07.04.1941
Neðri deild: 32. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í C-deild Alþingistíðinda. (3046)

31. mál, raforkusjóður

Pétur Ottesen:

Ég hef að vísu ekki mikið um þetta mál að segja, eftir þá niðurstöðu, sem það hefur fengið í fjhn. Meiri hl. n. hefur sinnt þessu máli mjög vel og lagt til úrlausn á því, sem ég tel eftir atvikum mjög forsvaranlega. Að vísu er dálítið dregið úr þeim tekjum, sem þessum sjóði gat hlotnazt samkv. minni till. að því er snertir þann skatt., sem þau rafveitufyrirtæki, sem hann náði til, eiga að greiða. En þar sem hér er um að ræða byrjunarlöggjöf í þessu efni, get ég vel fallizt á, að það sé hyggilegt og líka réttmætt að ganga ekki lengra í þessu efni heldur en gert er í þessari brtt. n., og er það líka alveg í samræmi við þá samþ., sem gerð var um hliðstætt efni hér í Nd. á síðasta þingi. Ég fagna mjög því samkomulagi, sem náðst hefur um úrlausn þessa máls í fjhn., þó að ekki sé jafnlangt gengið og ég hef lagt til í mínu frv.

Um ákvæði 2. gr. um framlag ríkissjóðs er engin breyt. að öðru leyti en því, að þar er miðað við, að þetta sé tímabundið, þ. e. a. s. til 10 ára. Ég hef talið réttara og í meira samræmi við ákvæði 3. gr., að þetta hefði líka verið haft ótímabundið eins og ákvæði þeirrar gr., en þetta er svo lítið atriði, að um það er ástæðulaust að fást, enda hægt að framlengja það. Það má búast við því, þegar 10 ára reynsla er fengin fyrir þessum sjóðum, að þá þyrfti að gera ýmsar breyt., sem reynslan hefði sýnt, að eðlilegar væru. Ég býst við, að framtíðin feli í skauti sínu hvað þetta mál snertir, að ástæða þyki til að auka frekar en draga úr stuðningi við hagnýtingu rafmagns hér í landinu. Það er vitað, að þótt eðlilegast væri, að þeir staðir á landinu, sem bezta aðstöðu hafa til þess að hagnýta sér rafmagnið, gætu staðið undir kostnaðinum við stöðvarnar, þá er og hitt jafnvíst, að þar sem meiri erfiðleikar eru á um virkjunina, en þó öllu heldur hitt, að flytja rafurmagnið um dreifbýlið, þá verður nokkur og verulegur fjárhagsstuðningur að koma til. Það hlýtur að verða keppt að því svo hröðum skrefum sem fjárhagsaðstæður leyfa, að hagnýta þetta bundna afl, sem flýtur árlega í millj. hestafla í fallvötnum landsins. Auk þess er það svo, að ef við ætlum að hugsa okkur, sem ég býst við að flestir telji æskilegt, að halda jafnvægi í þjóðfélaginu milli dreifbýlisins og þéttbýlisins, að fólkið starfi að því að hagnýta gæði landsins, þá verði óhjákvæmilega að gera ráðstafanir til að þessi náttúrugæði verði hagnýtt, einnig þar sem aðstaðan er erfiðari til þess og kostnaðarsamari.

Hv. þm. Seyðf. hefur í verulegum atriðum markað andstöðu gegn þessu frv. Að vísu telur hann, að það sé ekki nema fyrirkomulagsatriði, að hann er á móti þeirri heimild, sem í frv. er gefin til þess að taka lán handa þessum sjóði, það sé einnig um það deilt, hvor leiðin sé farin. Hann vill sem sé leggja til, að aflað sé fjár til sjóðsins með verðbréfasölu. Hins vegar er hann á móti því, að það sé gert með lántöku. Ég sé ekki, hver eðlismunur er á þessu tvennu eða hvort sjóðnum er betur borgið og því verkefni, sem hann á að standa undir, með verðbréfasölu eða beinni lántöku, eins og hér er lagt til. Víst er það, að þær rafveituframkvæmdir, sem gerðar hafa verið hér á landi, hafa að verulegu leyti byggzt á lántökum. Hingað til hefur orðið að fara þá leið að afla fjár í þessu skyni með lántökum, en ekki verðbréfasölu. Enda virðist nú, að fulláskipað sé á verðbréfamarkaðinum hjá okkur eins og nú stendur, og þess vegna sé ákaflega hæpið að ná miklum árangri með því að leggja inn á þá braut.

Út af þeim ummælum, sem féllu hjá hv. þm. Seyðf. viðvíkjandi ákvæðum 3. gr. í mínu frv. og þeim brtt. frá n., sem eiga að koma í stað. Þeirra ákvæða, vil ég segja það, að ég efast ekki um, að þær tölur, sem hann nefndi hér og segist hafa fengið hjá rafmagnseftirlitinu, um það, hvernig þessi skattur kæmi niður á þau einstöku fyrirtæki, og eins að þeir útreikningar, sem hann gerði um það, hvað telja mætti, að stofnkostnaður þessara fyrirtækja yrði, séu réttar. En það er eðli málsins, sem ég vildi minnast á, sem sé það, að ég sé ekki annað en að það sé ákaflega eðlilegur hlutur og ekki ósanngjarnt, þegar maður lítur lengra fram í tímann, að til þess að rafmagnið geti orðið til almenningsnota, þá sé þessi sjóður byggður upp þannig, að einmitt þau fyrirtæki, sem byggð eru upp við langbeztu skilyrðin, láti af mörkum nokkurt fé, til þess að hægt sé að sinna þessu máli á víðtækum grundvelli. Mér virðist, að slík samhjálp og samstarf um svo mikilsvert þjóðnytjamál sé svo eðlilegt sem frekast getur verið. Ég býst við því, að þó að hv. þm. geti bent á það, að þessi skattur sé allþungur, þá verði þó enn þá meiri erfiðleikar á að hagnýta rafmagnið á þeim stöðum, sem erfiðleikarnir eru meiri en nemur þeirri aðstöðu, sem þessi fyrirtæki eiga við að búa, eftir að þessi skattur hefur verið á þau lagður. Þess vegna er um það að ræða annars vegar, að þetta gangi svo til áfram, að einstaka staðir á landinu, þar sem þéttbýlið er mest, geti hagnýtt sér þessi gæði, en aðrir verði áfram afskiptir, eða gera till. um að leggja grundvöll að því, að rafmagnsnotkun geti orðið til almenningsnota í þessu landi. Frá sjónarmiði þeirra manna, sem vilja að þessu keppa og telja það nauðsyn, er ómögulegt að líta á þennan skatt nema ósanngjarnan. Þetta er sú aðstaða, sem hefur orðið þess valdandi, að ég hef tekið undir lausn þessa máls á þessum grundvelli. Þær tölur, sem hv. þm. nefndi hér, hafa í engu raskað þeirri sannfæringu, sem ég hef á því, að þau rafurmagnsfyrirtæki, sem hafa þessa aðstöðu, taki þátt í því og leggi nokkurt fé af mörkum til þess, að því marki verði náð, að rafmagnsnotkun geti orðið almenningseign hér í þessu landi. Mér þykir svo ekki ástæða til að fara lengra út í þetta mál að svo stöddu, en ég vil endurtaka það, að ég fagna því samkomulagi, sem gat orðið með þessari einu undantekningu í n. um það að sinna þessu máli, sem ég tel, að sé gert á mjög viðunandi hátt með þessari brtt. og frv., eins og það verður eftir að þær till. hafa verið teknar inn. Skal ég svo ekki fara fleiri orðum um það.