08.05.1941
Efri deild: 55. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í C-deild Alþingistíðinda. (2972)

145. mál, bráðabirgðatekjuöflun fyrir Hafnarfjarðarkaupstað

Bjarni Snæbjörnsson:

Ég skal vera fáorður. Eins og hv. dm. er kunnugt, er þetta frv. umskiptingur úr öðru frv., sem hér var á ferðinni og nú er orðið að lögum. Þá tókst hv. 1. þm. N.-M. að koma þeirri sömu hugsun inn, sem fyrir honum vakir nú, en það var numið úr frv. í Nd., og var síðan samþ. hér í deildinni eins og Nd. gekk frá því. Það sýnir þrautseigju hv. þm. í þessu máli frekar en ýmsum öðrum málum, að hann skuli enn vera farinn á stúfana, og veit ég ekki, af hverju slíkt stafar, nema ef vera kynni, að það væri vegna þess, að hér er um heimildarl. að ræða, en þm. beri ekki fullt traust til stj. um framkvæmd þeirra. Virðist mér, að hv. þm. geti eins borið fram vantraust á ríkisstj. bæði í þessu máli og öðrum, sem hann virðist ekki vera fyllilega ánægður með.

Það kom fram í því máli, sem hér var til umr. næst á undan þessu, að það væri heppilegast, að ýmis skattal. væru látin bíða meðan svo mikið umrót væri í fjármálum sem nú er, og þar sem talið var, að tjaldað væri til eins árs með afgreiðslu skattafrv., virðist sjálfsagt, þar sem viðhorf í fjármálum er svo órólegt, að þetta frv. verði látið sæta sömu örlögum og ýmis svipuð mál og látið bíða, þar til eitthvað verður sagt með vissu um fjármálaviðhorf kaupstaðanna. Þar sem hér er aðeins um heimildarlög að ræða, hefur ríkisstj. það á sínu valdi, hvort hún notar þau eða ekki, og hvernig sem hv. þm. (PZ) reynir að snúa sig út úr því, er það ekki annað en vantraust á ríkisstj. að bera fram þetta frv. Við vitum ekki nema svo fljótt geti skipazt veður í lofti um fjármál bæjanna, einkum útgerðarbæjanna, að full þörf sé þeirra laga, sem hér er farið fram á að fella úr gildi. Ég veit, að hv. þm. gerir sér engar vonir um, að málið nái afgreiðslu á þessu þingi, en hann vill sýna vilja sinn og innræti að bera málið fram nú, ef hann gæti gert það einhverjum til ergelsis.