir, sem fara á, og eins vegna þess, að heimildirnar í skattamálunum eru svo víðar, að þar má hafa í frammi ójöfnuð gagnvart þeim, sem fyrir því verða.