18.04.1941
Efri deild: 38. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 244 í C-deild Alþingistíðinda. (3393)

105. mál, eignarnámsheimild á heitum uppsprettum í Siglufirði

Flm. (Bernharð Stefánsson) :

Eins og getið er um í hinni stuttu grg. frv., er það flutt samkv. beiðni bæjarstjórnar Siglufjarðar, og var áskorun um það samþ. þar með öllum atkv. Frv. þetta fer fram á, að Siglufjarðarkaupstað sé heimilað að taka eignarnámi heitar uppsprettur í Skútudal, ásamt nauðsynlegu landi til virkjunarframkvæmda.

Þessar heitu uppsprettur eru um 5 km. frá Siglufirði, og hafa farið fram rannsóknir á þessum stað og vatninu þar, en þær hafa ekki gefið reglulega góða raun, því að eins og vatnið er þar, er það hvorki svo mikið að vöxtum né heldur svo heitt, að það komi að verulegum notum, ef ekki tekst að auka það. Það, sem vakið hefur áhuga manna á Siglufirði fyrir þessum uppsprettum, eru þær framkvæmdir, sem hér hafa verið gerðar og víðar, því að það hefur sýnt sig, að þar, sem heitt vatn er fyrir hendi, má sums staðar auka það stórum, bæði að magni og hita, með borunum. Þetta hugsa Siglfirðingar sér að framkvæma í þeirri von, að meiri verðmæti geti orðið að þessum uppsprettum.

Bæjarstjórn Siglufjarðar hélt hátíðlegan 500. fund sinn og 20 ára afmæli kaupstaðarins með því að samþykkja að hefjast handa í þessu máli. Þetta var 20. maí 1938. Hefur þó ekkert orðið úr framkvæmdum síðan, og telur bæjarstjórnin í bréfi til okkar þm. Eyf., dags. 5. þ. m., sem prentað er hér sem fskj., að þessi dráttur stafi af því, að landið sé í einstaklingseign, og sé eigandi eigi fús á að láta það af hendi.

Ég skal engan dóm á það leggja, að hve miklu leyti hefur staðið á eiganda þessa lands, en við flm. höfum talið rétt, að bæði þm. í heild og þá sérstaklega n. sú, sem væntanlega fær frv. til meðferðar, fái að kynnast því sem bezt og þá um leið bréfaviðskiptum bæjarstj. við Guðmund Hannesson bæjarfógeta, sem er eigandi landsins, út af þessu máli, og því höfum við látið prenta þau bréf, sem þeim hafa farið í millí út af því.

Ég get ekki neitað því, að mér virðist á bréfunum, að að vísu hafi bærinn átt fullan kost á að eignast þetta heita vatn, en allt um það vænti ég, að n. rannsaki þetta mál sem bezt og veiti því greiða og góða afgreiðslu.

Ég leyfi mér að leggja það til, að frv. verði, að umr. lokinni, vísað til allshn.