15.04.1941
Neðri deild: 35. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 246 í B-deild Alþingistíðinda. (420)

75. mál, leigutaka á húsnæði í sveitum og kauptúnum o.fl.

*Einar Olgeirsson:

Ég skil þetta frv. eins og það kemur frá hv. Ed. svo, að það teljist sjálfsagt, að býli í sveitum, eins og t. d. sumarbústaðir, heyri þar undir, þar sem talað er um nothæft húsnæði, svo ekki getur verið um að ræða, að þeir séu að neinu leyti undanþegnir, að svo miklu leyti sem hægt er að nota þá sem dvalarstaði fyrir börn og mæður. Þá tel ég sjálfsagt, að ríkisstj. fái, ef þetta frv. verður að 1., fulla heimild til slíks.

Hvað snertir einstaka skólahús í sveitum, er vitanlegt, að það hafa komið fram raddir, eða a. m. k. ein rödd, í sambandi við umr. um þetta mál í hv. Ed., þar sem álitið var, að einstaka skólahús í sveitum væru of góð fyrir börn og mæður þeirra úr kaupstöðum til að dvelja í, þegar loftárásarhætta er hér í Reykjavík. Ég get tekið undir það með síðasta ræðumanni, að það er ekki nema gott, að það komi fram, hverrar skoðunar Alþingi er um þetta mál og held, að það sé heppilegt, að þeir menn, sem eru þeirrar skoðunar, að útiloka beri eða jafnvel banna, að mæður og börn dvelji í ákveðnum skólahúsum að sumrinu til og vilja heldur hafa staði eins og t. d. Laugarvatn sem skemmti- og hvíldarstaði fyrir efnaða Reykvíkinga heldur en að láta mæður og börn dvelja þar, þegar loftárásarhætta er hér í Reykjavík, þeir bæru fram till. um þetta við 2. umr. þessa máls.

Ég býst ekki við, að þarna sé verið að tala í nafni sveitanna og þeirra húsmæðra, sem hafa komið skólunum upp. En það er eðlilegt frá sjónarmiði efnaðra borgara í Reykjavík að taka slíka afstöðu, ef þeir geta ekki einu sinni afsalað sér því að dvelja í sumarfríinu á Laugarvatni, þegar önnur eins hætta vofir yfir landinu og nú. Þess vegna væri rétt, að það kæmi fram við 2. umr., hvort slíkar skoðanir, að það ætti að banna börnum og mæðrum þeirra aðgang að ákveðnum skólahúsum hér á landi, hvort þær hefðu stuðning hér á þingi.