21.04.1941
Neðri deild: 41. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í C-deild Alþingistíðinda. (3246)

111. mál, Ísafjarðardjúpsbátur

Finnur Jónsson:

Þm. við Djúpið geta verið þakklátir þeim tveimur hv. þm., sem hér hafa talað síðast, fyrir þær ágætu undirtektir, sem þetta mál fékk hjá þeim. Nú vil ég ekki á neinn hátt tefja framgang þessa máls með málæði, þar sem ég heyri, að það nýtur almenns skilnings í d., en vegna þess að ég átti sæti á héraðsfundi þeim, sem getið var um áðan, vil ég gefa upplýsingar í málinu.

Það er alveg rétt, að „h/f Vestfjarðabáturinn“ er nú skuldlaust. En þetta hefur gengið þannig til, að félagið hefur leigt bát, stóran á mælikvarða okkar þar vestra, og orðið að hafa hann í Reykjavíkurferðum mikinn hluta ársins og haft alls konar smábáta í Djúpferðunum, en þessi stóri bátur hefur ekki verið notaður til Djúpferða. Djúpmenn hafa komizt að þeirri niðurstöðu, að þeir hafi engan hag af svo stórum bát til Djúpferða með því móti, að hann sé aldrei þar í ferðum, heldur notaður til ýmislegs annars. Bátsstærðin, sem samgmn. hefur lagt til, að tekin verði upp í frv., er sú stærð, sem Djúpmenn sjálfir óska eftir að fá. Á þeim fundi, sem ég mætti á f. h. hv. þm. N.-Ísf., komu fram mjög almennar raddir um að hafa bátinn ekki stærri en svo, að það væri viðráðanlegt fyrir Djúpmenn með þeim tekjum, sem fást af rekstri hans, að reka hann eingöngu til Djúpferða. Búnaðarhættir eru þarna, eins og hv. þm. Mýr. réttilega benti á, þannig, að nauðsynlegt er að halda uppi svo að segja daglegum ferðum um Djúpið. En einmitt á þennan hátt, ef daglegar ferðir verða um Djúpið, verður flutningur ekki það mikill í hverri ferð, að það geti borið mjög stóran bát. Það kom fram á fundinum, að Djúpmenn álíta, að sér væri vel borgið með bát af þeirri stærð, sem tekið er fram í frv. Það er síður en svo, að ég vilji spilla því, að Alþingi leggi meira fram heldur en ætlað er með frv., heldur vil ég taka á móti því með mikilli þökk, en ég tel skyldu mína að benda á, að Djúpmenn óska eftir að fá bát af þeirri stærð, að þeir megi telja öruggt, að hann gangi í Djúpið daglega, en ekki verði talið nauðsynlegt, að hann verði notaður til alls annars en honum er ætlað.

Nú kom einnig fram á þessum fundi, að rétt mundi að stofna nýtt félag til að hafa þessi mál með höndum, og helzt þannig, að sýslan hefði stjórn hans með höndum, og einnig Ísafjarðarkaupstaður, ef hann leggur fram fé til bátsins.

Ég held, að ekki sé ástæða til að fara um þetta fleiri orðum, en ég vil þó aðeins bæta því við, að það var litið svo á, að nauðsynlegt væri, að báturinn færi af stað skuldlaus og á fjárl. fengist svo mikið fé til byggingar bátsins, að hann þyrfti ekki að hafa neina skuldabagga, en hvort það fé, sem lagt er fram til bátsins, er nefnt hlutafé eða eitthvað annað, held ég, að menn hafi ekki lagt neitt sérstaklega upp úr. Menn hafa gert ráð fyrir, bæði um framlag einstaklinga og eins framlag ríkis eða sýslu og hreppa, að ekkert af því fáist aftur, heldur sé það lagt fram sem stofnfjárframlag og eingöngu með þær almennu þarfir manna fyrir augum.