28.05.1941
Neðri deild: 69. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í C-deild Alþingistíðinda. (3002)

52. mál, þjóðfáni Íslendinga

Steingrímur Steinþórsson:

Ég kann hálfilla við, að umr. um þetta mál verði slitið án þess að frekari umræður fari fram. Ég hafði ekki ætlað mér að tala hér við þessa umr. En ég álít mjög hæpið að slíta þessum umr. hér í hv. d. án þess að ræða málið frekar, einkum eftir ræðu hv. 1. þm. Árn., þar sem hann leggur til, að frv. nái ekki fram að ganga, sem þýðir í raun og veru, að frv. verði fellt. Hv. þm. kom ekki með neina till. um að vísa frv. til ríkisstj. til frekari undirbúnings, sem ekki er að vænta, þar sem þetta er stjórnarfrv., og að því er virðist er frv. mjög rækilega undirbúið. Ég get ekki skilið ræðu hv. l, þm. Árn, á annan hátt en þann, að hann óskaði eftir, að frv., eða meginatriði þess, yrði fellt. Annars er mér ekki mögulegt að skilja ræðu hans.

Ég hefði kunnað mjög vel við að einhver úr hæstv. ríkisstj. hefði verið við þessar umr., þar sem er um að ræða frv., sem ríkisstj. flytur samkvæmt, þáltill., sem samþ. var um þetta atriði á síðasta Alþingi. Þess vegna kann ég illa við, að enginn úr ríkisstj. sé hér við til þess að segja sitt álit um frv., því að við, sem styðjum ríkisstj., viljum taka tillit til þess, hvað ríkisstj. segir um mál, sérstaklega þó þau mál, sem hún hefur undirbúið að tilhlutun Alþ. og er búið að flækjast fyrir Alþ. allan þann langa tíma, sem það hefur setið í vetur, þannig að það er ekki hægt að segja, að ekki hafði verið hægt að afgr. þetta mál. Þetta vildi ég benda á, að ég kann illa við þessa meðferð máls hér í hv. d., að þeir aðilar, sem hafa undirbúið málið og lagt það fyrir þingið, láti ekki sjá sig við umr. þess. Það er ekki útlit fyrir, að þeir vilji skipta sér hið minnsta af málinu, og jafnvel nú, þegar komin eru fram mjög eindregin mótmæli gegn því, að frv. nái fram að ganga.

Ég sé nú, að einn af hæstv. ráðh. er kominn hér í hv. d. og hefur þegar kvatt sér hljóðs, svo sennilega fáum við einhverjar frekari skýringar um þetta mál frá honum.

Ég fyrir mitt leyti get sagt, að ég sé ekki, að það hafi svo mikið að segja út af fyrir sig, hvort þetta mál er afgr. nú á þessu þingi eða það dragist eitthvað. Ég býst við, að við getum notað okkar fána á þann hátt, sem við höfum gert að undanförnu, þó að engin sérstök lagaákvæði verði um það sett hér á Alþ. En ég hefði þá talið, að miklu betra hefði verið, að síðasta Alþingi hefði aldrei skorað á ríkisstjórnina að undirbúa löggjöf til verndar fánanum, og hefði þá hæstv. ríkisstj. ekki þurft að hafa erfiði af undirbúningi þessa máls, sem hún þó virðist hafa vandað mjög til. Hv. allshn. hefur tekið málið alvarlega og flytur við það brtt., sem mér virðast til bóta um málfæri og form málsins yfirleitt, svo að tæplega verður miklu lengra gengið í því efni. Ef málið á svo að daga hér uppi á Alþ. eftir allan þennan tíma og þann undirbúning, sem það hefur hlotið, þá lítur út fyrir, að Alþ. sé ekki samþykkt þeim ákvæðum, sem í frv. eru til verndar fánans, sem er þjóðarmerki okkar Íslendinga.

Mér virtist það koma fram í ræðu hv. 1. þm. Árn., að einkum væri það gerð fánans, sem orkað gæti tvímælis um að ætti að samþ. nú til fulls. Ég ætla ekki að ræða um það. Ég er reiðubúinn að greiða atkv. um gerð fánans hvenær sem er, ég er ákveðinn í því efni, og um skoðanaskipti getur ekki orðið að ræða, hvort sem ég greiði atkv. nú eða eftir eitt eða tvö ár. En hitt skal viðurkennt, að aðrir þm. kunna að líta öðruvísi á þetta atriði út af fyrir sig. En um það, hvernig fáninn okkar eigi að vera, sé ég ekki ástæðu til að tala frekar nú. Það var aðallega af því að ég kvaddi mér hljóðs áðan, að mér virtist að komið væri að því, að umr. um málið væri slitið, og ég vildi láta þá skoðun mína í ljós, að betur hefði verið, að aldrei hefði verið farið á stað með þetta mál eins og gert var með þáltill. í fyrra, ef nú á að fella það frv., sem er undirbúið nákvæmlega á þann hátt, sem Alþingi sjálft mælti fyrir.