20.05.1941
Neðri deild: 63. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 205 í C-deild Alþingistíðinda. (3292)

132. mál, tekjuskattur og eignarskattur af vaxtafé verðbréf og skuldabréfa

Frsm. meiri hl. (Skúli Guðmundsson) :

Herra forsetil Þetta frv. er flutt af meiri hl. fjhn., og það er ágreiningur í þeirri góðu n. um málið. Minni hl. hefur nú skilað áliti um málið á þskj. 492.

Þetta frv. er um það, að frá 1. jan. 1942 skuli tekju- og eignarskattur af vaxtaeignum og tekjum af þeim innheimtur á sérstakan hátt, eins og fram er tekið í frv.

Til vaxtafjár samkv. l. þessum teljast opinber verðbréf, og teljast þar til bankavaxtabréf, ríkisskuldabréf, skuldabréf bæjar- og sveitarsjóða og stofnana þeirra og önnur slík verðbréf, útgefin af opinberum stofnunum eða fyrirtækjum. Og ennfremur skuldabréf, víxlar og aðrar fjárkröfur, sem tryggðar eru með veði í fasteign að einhverju eða öllu leyti, eða með tryggingarbréfi í fasteign.

Í 3. gr. er fram tekið, að ákvæði l. þessara nái ekki til vaxtaeigna eða vaxtatekna þeirra aðila, sem undanþegnir eru slíkri skattgreiðslu samkv. l. um tekju- og eignarskatt. Það mundi því ekki snerta banka eða sparisjóði, sem eiga mikið af opinberum verðbréfum og skuldabréfum, sem tryggð eru með veði í fasteign.

Í 4. gr. frv. er ákveðið, að vaxtaskatturinn skuli nema 25% af hinni skattskyldu vaxtahæð. 5. og 6. gr. eru um innheimtu á þessum skatti.

Ég vil vekja athygli hv. þdm. á því, að í 6. gr. er á einum stað prentvilla, þar sem stendur „sbr. h- og c-lið 2. gr.“, en á að vera a- og b-lið o. s. frv., því að það er ekki um aðra liði að ræða í 2. gr. frv.

7. gr. er um það, hverjir skuli innheimta þennan skatt.

8. og 9. gr. kveða á um það, að þeir, sem telja fram til skatts vaxtafé og tekjur af því, skuli fá þann vaxtaskatt endurgreiddan með þessum hætti, sem í frv. getur, til þess að tryggt verði, að þessi skattur lendi ekki á þeim, sem telja fram samkvæmt 1. þær eignir, sem hér er um að ræða, og tekjur af þeim, heldur nái aðeins til þeirra, sem láta niður falla að telja þessar eignir og tekjur af þeim fram. Hér er ekki um nýjan skatt að ræða, heldur um það að beita sérstakri aðferð til þess að ná réttmætum sköttum af þeim, sem ekki hafa talið fram að undanförnu.

Ég tel, að þetta frv. nái of skammt. Það hefði einnig átt að gilda um innistæðufé í bönkum og sparisjóðum. En flm. slepptu því að hafa frv. svo víðtækt að þessu sinni, í þeirri von, að það væri meiri vissa fyrir því, að það næði fram að ganga nú á þessu þingi.

Nú er enn meiri ástæða til þess en áður að ná skatti af verðbréfum og skuldabréfum og tekjum af þeim, og meiri heldur en af innistæðum, vega þess að vextir af sparifé á innistæðureikningum í bönkum og sparisjóðum hafa lækkað nýlega og eru nú miklu lægri heldur en af verðbréfum.

Frv. um þetta efni hefur legið fyrir tveimur síðustu hv. Alþ. Það var upphaflega flutt árið 1939 af fjhn. í hv. Ed. Það er fróðlegt að athuga ummæli hv. 1. þm. Reykv., sem þá var frsm. n. í þessu máll. Sá hv. þm. sagði við það tækifæri, að það hefði komið í ljós, að af handhafaverðbréfum hefði ekki komið nema örlítið brot til framtals hjá eigendum þeirra. Hann sagði líka, að ekki væri hægt að búa við það fyrirkomulag, að þeir, sem telja fram, bæru þungann, en hinir, sem ekki telja fram, sleppi við gjöld. Hv. þm. sagði þá einnig, að með frv. væri bent á sniðuga aðferð til þess að ná vaxtaskattinum og rjúfa þá leynd, sem um það væri, hvað menn hefðu í tekjur af verðbréfum.

Frv. þetta, sem kom fram á árinu 1939, var samið af milliþn. í skatta- og tollamálum, sem hv. 1. þm. Reykv. (MJ) átti sæti í: Afdrif þess frv. þá voru þau, að það var afgr. í Nd. með þeirri breyt., að ákvæðin um innistæðuféð voru tekin út úr frv. Þegar það því var afgr. út úr hv. Nd. þá, var það alveg eins að efni til og þetta frv., sem liggur hér fyrir frá meiri hl. fjhn. En þetta frv. 1939 hlaut þá ekki endanlegt samþ. í hv. Ed.

Þetta frv. var svo á ný flutt á síðasta Alþ. af mér og hv. 2. þm. Skagf. (StgrSt). Það fékk athugun í þingn., en ekki varð samkomulag um málið í n. Meiri hl. n. var á móti frv. þá og bar aðallega fyrir sig álitsgerð frá bankastjórn Landsbankans og framkvæmdastjórn Söfnunarsjóðs Íslands. Og í þessar álitsgerðir vitnar hv. minni hl. n. nú. En það er eftirtektarvert, að í báðum þessum álitsgerðum er alveg sneitt hjá aðalatriðum málsins. Þeir forráðamenn Landsbankans og framkvæmdastjórn Söfnunarsjóðs víkja alls ekki að því, að það sé ekki eðlilegt, að þeir, sem ekki telja fram eignir sínar og tekjur, sleppi við lögákveðna skatta, ef unnt er að ná skattgreiðslu hjá þeim eins og öðrum. Fram hjá þessu er vandlega gengið í báðum þessum álitsgerðum.

Minni hl. fjhn. hefur skilað hér nál. á þskj. 492, sem ég geri ráð fyrir, að frsm. þess nefndarhluta, hv. þm. A.- Húnv. (JPálm), geri grein fyrir. Í þessu áliti er meira af stóryrðum heldur en haldgóðum rökum. Þar er talað um þekkingarlitla og ófyrirleitna menn, sem hafi dreift út um landið herfilegustu blekkingum. Frsm. minni hl. n. mun hafa samið þetta nál. En hv. 3. landsk. (StSt) hefur undirskrifað það með honum. Hann (3. landsk.) mun ekki hafa samið skjalið, því að ég er viss um, að orðbragðið hefði þá verið nokkru prúðmannlegra heldur en það er, en hann hefur undirskrifað þskj., án þess að kynna sér efni þess svo sem skyldi, því að ef hann hefði gert það, mundi hann hafa komizt að raun um, að í þessu nál. eru villandi upplýsingar um málið. Skal ég ekki um það segja, hvort þær eru bornar fram af þekkingarskorti eða ófyrirleitni, svo að notuð séu orð hv. þm. A.- Húnv. í hans nál.

Ég vil fara nokkrum orðum um þær mótbárur, sem fram koma í nál. minni hl. n. Þar er talað um, að bankarnir séu mótfallnir frv., — mun það og vera. En það er ekki sönnun fyrir því, að málið eigi ekki rétt á sér. En síðan segir í nál., að sama máli og um bankana muni gegna í þessu efni um hverja einustu sparisjóðsstjórn á landinu, enda mundu slík l. sem þessi hafa í för með sér aukinn reksturskostnað fyrir allar peningastofnanir landsins, segir í nál. Ég fullyrði, að hv. þm. A.-Húnv. hefur ekki spurt um álit allra sparisjóðsstjórna á landinu og veit því ekki um það. Það er líka rangt, að þetta hafi aukinn kostnað í för með sér fyrir allar peningastofnanir í landinu. Um flesta sparisjóði er það að segja, að þessi l. mundu ekki valda þeim neinni aukinni fyrirhöfn eða kostnaði. Ég fullyrði ennfremur, að í svari Landsbankans í fyrra er miklu meira gert úr fyrirhöfn bankans fyrir þessu heldur en rétt er.

Hv. minni hl. n. vitnar í skýrslu, þar sem birtir eru reikningar Landsbankans 1939. Og á þeirri skýrslu byggir minni hl. svo útreikninga sína um það, hve vaxtaskatturinn mundi nema mikilli upphæð. En sú skýrsla er mjög ófullkomin og of gömul til þess að hægt sé að byggja útreikninga um þetta efni á henni. Þess vegna er ekki hægt að taka mark á útreikningi hv. minni hl. í þessu efni. Til sönnunar mínu máli í þessu efni vil ég benda á tvennt. Í fyrsta lagi, að jafnvel. þótt skýrsla þessi um opinber verðbréf, sem birt er með bankareikningnum í árslok 1939, hefði verið tæmandi, þegar hún var gerð, en. um það skal ég ekkert fullyrða, þá er nú ekkert hægt að byggja á henni, vegna þess að árið 1940 og á þessu ári hefur mikið bætzt við af opinberum verðbréfum, sem eru eign skattskyldra aðila. Og ef í eigu skattskyldra aðila eru veðskuldabréf, sem nema mörgum millj. kr. eftir þessari skýrslu Landsbankans, þá eru til veðskuldabréf, sem gefin eru út til handhafa, sem ekki eru talin í þessari skýrslu, og þau munu nema mörgum millj. kr:

Nú heldur hv. minni hl. því fram, að innheimta skatts af verðbréfum og skuldabréfum sé í því lagi, að ekki sé þörf þar um að bæta eða a. m. k., að það sé hægt án sérstakrar löggjafar. Vitna þeir þar í álit mþn. í skattamálum, sem fylgdi frv. um vaxtaskatt 1939. En minni hl. getur aðeins um nokkuð af því, sem mþn. segir, en sleppir öðru. Um aðferð skattinnheimtunnar segir svo í áliti minni hl., með leyfi hæstv. forseta : „Aðferð skattheimtunnar er þessi : Skuldarinn er krafinn sagna um það, hverjum hann skuldar, en ef hann getur ekki gefið það upp, er hann sjálfur krafinn um skatt af skuldinni“. Þetta er villandi frásögn. Það er ekki rétt, að sá, sem skuldar fjárhæð, en vill ekki eða getur ekki gefið upp nafn þess, sem hann skuldar, sé ætíð krafinn um skatt af upphæðinni, því að þótt framteljandi, sem telur fram skuld án þess að gefa upp nafn lánardrottins, fái ekki að draga skuldina frá eign sinni eða vextina frá tekjum sínum, þá er alls ekki vist, að hann þurfi að borga skatt af skuldinni. Margir framteljendur komast ekki í skatt, tekjur þeirra eða eignir eru ekki meiri en það, og aðrir borga miklu lægri skatt heldur en lánardrottinn ætti að greiða af upphæðinni, ef þetta frv. yrði að lögum.

Ég get ekki séð í þessu máli nema tvær leiðir, sem gætu talizt löggjafarvaldinu samboðnar. Önnur er sú, að gera ráðstafanir, eftir því sem unnt er, til þess að innheimtir verði þeir skattar, sem lögum samkvæmt á að greiða, og þetta frv. er spor í þá átt, og ég held, að eins og nú er ástatt, sé full ástæða, fyrir ríkissjóðinn að taka þá skatta, sem menn eiga að greiða, ef einhver leið er til að innheimta þá. Hin leiðin er sú, að undanþiggja alla peninga- og verðbréfaeign skatti, en ég vil ekki mæla með þeirri leið, því að það væri rangt gagnvart þeim, sem eiga fjármuni í öðrum eignum. En það sjá allir, að það er óþolandi ástand, að þeir, sem telja fram tekjur og eignir samvizkusamlega, eins og skylt er að gera, séu látnir borga, en þeir, sem vilja draga undan, séu látnir sleppa. Þetta er aðalatriðið, og vænti ég, að öllum hv. þdm. sé það ljóst.