15.04.1941
Neðri deild: 35. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 248 í B-deild Alþingistíðinda. (424)

75. mál, leigutaka á húsnæði í sveitum og kauptúnum o.fl.

*Haraldur Guðmundsson:

Ég tel varhugavert nú að undanþiggja nokkurt húsnæði, sem nothæft er, og vil því beina því til þeirrar n., sem fær þetta mál til meðferðar, að hugsa sig vel um áður en hún gerir það. Það er enginn vafi á því, að húsnæði er ekki meira en svo, að það þarf að nota það allt af fyllstu hagsýni.

Að því er snertir það, sem hv. 2. þm. Árn. sagði, um að ráðstafa á sama hátt sumarbústöðum, þá hygg ég, að þar sem frv. tekur til fundahúsa og annars nothæfs húsnæðis, þá nái þetta til allra sveitabýla og einnig til sumarbústaða og annarra býla, sem þannig eru, að hægt sé að nota þau. Hitt er að sjálfsögðu matsatriði, hversu brýn nauðsyn er að nota heimildina út í æsar á hverjum tíma, .en ég tel sjálfsagt að hafa hana svo víðtæka sem unnt er.