30.04.1941
Sameinað þing: 11. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1264 í B-deild Alþingistíðinda. (39)

Fyrirspurnir um stjórnarráðst. o. fl.

Ísleifur Högnason:

Vegna andsvars hæstv. utanrmrh. vildi ég segja, að hann hefur ekki breytt skoðun á því, sem ég tel óafsakanlegan drátt á mótmælum, því að ég tel, að þau hefðu jafnvel átt að vera komin fyrr frá ríkisstj. til hlutaðeigandi aðila heldur en Alþ., gerði sín mótmæli, vegna þeirrar lífshættu, sem þeir, er handteknir voru, voru settir í og stj. var vorkunnarlaust að vita um.

Sömuleiðis vildi ég árétta fyrirspurn mína um það, hvort ríkisstj. vildi gera allt, sem hún getur, til þess að blað Sósíalistafl. fái að halda áfram útkomu sinni og til þess þá einnig að fá að vita, með hvaða takmörkunum það mætti koma út.

Ég geri kröfu til þess fyrir hönd Sósíalistafl., að blað hans fái að koma út áfram án nokkurra takmarkana. Og álit okkar sósíalista er, að Þjóðviljinn hafi ekkert af sér brotið. Og til þess að vernda lýðræðið í landinu, þá er nauðsyn, að flokkurinn fái að hafa sitt eigið málgagn.