16.05.1941
Efri deild: 62. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í C-deild Alþingistíðinda. (2879)

41. mál, krikjuþing

Frsm. minni hl. (Jónas Jónsson) :

Ég get tekið undir það með hv. frsm. meiri hl., að þetta mál sé allvel búið undir af hv. flm. þess, og er ekkert til fyrirstöðu um viðurkenningu á því. Hitt er veik röksemd, að segja, að þetta mál hafi fengið mikinn undirbúning hjá þjóðinni. Eins og tekið er fram í grg., var máli þessu hreyft laust eftir aldamót. Kirkjun., sem þá starfaði, afgreiddi það ekki, og síðan hefur því ekki verið hreyft. Hér kemur því aðeins til greina lærdómur hv. flm., sem er mjög kunnugur öllum þessum málum í gegnum starf sitt sem dósent. Hann hefur grafið þetta upp úr gömlum skjölum, sem orðin voru gleymd, og flytur nú málið fram. Ég vil ekki segja, að málið sé lakara fyrir það, en ég álít, að af því að það hefur ekki fengið nokkurt lifandi fylgi í landinu, þá mætti bíða lítið eitt að setja löggjöf um það, þar til þetta fylgi er fengið. Mér finnst mjög vafasamt að setja löggjöf um kirkjuþing, sem ekki væri borin uppi af virkilegum áhuga fólksins, sem á við þessi mál að búa. Nú finnst mér ekki nema eðlilegt og sjálfsagt, að hv. flm. vilji fá um þetta umr. og rannsókn, sem gæti orðið til þess, að rót komist á almenning. En mér finnst, að stærsta röksemdin gegn þessu frv. sé sú, að ósk flm. er ekki byggð á almennri vakningu í landinu. Hv. flm. hlýtur að viðurkenna, að það er þýðingarmeira fyrir kirkjulífið í landinu, að hann, sem starfsmaður kirkjunnar við háskólann, og biskup landsins reyni að fá lifandi. vakningu inn í kirkjustarfið og kirkjan nái meira til fólksins, Ég get vel trúað hv. flm. til þess að geta verið áhrifamikill á þessu sviði, þó að hann gæti ekki orðið eins og hinn ágæti starfsbróðir hans, sem er nú dáinn, Haraldur Níelsson, sem hafði lífræn, vekjandi áhrif á þjóðina, og þetta finnst mér, að þjóðin verði að ætlazt til af sínum leiðtogum.

Ég ætla ekki að tala illa um þær virðulegu stofnanir, sem núverandi búnaðarþing og fiskiþing eru, en hv. þm. finna vel, að þessum tveim stóru þingum fylgir mikill ágalli. Þau starfa árlega, eru ábyrgðarlaus með öllu og koma með sífelldar kröfur til Alþ. um fjárframlög. Ef nú væri farið að koma á kirkjuþingi, sem væri nákvæmlega svona sett, hefði engin fjárráð á hendi og ábyrgðarlaust, er mjög vafasamt, að það gæti komið af stað nokkurri vakningu, eins og. t. d. hinn mikli andans maður Haraldur Níelsson. En ef ætlunin er sú, að þetta yrði aðeins kröfuþing, sé ég ekki annað en aðrar stéttir þjóðfélagsins, læknar, lögfræðingar, kennarar, skrifstofumenn o. s. frv., hefðu fullan rétt til að rísa upp og krefjast stéttarþings, sem kostað væri af ríkinu.

Ég skal svo ekki tefja fyrir þessu máli með því að halda um það langa ræðu, en ég held næstum því, að ég hefði verið með þessu frv., ef það væri borið fram af vakandi áhuga prestastéttarinnar.