29.04.1941
Neðri deild: 47. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í C-deild Alþingistíðinda. (3119)

37. mál, sala á spildu úr Neslandi í Selvogi

Pálmi Hannesson:

Mig undrar, að frv. sem þetta skuli vera borið fram í hv. deild. Hitt undrast ég ekki, þó bóndinn í Nesi ágirnist land, sem gengið hefur undan jörð hans, en mig furðar á, að nokkur þm. — og ekki sízt hæstv. forseti (JörB) — skuli ljá sig til flutnings slíks máls. Það er nú líka einhvern veginn svo, að svo virðist sem formælendur frv. eigi mjög tregt tungu að hræra og að röksemdirnar falli þeim mjög fyrir brjóst.

Frv. þetta er flutt sem heimildarl., og minnir það nokkuð á bænaskrárnar hér fyrrum, þegar menn þorðu ekki að flytja mál sín á annan hátt. Málið horfir þannig við, að það hefur á móti sér álit færasta kunnáttumanns, sem við höfum á að skipa í slíkum málum, það hefur á móti sér álit hreppsnefndar í viðkomandi hreppi og loks heilbrigða skynsemi. Landsvæði þetta hefur verið afgirt og friðað um nokkurra ára skeið. Fyrir þann tíma var það örfoka, en síðan hefur það gróið upp svo furðu gegnir. Formælendur frv. hafa haldið því fram, að enda þótt landið hefði ekki verið girt, hefði það haldið áfram að gróa upp. Mér þætti gaman að vita, hvaðan þeim kemur sú þekking. Hitt er alkunna, að örfoka land grær ekki upp, þegar fé gengur í það. Einmitt á þessu byggist friðan landsins.

Við höfum mörg dæmi deginum ljósari um áhrif sandsins hér á landi; og það er ekki langt síðan það var trú mikils hluta landsmanna, að landið væri að blása upp. Var það í almæli, þegar menn fluttust í hópum héðan til Vesturheims, en þeir, sem trúðu á landið og baráttuna gegn sandinum, hafa orðið ofan á. Þess vegna er hér enn þá byggð í landinu.

Ég hef farið víða um landið og margt séð, sem hefur glatt augað, en ekkert hefur þó glatt mig meira en hin sigur sæla sókn mannsins

gegn sandauðnunum. Ég hygg, að flestir muni geta sagt það sama.

Hversu fór í Landsveit á Rangárvöllum? Fyrir röskum 100 árum var Landsveit algróin skógi, en svo skreið Heklusandur yfir Þjórsá á ísi úr Þjórsárdal og lagðist á gróðurinn. Hvað gerðu menn? Þeir gengu sandinum á hönd, létu hann eignast landið og flýttu fyrir eyðileggingunni með því að höggva skóginn. Eins fór þetta á Rangárvöllum, og þar bíða stór flæmi örfoka lands eftir því einu að fá frið. — Skyldi nú ekki vera betra að hafa biðlund og láta landið gróa upp að fullu en að hleypa sauðfénu á það hálfgróið? Mér finnst því, sem frv. fer fram á, svipa til þess, er stífla er tekin úr flóðgarði, sem hlaðinn hefur verið til varnar stóru landsvæði. Slíkt er landníð.

Menn hafa rætt mikið um einstaklinga í sambandi við þetta mál, bóndann í Nesi og sandgræðslustjóra. Þetta mál er ekkert einstaklingsmál, heldur landsins alls. Hér er um það að ræða, hvort við eigum að láta undan síga í baráttunni gegn sandinum. Ég hygg það rétt, sem hv. 2. þm. Skagf. sagði, að ef það yrði gert nú, yrði ekki lengur stætt í sömu línu og áður. Það hefur verið miklum erfiðleikum bundið að fá örfoka land til girðingar, vegna þess að bændur vilja halda því til beitar, en mig undrar, að ekki skuli heimilt að taka landið eignarnámi. Öllu fegurra dæmi um land, sem gróið er upp, getur varla að líta en í Gunnarsholti á Rangárvöllum.

Hv. þm. A.-Húnv. las hér upp mikinn Jobspóst frá bóndanum í Nesi. Virðist mér nær að setja friðunarákvæði honum til handa en að ófriða þetta landsvæði. Þetta frv. stefnir til landníðs, og ég harma það, að það skuli flutt á Alþ. Bið ég hv. þm. að skoða huga sinn tvisvar, áður en þeir ljá því fylgi sitt.