15.05.1941
Sameinað þing: 16. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í D-deild Alþingistíðinda. (3497)

153. mál, frestun alþingiskosninga

Jóhannes Jónasson:

Herra forseti! Það alvarlega mál, sem hér er nú loks tekið til meðferðar. er þess eðlis, að óhjákvæmilegt er að líta nokkuð til baka, áður en komið er að sjálfu aðalefninu. Hefði sannarlega verið þörf á að gera það nokkru ýtarlegar en ég get gert, enda þótt svo kunni að fara, að sumum þyki ég verða nógu langorður.

Við síðustu alþingiskosningar, vorið 1937, gerðu Sjálfstæðisfl. og Bændafl. bandalag, er þeir kölluðu breiðfylkingu Íslendinga. Það var mjög merkilegt tímanna tákn: Fyrri hluti nafnsins var sóttur til spánverskra fasista, en síðari hlutinn var hin fyrsta opinbera staðfesting þeirrar nýstárlegu kenningar, að þeir einir væru Íslendingar, er fylgdu afturhaldinu að málum. blóti þessari breiðfylkingu börðust vinstri flokkarnir þrír, sem þá voru kallaðir, Framsóknarflokkurinn, Alþýðuflokkurinn og Kommúnistaflokkurinn, og lauk kosningunum svo, að þessir sameiginlegu andstæðingar afturhaldsins, fulltrúar vinnustéttanna í landinu, náðu hreinum meiri hluta.

Nú kom, ennþá einu sinni, að því að efna loforðin, sem kjósendum höfðu verið gefin: Að beita hinum sívaxandi styrkleika ríkisvaldsins til hagsbóta fyrir alþýðuna. En hin nýja samstjórn Framsfl. og Alþfl., sem mynduð var eftirkosningarnar og raunar var skipuð hinum sömu mönnum og fyrir kosningar, reyndist, þegar til kom, treg til efndanna. Fylgi Alþýðuflokksins hafði minnkað, en aftur á móti sátu nú þrír kommúnistar á þingi. Þetta mun hinum ungu gæðingum stjórnarflokkanna hafa þótt ískyggilegt tímanna tákn. Það hafði aldrei verið meiningin að hlaupa of langt til vinstri, — veita íslenzkri alþýðu fullkomna uppreisn. Og þá var um að gera að spyrna við fótum í tæka tíð.

Kommúnistar héldu áfram að berjast fyrir samfylkingu eða helzt sameiningu verklýðsflokkanna, og brátt kom þar, að meiri hluti Alþfl., róttækari armurinn, gekk til sameiningar við Kommúnistafl. um nýja flokksmyndun, með sjálfan hv. 3. þm. Reykv., Héðinn Valdimarsson, í broddi fylkingar. Sameiningarflokkur alþýðu, Sósíalistafl., var stofnaður haustið 1938. Þar með var teningunum kastað. Nú var bersýnilegt, að stéttvísasti og skeleggasti hluti verkalýðs höfuðborgarinnar ætlaði loks í alvöru að krefjast efnda á kosningaloforðunum frá vorinu 1937.

En þá sneri Framsfl., með leifar Alþfl. í eftirdragi, algerlega við blaðinu. Á vetrarþinginu 1939 gerðust þau tíðindi, er einna örlagaríkust munu reynast í innri stjórnmálasögu hins fullvalda íslenzka ríkis: Stjórnarflokkarnir ganga til samninga við hinn forna erkifjanda, Sjálfstfl., og bjóða honum hlutdeild í nýrri stjórnarmyndun.

Þar með var svörtu striki slegið yfir öll kosningaloforðin og í raun og veru allt svikið, sem svikið varð.

Framsfl., sem gert hafði Bændafl. óvígan í kosningunum, bæði vegna samvinnu hans við Sjálfstæðisfl. og afstöðunnar til gengismálsins, gekk nú sjálfur til samvinnu við þann síðarnefnda, einmitt með sömu lausn þess máls, gengislækkun, að yfirskini. Sá, er að tjaldabaki mun hafa átt drýgstan þáttinn í sköpun þessarar samsteypu, var maður, sem Sjálfstfl. hafði frá því fyrsta litið á sem fjandmann þjóðarinnar nr. 1 og á sínum tíma lagt á sig mikið erfiði til þess að fá lokaðan inni á vitlausraspítala, hinn bóginn var maður, sem Framsfl. hafði alla tíð ofsótt sem mesta skaðsemdargripinn í atvinnulífi þjóðarinnar, gerður að atvinnumálarh., annar, sem þótt hafði vörður og verndari allrar fjármálaspillingar, var settur yfir fjármálin. Og til þess að koma þessum nýju bjargvættum fyrir í stjórninni, varð að fjölga ráðherrastólunum úr þremur í fimm.

Með þessari ráðabreytni var ráðizt á tvö grundvallaratriði stjórnskipulagsins í senn: Lýðræðið, með því að taka þveröfuga stefnu við ótvíræðan vilja meiri hluta kjósenda, án þess að samþykkis þeirra væri leitað, þingræðið með því að auka um allan helming áhrif auðvaldsins í landinu á vilja þjóðfulltrúanna.

Nú var þá loks um sinn búið að keyra alla hagsmunaþætti sérréttindastéttanna saman í einn hnút: Bankastjórar, útgerðarmenn, heildsalar og embættismenn tóku fagnandi við samvinnuforkólfum og verkalýðsforingjum og buðu þá velkomna inn í ríki afturhalds og kúgunar með þau tæki í höndunum, sem eitt sinn voru fjöregg alþýðunnar og hún hafði í grandleysi sínu trúað þeim fyrir. Nú loks virtist óhætt að láta til skarar skríða fyrir alvöru, enda leið ekki á löngu þar til farið var að gefa þjóðinni höggorma og nöðrur í staðinn fyrir fisk og brauð.

Þau þing, sem háð voru frá kosningum og þar til landið var hernumið, munu verða fræg í sögunni á sínum tíma. Þau munu verða skoðuð sem svartir blettir í sögu þingsins, og það blettir, sem stöfuðu hvorki frá óviðráðanlegum náttúruviðburðum né erlendri íhlutun, heldur blátt áfram sjálfráðu samsæri innlendra valdhafa gegn lífi og hagsmunum almennings.

Ég held mér sé óhætt að segja, að það sé fátt eitt af hinum mikilvægustu lýðréttindum, er áunnizt höfðu frá því að íslenzk endurreisn hófst, sem þessi þing snertu ekki við með sinni drepandi köldu hendi. Ég skal aðeins minnast á fáein dæmi.

Til þess að koma í veg fyrir, að verkalýður kaupstaðanna gæti borið hönd fyrir höfuð sér með verkfallssamtökum, var komið á vinnulöggjöf og gerðardómi í kaupgjaldsmálum. Til þess síðan, að fyrsta afrek hinnar svokölluðu þjóðstjórnar, gengislækkunin, kæmi að fullum notum, varð að koma í veg fyrir, að vinnulaun hækkuðu að sama skapi. Samhliða gengislögunum voru því önnur lög sett um bann gegn kauphækkun. Þar með var verkamaðurinn að fullu sviptur hyrningarsteini frelsis síns — að mega sjálfur hafa íhlutun um verðlag vinnu sinnar. Margra ára sigrar harðvítugrar frelsisbaráttu alþýðunnar voru þar með að engu orðnir og það fyrir atbeina sumra þeirra manna, er sjálfir höfðu haft á sínum tíma forystu í þeirri baráttu. Við þessu öllu var kjósendum síðan ætlað að segja það sama og hinn kýlum hlaðni Job mælti forðum : Drottinn gaf og drottinn tók, lofað veri nafn drottins.

Samtímis öllu þessu voru uppi alvarlegar ráðagerðir um það að lögfesta hina illræmdu fátækraflutninga á ný, ennfremur að reka svo sem eins og tólf þúsundir reykvískra borgara út um hinar dreifðu byggðir landsins og skipta þeim þar niður á bæina eins og hröfnum, tveimur á hvern.

Þannig mætti lengi telja. En þetta ætti að nægja til að sýna, að þing og stjórn voru komin í þveröfuga afstöðu við allan málflutning flokkanna frá vorinu 1937 og þar með þann kjósendavilja, er á honum grundvallaðist, löngu áður en sá atburður gerðist, er tók að nokkru leyti sjálfsákvörðunarréttinn úr höndum landsmanna sjálfra, og á ég þar við hernám Breta á Íslandi fyrir réttu ári síðan. Hernámið var að ýmsu leyti ákjósanleg staðreynd fyrir þá stjórn, sem tekið hafði sér völd í hendur í svo djúpsettri mótsögn við kosningagrundvöllinn frá 1937. Með hernáminu var skapað hið svokallaða „ástand“, sem síðan hefur meira og minna verið notað ýmist sem skálkaskjól fyrir ofbeldi eða afsökun fyrir sleifarlagi, eftir því, sem á hefur þurft að halda.

Valdhafarnir byrjuðu á því að taka á móti innrásarher framandi stórveldis eins og hverjum öðrum gestum. Síðan var höfuðborg landsins mótmælalaust gerð að víggirtri setuliðsborg og álitlegum hluta þegnanna þar með stefnt í yfirvofandi lífshættu. Vinnuafl sjálfra landsmanna var notað til framkvæmda þessa múgmorðaundirbúnings, einnig mótmælalaust, þar til nú fyrir skemmstu, þegar búið var að stofna framleiðslu landsmanna í beinan voða. Innlendir atvinnurekendur urðu brátt samherjar hins brezka vinnuveitanda í átökum við verkalýðinn, og dómstólar vorir hafa dæmt þá verkamenn fyrir íslenzk landráð, er fremst hafa gengið í baráttunni gegn hinni erlendu íhlutun.

Einmitt þegar öll íslenzka þjóðin átti að eiga í harðri frelsisbaráttu við hinn framandi innrásarher, þá skeður það undarlega tímanna tákn, að skorin er upp herör gegn annarri smáþjóð, sem einnig er hernumin af öðrum stríðsaðilanum og hafði því enga aðstöðu til að ganga á rétt vorn eins og sakir standa, þótt áður hafi hún gert svo. Þessu til áréttingar átti síðan að leggja niður þjóðfánann, eins og hann er, og gera þar með rauðan lit útlægan á Íslandi um aldur og ævi.

Með öðrum orðum: í stað þess að snúast einhuga gegn því valdi, er stóð með brugðnum bröndum yfir höfðum vorum, átti heil þjóð að fara að berjast við vindmyllur, — og hvers vegna? Nú er bezt, að hver svari fyrir sig.

Hafi nokkur verið í vafa um, að þörf væri á að halda fast um rétt vorn gagnvart innrásarhernum, þá hlýtur sá vafi að hafa horfið við þann atburð, sem gerðist hér fyrir nokkrum dögum síðan — atburð, sem illu heilli varð til þess, að ég stend nú hér á þessum stað. Þá var það, að hið erlenda hervald réðst á sjálfa stjórnarskrá landsins og friðhelgi Alþingis til þess að ná til skeleggasta alþýðuforingjans á Íslandi, auk þess sem það setti hið eina dagblað stjórnarandstöðunnar í bann, í hvers konar formi, sem verða vildi, og flutti starfsmenn þess af landi burt.

Þessi atburður hefur enn brugðið nýju ljósi yfir eðli og inntak þeirra flokka og foringja, sem gengu til síðustu kosninga. Að vísu hafa blaðaskrif og umræður verið með þeim hætti, að erfitt hefur verið að greina þar á milli einlægni og yfirdrepskapar. Og það er til marks um kapphlaup íslenzkra valdhafa við hið erlenda ofbeldi, að hér á sjálfu hinu háa Alþingi hafa risið upp menn og ávítað stjórnina fyrir að verða ekki fyrri til að beita ofbeldinu.

En ef marka má það, sem um málið hefur verið skrifað í málgögnum flokkanna, þá er það mjög greinilegt, í hvaða flokki hinn íslenzki málstaður á sér formælendur og í hvaða flokkum hinn brezki. Þó er engan veginn með þessum blaðaskrifum sannað, að þau séu hin rétta spegilmynd af hugarfari almennings innan þessara flokka. Þau þurfa ekki heldur að vera sú rétta spegilmynd af hugarfari alls þorra þingmanna þeirra.

Það er skoðun mín, að meginhluti þeirra hv. þm., er greiddu atkv. með mótmælum Alþingis gegn brottnáminu, hafi gert það af heilum hug. Það er enn fremur skoðun mín, að þáttur þessara sömu hv. þm. í þeirri harmsögu líðandi kjörtímabils, sem ég nú hef í stórum dráttum rakið, hafi ekki verið snúinn af fúsum vilja, heldur af illri einkanauðsyn. Á bak við hina ábendanlegu harmsögu munu felast aðrar óáþreifanlegri um margan hraustan dreng og efnilegan þjóðfulltrúa, sem smám saman hefur ánetjazt þeim öflum, er hann í öndverðu hugðist að berjast gegn, og verður nú að dansa sem nauðugur limur eftir því höfði, er situr á herðum höfðingja eins og hæstv. atvmrh., hæstv. félmrh. og hv. þm. S.-Þ.

Það gegnir hreinni furðu, að hv. þm. skuli fást til að ræða um það í fullri alvöru, hvort brjóta skuli stjórnarskrá landsins með því að fella niður kosningar um óákveðinn tíma og það fáum dögum eftir, að þeir hafa einróma mótmælt broti framandi valds á þessari sömu stjórnarskrá. Ætla þeir virkilega að kóróna sögu kjörtímabilsins með því að afnema sjálfan grundvöll lýðræðisins og þingræðisins í landinu og gera þar með að engu þá siðferðilegu uppreisn, sem fólgin var í fyrrnefndum mótmælum?

Enn einu sinni er vitnað í hið svokallaða „ástand“. En allt hjal um árásarhættu og því um líkt er blátt áfram hlægilegt í munni þeirra valdhafa, sem ekki hafa unnið trúlegar gegn þeirri sömu hættu en raun ber vitni um. Slíkt hjal situr líka sízt á þeim mönnum, sem með köldu blóði ota lífi íslenzkra þegna út í það brjálæði að flytja matinn frá munninum á börnunum og kasta honum fyrir vafasama pappírsseðla úti í Bretlandi. Nei, hér er ekki um neitt óvenjulegt utanaðkomandi ástand að ræða, íslenzkri alþýðu er sannarlega ekki vandara um á kjördegi en aðra daga. Hér er blátt áfram um að ræða hið innra ástand þjóðmálanna. Verði kosningum frestað, þá er það eingöngu vegna þess, að þing og stjórn, sem vita upp á sig skömmina, þora ekki að koma fram fyrir umbjóðendur sína. Og ég verið því miður að játa, að mér finnst það nokkur vorkunn.

Bent hefur verið á, að kosningar gætu, hvort eð væri, ekki farið fram á lýðræðislegum grundvelli, með því að aðalmálgagn stjórnarandstöðunnar hefði verið bannað. Þetta er í sjálfu sér hverju orði sannara. En vér sósíalistar höfum sannarlega ekki átt slíkri umhyggju fyrir málstað vorum að fagna á undanförnum árum. Vér höfum fremur átt hinu að venjast, að talað væri um að loka á okkur munninum sem fyrst og vendilegast. Það væri því hámark hræsninnar, ef afnema ætti leifar lýðræðisins með þeim forsendum, að þær kæmu oss sérstaklega ekki framar að fullu gagni. Það væri þá nær að beita öllu afli að afnámi þess banns, er nú hvílir á málgagni voru, — það væri að sýna alla þessa miklu lýðræðisást í verki.

En látum „ástandið“ vera eins og það er, sósíalistar munu samt ekki hika. Sviptir málgagni og foringjum munu þeir berjast til þrautar, jafnt á vettvangi kosninga sem annars staðar og taka jafnt sigri sem ósigri með hinu sama jafnaðargeði, þar til fylling tímans kemur og fólkið sjálft opnar augun og sér hinar einu útgöngudyr: Afnám þess skipulags, er hrundið hefur mannkyninu og menningunni út í það eitraða og blóðuga „ástand“, sem nú ríkir á jörðinni.