16.06.1941
Efri deild: 82. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1223 í B-deild Alþingistíðinda. (2797)

168. mál, ráðstafanir og tekjuöflunar vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna

Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég hafði ætlað að láta umr. fara fram hjá mér, en nú er málið komið í þann vettvang, að ég get ekki látið ómótmælt ýmsu, sem fram hefur komið. Áður en ég vík að því, vil ég segja fáein orð um frv. og geta þess, að ég er því fylgjandi, að ráðstafanir verði gerðar til að reyna að hafa hemil á vaxandi dýrtíð. Hins vegar mun ég greiða vissum till. atkv. og tel það enga goðgá, þó að frv. verði breytt hér í hv. deild, þegar um svo mikilsvert mál er að ræða.

Þá vil ég vekja máls á því, sem er upphaf þessa múls, að þegar þjóðstj. var mynduð árið 1939, stóð það í nánu sambandi við gengislækkunina, sem átti að vera hjálp til atvinnuveganna, og þá sérstaklega sjávarútvegsins. Um leið voru gerðar ráðstafanir, sem ég var andvígur, um að lögbinda kaupgjald hins vinnandi fólks. Þingheimur var sammála um að mynda þjóðstj., sem var falið það verkefni að framfylgja þeim ráðstöfunum, sem fólust í gengislögunum: Hún innti sín störf vel af hendi fram á árið 1940 og virtist geta haldið niðri verðlagi á nauðsynjum almennings. En á árinu 1940 varð mikil hækkun á landbúnaðarafurðum. Þess var getið af hv. 10. landsk. þm., hvað skeði með breyt. á gengisl. í árslok 1940. Verðlagið á landbúnaðarafurðunum var ekki lengur látið fylgjast með vísitölu kauplagsn., en því var lofað af ríkisstj., að það skyldi ekki verða misnotað um hækkun. á landbúnaðarafurðum, þó að verðlagið á þeim væri ekki bundið í lögunum, eins og gert var með lögunum frá 1939. Ég var svo bjartsýnn að treysta loforði hæstv. ráðherra Framsfl. um þetta efni. En 1940 gengur sjávarútvegurinn svo vel, að stórgróði varð af. Það kom fram í blöðum hæstv. ráðh., að landbúnaðurinn yrði að fá nokkurn gróða eins og sjávarútvegurinn. Bein afleiðing af þeim áróðri framsóknarblaðanna var sú, að kjöt og mjólk hækkuðu tvisvar sinnum á nokkrum mánuðum meira en kaupið sagði til um og olli því, að verkalýðurinn heimtaði fulla dýrtíðaruppbót á kaup sitt. Þetta var fyrsta sporið. Það voru mistök hjá hæstv. ráðherrum og öðrum í stjórninni, er fylgja þeim að málum, þegar stjórnin sleppti lausu verðlagi á landbúnaðarafurðum. Hún mátti vita, að það mundi hafa sínar afleiðingar. Þegar svona var komið, var eðlilegt, að launastéttirnar í landinu fengju einnig uppbætur á laun sín, og nú var kapphlaupið byrjað. En það er rétt að geta þess, hverjir gengu á undan um fulla dýrtíðaruppbót til launastéttanna. Það voru formenn Framsfl. og Sjálfstfl. í bankaráði Landsbankans, sem ákváðu fulla dýrtíðaruppbót fyrir starfslið bankans. Þetta ætti hæstv. ráðh. að muna. þar með var brautin rudd fyrir aðra launþega í landinu.

Ég get ekki fallizt á þá kenningu hæstv. forsrh., að það sé kaupgjaldið, sem sé aðalliðurinn í hinni auknu dýrtíð, því að eins og hv. 10. landsk. þm. benti á, er það svo mikill minni hluti af tilkostnaðinum við framleiðsluna, og þá sérstaklega við sjávarsíðuna, að það getur ekki verið hið ráðandi afl um dýrtíðina.

Hæstv. forsrh. bar saman Norðurlönd og Ísland í þessu efni og sagði, að það mundi ekki þekkjast á byggðu bóli, að menn fengju bætta dýrtíð upp í 100%. Ég er sennilega ekki eins fróður maður og hann um þessa hluti. Ég hygg þó, að í því landi utan Norðurlandanna, sem frjálsast telst, Bandaríkjunum, sé ekki mikill munur á launum og dýrtíðarvísitölu, en dýrtíðarvísitölur hef ég ekki séð nýlega frá Svíþjóð. En frá Danmörku hef ég í höndum verðvísitölur frá síðustu áramótum. Um Noreg er vart hægt að tala í þessu sambandi. Þau lönd eru ekki heldur sambærileg við Ísland í þessu efni. Utanríkisverzlun Dana hefur gengið gífurlega mikið saman síðan stríðið hófst. Það er vitanlegt, að í Danmörku hafa verkamenn fengið dýrtíðina að fullu bætta allt fram að þeim tíma, að landið var hertekið. Þó voru laun í Danmörku miklu betri heldur en hér á landi, áður en stríðið hófst.

Um Svíþjóð er það að segja, að það er ekki rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að sænskir verkamenn fái aðeins 30% uppbót miðað við dýrtíð. Í Svíþjóð, eins og í flestum öðrum löndum, hafa atvinnuvegirnir dregizt mjög saman. Auk þess hefur þjóðin lagt hundruð milljóna kr. til eflingar landvarna og annarra ráðstafana vegna stríðsins. Þrátt fyrir þetta hafa verkamenn þar ¾ af dýrtíð. Þó voru þeir hærra launaðir en verkamenn annarsstaðar á Norðurlöndum, og velmegun þessarar stéttar þar meiri en hjá hinum Norðurlandaþjóðunum.

Er þetta sambærilegt við okkur, sem aldrei höfum aukið eins okkar þjóðarauð? Utanríkisverzlun okkar hefur batnað svo, að við eigum tugi milljóna í eignum í staðinn fyrir skuldir. Er það nokkuð óeðlilegt, þó að verkalýðurinn í landinu segi, að það minnsta, sem hann eigi að hljóta af þeim mikla gróða og þeirri miklu velgengni atvinnuveganna, sé að fá dýrtíðina að fullu bætta.

Svo kemur hæstv. forsrh. og segir: Það lá við borð, að ég segði af mér, úr því að þingið féllst á að veita launastéttum fulla dýrtíðaruppbót.

Ég verð að segja það, að mér þótti vænt um að fá þessa yfirlýsingu frá hæstv. ráðh. Hún sýndi hans góða hug til verkamanna og launastéttanna í landinu. Eftir margra ára þrengingar og atvinnuleysi máttu hinar vinnandi stéttir til sjávar og sveita ekki njóta góðs af því góðæri, sem veltist yfir þjóðina. Aðeins hinir auðugustu máttu fleyta rjómann, en ekki verkalýðurinn. Þetta felst í yfirlýsingu hæstv. forsrh., og verði honum bara að góðu.

Þá kemur hæstv. ráðh. og segir, að kaupið í sveitum landsins hafi þrefaldazt. Ég dreg í efa, að þetta sé rétt. Hvað viðkemur árinu 1940 er þetta a. m. k. ekki rétt. Það er alveg víst, að í byrjun heyanna, í hverjum bændur taka helzt fólk til vinnu, var ekkert þrefalt verð komið á kaupgjald. Yfirleitt mun það hafa verið svo, að bændur borguðu að vísu nokkuð hærra en áður, en ekkert í tiltölu við það, sem þeir þá fengu fyrir sínar afurðir, og er ég síður en svo að telja það eftir. En svo má ekki, gleyma því, að ofan á sæmilegt góðæri 1940, þá berast þeim upp í hendurnar 5 millj. kr., sem Bretar hafa lagt fram til verðjöfnunar á útflutningsafurðum. Það virðist sem þetta sé einskis virði. Ég er ekki viss um, hve margir bændur eru í landinu, en áætla, að þeir séu um 5 þús. Ef við deilum því, eru það 1 þús. kr. á hvern bónda. Það hefur stundum þótt laglegur skildingur. (Forsrh.: Fá þeir það allt?). Mér skilst, að það sé ætlazt til þess. Og ég er nú ekkert að sjá eftir því. Ég held, að sjávarútvegurinn hafi ekki ástæðu til að kvarta, og þess vegna séu ekki líkur fyrir, að það gangi til hans.

Þá sagði hæstv. ráðh., að bændur verði að selja vörur sínar til útlanda með sama verðlagi og var fyrir stríð. Ég geri ráð fyrir, að þetta hafi gilt um kjötútflutning, og annað ekki. Og hvort það verður svo framvegis, hef ég ekki fengið upplýsingar um. (Forsrh.: Það gilti um s. 1. ár.) En það hefur verið minnzt á það hér í hv. d., að það þurfi ekki margar millj. til að bæta upp þann halla; sem verður á kjötinu einu. Ég vil halda því fram, að með þeirri kaupgetu, sem nú er í kaupstöðum og kauptúnum landsins, sé ekki ólíklegt, að verkamenn og aðrir mundu vilja auka við sig kjötbita, ef verðið yrði ekki hækkað úr hófi fram. Þá þyrfti ekki að verðbæta það til útflutnings.

Þegar við komum að því, hvar eigi að selja landbúnaðarafurðirnar, þá mun það verða svo, að tryggasti og bezti markaðurinn verða kauptúnin og bæirnir: Og því betri viðskiptamenn verða þessir aðilar, sem laun þeirra eru betri og vinnan meiri. Þess vegna á það að vera í „interessu“ bændanna, að kaupgetan í bæjum og kauptúnum sé sem mest, til þess að þeir fái sem beztan markað fyrir afurðir sínar þar. Þetta er yfirlýst skoðun, sem mér skilst, að framsóknarmenn hafi viðurkennt í öðru orðinu, þó þeir vilji taka það aftur í hinu.

Það hefur verið talað um, að bændur fái hlutfallslega minna fyrir sitt strit en verkamenn. Þetta get ég ekki séð. Dæmið, sem ég ætla að setja upp, nær að vísu ekki langt. En áður en verðlag hækkaði, í byrjun ársins 1939, gat verkamaður fengið hér í Rvík 36 1. af mjólk fyrir dagkaup sitt, en nú 29, eða 7 1. minna en í ársbyrjun 1939. Það eru nú kannske ekki margir í láglaunastéttunum, sem hafa ráð á að veita sér smjör. En ef einhverjum datt í hug að fá það, fékk hann í ársbyrjun 1939 4 kg. fyrir dagkaupið, en nú 2½. Þetta er bara dæmi. Ég get ekki séð, að hagur verkamannsins sé neitt sérlega góður, þegar hann á að fara að kaupa þessa hluti til að næra sig á.

Hæstv. ráðh, sagði enn fremur, að þjóðin væri ölvuð af gróðanum. Þessu hefur líka verið haldið fram af öðrum hv. þm., og það má kannske undirstrika þetta að vissu marki. En ég veit ekki, hvað hann hefur meint með orðinu þjóð. Sennilega þá menn, sem mest hafa grætt. En mér skilst nú, að þessi ölvun sé komin í höfuð forsvarsmanna bændanna. Það virðist sem þeim þyki gróði bændanna of lítill og þeir þurfi að græða meira. Það hefur komið berlega fram í blaði Framsfl., að bændur verði að græða, eins og útgerðarmenn og fiskkaupmenn, sem hafa fengið skyndigróða.

Þá kem ég að því, sem er mergur málsins, en það er það, að þessar 13 eða 14 millj., sem hér á að skrapa saman, átti að gera á þann skemmtilega hátt að leggja 10% aukaskatt ofan á þá skatta, sem Alþingi hafði nýlega lagt á. Og í frv., eins og það fyrst var lagt fram, kom skatturinn þannig niður, að hann var tiltölulega hæstur á lág laun. Það var nú umhyggjan fyrir láglaunamönnunum. Það er vitanlegt, að Alþfl. reis í öndverðu gegn þessu. (Viðskmrh.: Ég held, að Alþfl. hafi langað til að vera með því, en ekki þorað það.) Hann hefur aldrei viljað vera með því. Hann hefur verið á móti því frá byrjun. (Viðskmrh.: Hv. þm. veit það vel, að þeir hættu við að ljá frv. fylgi af hræðslu.) Ég skil það mætavel, að þetta mál út af fyrir sig sé afskaplega góð „bomba “ hjá bændunum, ef einhvern tíma þarf að leita atkv. hjá þeim. Og ef til vill er það flutt í þeim tilgangi.

Ég held ég hafi svarað því, sem ég tel nauðsynlegt af því, sem fram kom í ræðu hæstv. forsrh. En áður en ég sezt niður, vil ég mótmæla því, sem hv. 1. þm. N.-M, sagði um laun verkamanna hér í Rvík, ef einhver skyldi hafa trúað hans orðum.

Það vita allir, að hann er í ríkisskattanefnd og á aðgang að ýmsum plöggum. En hann heldur því fram, að laun verkamanna hafi verið 7–8 þús. kr. árið sem leið. Ég leyfi mér að mótmæla þessu sem staðlausu og röngu. Til sannindamerkis vil ég geta þess, að við stofnun, sem ég vinn hjá og hefur marga verkamenn í vinnu, — þar á meðal marga, sem aldrei féll verk úr hendi neinn dag og unnu mikla eftirvinnu —, komust þeir í rúmlega 6 þús. kr. árslaun, og munu ekki aðrir daglaunamenn hafa haft betri árstekjur. Á þessu getur maður séð, hversu mikil staðleysa það er að halda því fram, að laun verkamanna hér í Rvík séu eins mikil og hv. Þm. vill telja mönnum trú um.

Þetta vildi ég taka fram sem svar við hans fullyrðingum, og láta það koma í Alþt. sem svar við þeim. Nú mun komið að þeim tíma, að fundarhlé verði veitt, og skal ég láta þar með máli mínu lokið.