12.06.1941
Efri deild: 77. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í D-deild Alþingistíðinda. (3714)

115. mál, húsnæði handa hæstarétti

*Flm. (Jónas Jónsson) :

Ég álít, að það, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði í sambandi við hin þröngu húsakynni háskólans, meðan hann dvaldi hér í húsinu, sýni gleggst, hversu mikil fórn það var af hálfu Alþ. að taka stofnunina í sína byggingu. Það, að Alþ., háskólinn og hæstiréttur voru sett eins og þau hafa verið undanfarin ár, þ. e. a. s. hæstiréttur í tugthúsinu. og Alþ. og háskólinn drepandi hvort annað, sýndi ekkert annað en það, hversu mikil vöntun var á húsnæði og hversu það mál er erfitt. Þegar svo háskólinn hafði fengið fyrir frumkvæði Alþ. svona geysilega stóra byggingu, þá virðist það liggja í augum uppi, að einmitt það hljóti að koma til athugunar, hvort ekki væri hægt að leysa úr þessum vandræðum í sambandi við þessa miklu húsagerð. Hv. þm. gat ekki neitað því, að það er mikill munur á því húsnæði, sem háskólinn hefur nú, og því, sem hann hafði áður, og í þessu liggur aðalsönnunin fyrir því, að það hlýtur að vera hægt að taka hæstarétt í háskólahúsið, ef vilji er á báðar hliðar. Það er rétt, að hæstarétti var boðið efsta loftið í byggingunni, en eins og kunnugt er, fannst dómurunum þeir ekki geta notað það, sem eðlilegt var, einkum ef þeim hefur verið boðið upp á bakdyrainnganginn. Það var óhugsandi, að dómararnir gætu sætt sig við þá aðstöðu, og þar að auki er þarna mjög lágt undir loft. Hvað fyrirlestrasalinn snertir, sem hv. 1. þm. Reykv. gat ekki mótmælt, að stæði auður allan daginn, þá er hann líka svo lítið notaður á kvöldin, að auðveldlega mætti nota hann jafnframt sem kennslustofu.

Ég hygg, að hv. þm. hafi ef til vill komið í dómsalinn í Winnipeg. Í þeirri veglegu byggingu er tiltölulega lítið rúm, þar sem hæstiréttur kveður upp sína dóma og ætlað er dómurunum, en áhorfendasalurinn stór. Ég hef talað um þetta mál við ýmsa menn, sem hafa nokkuð við hæstarétt að gera, og þeir finna sárt til þess, að hæstiréttur skuli þurfa að búa í þessum óheilnæmu húsakynnum, sem eru til mikillar hneisu fyrir Alþ. Þess vegna er fullkomin ástæða til að taka málið til meðferðar. Ég get ekki séð, að sú röksemd hv. 1. þm. Reykv., að þm. eigi ekki að skipta sér af þessu, hafi við neitt að styðjast. Hæstiréttur fær sína peninga samkv. löggjöf frá Alþ., og það verður aldrei séð um betra húsnæði handa þeirri stofnun, nema um það gangi atkvgr. á Alþ. Það er einmitt starf Alþ. að skipta sér af slíkum hlutum, þegar finna skal húsnæði handa einni af veglegustu stofnunum ríkisins, án þess að auka útgjöldin svo að nokkru nemi, en slíkt mætti takast, ef hægt yrði að nota húsrúm í háskólanum, sem annars mundi standa autt. Ég vildi að lokum óska eftir því, að hæstv. forseti frestaði atkvgr., þegar umr. er lokið, af því að svo marga hv. þm. vantar í d. Málið er hvort sem er útrætt, þegar umr. er lokið, og hvort sem það verður samþ. eða ekki samþ., þá er það samt tilraun til að koma hæstarétti úr því óþolandi húsnæði, sem hann á nú við að búa.