10.03.1941
Efri deild: 14. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í C-deild Alþingistíðinda. (2854)

27. mál, vörugjald fyrir Vestmannaeyjakaupstað

Magnús Jónsson:

Hv. frsm. er ekki við, en ég vona, að ég móðgi hann ekki, þó að ég hlaupi í skarðið fyrir hann í svona einföldu máli.

Þetta mun vera með kunnari málum hér á þingi, því að þetta vörugjald hefur í mörg ár verið framlengt ár frá ári. Í fyrra var þetta borið fram í því formi að framlengja það um 2 ár, og var það, ef ég man rétt, samþ. í fjhn. þessarar d. og einnig í d., en Nd. breytti því þannig, að framlengingin skyldi aðeins gilda fyrir eitt ár, og því er nú borið fram frv. um að framlengja það á ný. N. féllst á að mæla með frv., en einn nm. skrifaði undir nál. með fyrirvara. Það væri í raun og veru ekki nema eðlilegt, að þetta væri gert að venjulegum 1. um vörugjald, því að það mætti alltaf grípa fram i, ef t. d. skattal. væri breytt þannig, að Vestmannaeyjar þættu ekki þurfa þessa gjalds við. En þar sem það hefur sýnt sig, að Nd. er á annarri skoðun um það en þessi d., þótti nm., sem annars hefðu verið þessu samþykkir, ekki ástæða til að breyta þessu nú. Vestmannaeyjar hafa þarna nokkra sérstöðu. Að vísu er einn staður annar, Siglufjörður, þar sem svipað stendur á, en þó ekki eins. Það sýndist því vera dálítil meinbægni að vilja ekki leyfa Vestmannaeyingum að leggja á sig þetta gjald, ef þeir telja það nauðsynlegt til þess að afla tekna fyrir bæjarsjóð.

Ég vil því fyrir hönd meiri hl. n. mæla með, að frv. verði samþ. óbreytt.