21.05.1941
Neðri deild: 64. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í D-deild Alþingistíðinda. (3561)

152. mál, kirkjubyggingar í Skálholti og á Þingvöllum

*Sveinbjörn Högnason:

Eins og fyrsti flm. sagði, þá flytjum við þessa till. til þál. vegna þess, að ekki er vansalaust, að sama ástand ríki á hinum söguhelgustu stöðum þjóðarinnar og áður. Enda þótt litlar horfur séu á, að hægt verði að byrja strax á verkinu, þá er þó gott að hafa tímann fyrir sér, til að koma sér saman um allt fyrirkomulag á þessu. Því er tímabært að leggja þetta fyrir hv. Alþingi, og síðan yrði hafizt handa með byggingarnar um leið og byggingarmálefni þjóðarinnar komast í rétt horf.

Ég álít óþarft fyrir mig og aðra flm. að eyðu mörgum orðum um mótmæli hv. 4. landsk., vegna þess að hans mótmæli stefna aðeins í þá átt, að ekki skuli reisa kirkjur á þessum stöðum. Hans sjónarmið er háð öðrum trúarbrögðum, og í þeim trúarbrögðum er algengt að breyta kirkjunum í söfn, enda sagði hann, að þarna ætti fremur að byggja söfn.

Ég skil það líka ósköp vel, út frá hans sjónarmiði, en við erum andlega fjarskyldir, og um það mun ég ekki fara að deila. Sem betur fer er vitað, að meiri hluti þessarar þjóðar játar kristna trú, en hefur ekki hallazt að austrænum trúarbrögðum, sem menn geta ekki séð, að fært hafi með sér neina blessun, ef við lítum á það ástand, sem þau eiga í rauninni upptök að.

Það er enginn vafi, að þjóðin er þess hugar, að minningarnar, sem tengdar eru við þessa staði, Þingvelli og Skálholt, eru svo helgar og þjóðinni til svo mikillar blessunar, að það beri að endurreisa þá í sama anda og áður. — Þess vegna er það álit okkar flm., að fyrst og fremst beri að reisa þarna kirkjur, og þá yrði jafnframt hægt að geyma þar muni, sem þessir staðir eiga, gamla söguhelga muni, svo að þessir staðir yrðu til þess að halda uppi minningum, sem hafa verið þjóðinni til hinnar mestu blessunar. — Ég ætla ekki að eyða fleiri orðum í þetta, en víkja að því, sem hv. þm. N.-Þ. sagði.

Honum finnst hér ekki nógu langt gengið, en viðurkennir samt, að við séum á réttri leið. Hann vill, í sambandi við þessa till. til þál., endurreisa Skálholtsstað þannig, að þar yrði biskupssetur. Mér finnst þetta rétt, að biskup yrði fluttur þangað, en mér er ekki grunlaust um, að einhver mótstaða sé gegn því, og þess vegna vil ég ekki blanda þessum málum saman. Ég veit, að hv. þm. er mér sammála um, að við þurfum ekki að blygðast okkar fyrir, þó að biskupinn sitji hér í Reykjavík, en við þurfum að blygðast okkar fyrir það skeytingarleysi, sem þessum söguhelgu stöðum þjóðarinnar er sýnt. Því má ekki dragast að bæta um í því efni, en ég álít, að málið gæti tafizt á því að fara að blanda þessu saman.