28.03.1941
Neðri deild: 25. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 217 í B-deild Alþingistíðinda. (301)

56. mál, verðlagsuppót á laun embættis- og starfsmanna ríkisins

Frsm. (Sveinbjörn Högnason) :

Ég sé ekki ástæðu til að ræða mikið um það, sem fram hefur komið í umr. um þetta mál.

Einn nm., hv. þm. A.-Húnv, hefur fundið ástæðu til að skýra nánar það, sem sett er fram í nál., sérstaklega eitt atriði þar. Í nál. stendur, með leyfi hæstv. forseta : „. . . sérstaklega þegar þess er gætt, að meðal þeirra eru flestir þeirra, sem lágt eru launaðir, og tiltölulega fáir, sem hægt sé að nefna hátekjumenn, samanborið við það, sem annars staðar við gengst um launagreiðslu.“

Ég verð að segja það, að mér finnst það einkennilega til orða tekið hjá þessum hv. þm. að segja, að hér sé ekki tekið rétt sjónarmið, en þó sé það ekki rangt. Slíkt er vægast sagt óvenjuleg röksemdafærsla. Annars er það rétt, sem ég hef sagt, og það þýðir ekki neitt fyrir hv. þm. að vera með véfengingar um það, að starfsmenn ríkisins, hverju nafni sem þeir nefnast, hafa nú um skeið verið langverst launaðir af öllum. Að farið er fram á fulla dýrtíðaruppbót fyrir embættis- og starfsmenn ríkisins nú, er sakir þess, að nú er viðhorfið allt öðruvísi en það var í fyrra. Þá var þröngt í búi hjá ríkissjóði, svo að allt varð að klípa við neglur sér, en nú er fjárhagur ríkissjóðs allmjög á annan veg. Að embættismenn hafi gert svipaðar launakröfur og sjómenn er hins vegar misskilningur. Ég hef að minnsta kosti aldrei heyrt una slíkt talað. Sjómenn hafa nú fengið launabætur, er nema um 300%. Að ég nefni þetta er ekki sökum þess, að ég eða aðrir séu að telja slíkt eftir. Það er síður en svo. En það sjá allir, hve mikið skortir á, að þessu tvennu sé hægt að líkja saman. Laun sjómannanna eru orðin svo miklu hærri en laun embættismannanna. Þá er það og víst, að tekjur presta, sýslumanna, lækna, sem embættislaun taka, að ég ekki tali um kennara, eru langt undir því, sem verkamenn hafa nú. 15–16 ára piltar, sem vart eru fullgildir verkamenn; hafa frá 7–800 kr. á mánuði. Það þarf því ekki að seilast til sjómannanna til þess að sýna fram á ósamræmið, sem orðið er á milli kaupgreiðslna ríkisins og hinna annarra atvinnurekenda. Hinu verður ekki neitað, að það er lítið af hátekjumönnum í þjónustu ríkisins. Þessi umrædda setning í nál. á því fullan rétt á sér. Hv. 4. þm. Reykv. spurðist fyrir um það, hvort svo bæri að skilja 1. gr. frv., að allir starfsmenn ríkisins, jafnt þeir, sem ekki væru fastráðnir, ættu að . fá uppbót samkv. lögum þessum. Þessu þarf ég varla að svara, það liggur alveg ótvírætt fyrir, að svo eigi að vera.

Þá virtist þessi hv. þm. hafa mikla tilhneigingu til þess að misskilja nál. Hann sleit Þar setningar út úr sambandi eins og þessa: „Jafnframt kom sú skoðun fram í n., að þing og stjórn tækju á sig með samþykkt þessa frv. siðferðilega ábyrgð um að beita áhrifum sínum til að framleiðslustéttir þjóðfélagsins fengju a. m. k. sams konar hækkun á tekjum sínum, og yrði að hafa vakandi auka á því, að réttur þeirra yrði eigi fyrir borð borinn.“ Út yfir þetta breiddi hv. þm. sig og talaði um, að hér mundi átt við verkamennina, ef hið ríkjandi ástand breyttist. En hann gleymdi að halda áfram lestrinum og lesa næstu setningu, en þar segir: „Koma þá einkum til greina, eins og nú er ástatt, bændur og aðrir smáframleiðendur í landinu, sem selja afurðir sínar á innlendum markaði og undir eftirliti og með íhlutun ríkisstjórnar og Alþingis.“ Hér er aðeins verið að benda á, að bændur og smáframleiðendur þurfi líka að fá sína dýrtíðaruppbót.

Að endingu vil ég svo segja þetta. Með frv. er ekki farið fram á annað en að embættismenn fái sama rétt og verkamenn eru búnir að fá, þó ekki að öllu leyti, því að verkamenn eru víða búnir að fá hækkun á grunnkaupi sínu, en hér er ekki farið fram á neitt slíkt fyrir embættismennina.