10.03.1941
Efri deild: 14. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 2 í C-deild Alþingistíðinda. (2856)

27. mál, vörugjald fyrir Vestmannaeyjakaupstað

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Hv. dm. er kunnugt frá fornu fari, að ég er á móti þessu frv., og skal ég ekki fara langt út í það nú: En mig langaði til að fá tvennar upplýsingar í málinu, sem munu eiga að liggja fyrir, og munu bæði hv. flm. og hv. n. geta gefið þær upplýsingar. Útsvör í Vestmannaeyjum eru há, hærri en í Reykjavík, og eftir þeim útsvarsskala, sem notaður er í Vestmannaeyjum og annars staðar í kaupstöðum, þá munu nú útsvör hækka verulega, og stafar það af meiri tekjum en að undanförnu, ef jafnað er niður eftir sömu skölum og áður. Þurfi bæirnir hins vegar sömu tekjur og áður, má lækka skattana verulega frá fyrri árum og þó ná sömu tekjum. Þess vegna er mér ekki ljóst, að það sé þörf fyrir þetta gjald nú, þó að það kunni að hafa verið þörf fyrir það að undanförnu. Ég vil því spyrja, hvað þetta gjald hefur gefið mikið undanfarin ár og hvað útsvör hafa verið há í Vestmannaeyjum alls undanfarin ár.