23.04.1941
Neðri deild: 43. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 300 í B-deild Alþingistíðinda. (536)

12. mál, loftferðir

Frsm. (Jóhann G. Möller) :

Frv. þetta er borið fram af ríkisstj. til staðfestingar á bráðabirgðal., sem gefin voru út í nóv. f. á. Í 1. frá 1929 er ekki nógu skýrt ákveðið um heimild handa ríkisstj. til að taka eignarnámi lóðir og önnur mannvirki vegna loftferða. Þar ræðir eingöngu um heimild fyrir ríkisstj. til að taka lendingarstaði fyrir loftför til fastra lendingarstaða.

Allshn. hefur athugað frv., og að fengnum upplýsingum frá atvinnumálaráðuneytinu, þótti henni rétt að leggja til, að frv. yrði samþ. með nokkrum breyt., sem eru ekki efnisbreyt., heldur eru einungis um að fella úr frv. nokkur orð, sem eru óþörf.

Brtt. n. eru á þskj. 184.. Ég vil biðja hv. þdm. að athuga, að þskj. hefur verið prentað upp aftur, því að ein brtt. hafði fallið niður. Það virðist óþarft að taka það fram í l., að það megi skerða eignir eða mannvirki o. s. frv. Það leiðir af sjálfu sér, þegar um eignarnám er að ræða og ekki er átt við ákveðna eign eða ákveðin lóðar réttindi. Brtt. eru um að lagfæra þetta. Enda eru þær í fullu samræmi við l. um eignarnám frá 1917, sem á að fara eftir.

Það væri ástæða til að geta um það, að í 1. gr. frv. ræðir sérstaklega um, að mat skuli fara fram á mannvirkjum og eignum, sem tekin eru eignarnámi til flugvallargerðar í Reykjavík. Hér er um miklar eignir að ræða, hús og önnur mannvirki, — sem nema að mati gífurlegri upphæð. Þótti rétt að tryggja það sérstaklega, að matið væri gert af matsnefnd og svo örugglega um búið, að hún yrði ekki rengd. Það getur eðlilega komið til greina, að matið verði lagt til grundvallar fyrir væntanlegum kröfum ríkisstj. á hendur hinu brezka hervaldi.

Það er ekki ástæða til að hafa fleiri orð um frv. Allshn. leggur til, að það verði samþ. Mig langar til, án tillits til þessa frv., að fá

upplýsingar frá ríkisstj. um mál, sem er skylt þessu, sem sé flugvallargerðina í Reykjavík. Eins og menn vita, er töluverður uggur í íbúum þessa bæjar út af flugvallargerð Breta hér. Menn telja, að íbúum bæjarins sé stefnt í meiri hættu eins og er en ef flugvöllurinn hefði verið gerður annars staðar. Það hefur heyrzt, að brezka herstjórnin hafi haft í hyggju að gera hann annars staðar, og ég hef frétt, að til greina hafi komið að ryðja Hvassahraun vegna flugvallargerðarinnar og hafa hann þar. Þá hef ég enn fremur heyrt, að það hafi verið fyrir áeggjan íslenzkra aðila, að hann var hafður á þessum stað. Ef það er rétt, er það auðvitað, að þeir hinir sömu aðilar hafa ekki haft hugmynd um, að flugvöllurinn yrði svona stór, en hins vegar haft það hugfast, að bæjarstj. og aðrir, sem um eiga að fjalla, voru búnir að koma sér saman um, að þarna væri heppilegast flugvallarstæði fyrir Reykjavík. Raunin hefur orðið sú, að flugvöllurinn verður margfalt stærri en þörf Reykjavíkur krefst. Þess vegna er uggur í bæjarbúum, og ég teldi rétt að fá upplýsingar um afskipti ríkisstj. af flugvallargerðinni. Sérstaklega vil ég leggja áherzlu á að fá upplýsingar um, hvort möguleikar hefðu verið á, að flugvöllurinn yrði gerður annars staðar, en þó í nánd við Reykjavík, t. d. í Hvassahrauni, og hvort það er rétt, að það hafi að einhverju leyti verið fyrir áeggjan íslenzkra aðila, að flugvallargerðin var hafin hér í Reykjavík.