16.06.1941
Sameinað þing: 28. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1273 í B-deild Alþingistíðinda. (62)

Fyrirspurnir um stjórnarráðst. o. fl.

Gísli Sveinsson:

Það er nú svo, að ég held, að hæstv. forseti verði að virða þm. það nokkuð til vorkunnar, þó að þeir leituðu lags um að koma einhverjum fyrirspurnum fram utan dagskrár í sameinuðu þingi, í þeirri von, að þá væru einhverjir hv. þm. viðstaddir á fundi, og í öðru lagi ef það heppnaðist, að einhver úr hæstv. ríkisstj., helzt fleiri en einn, sæist í þingsalnum. Ég tel því eðlilegt, að þessar fyrirspurnir komi fram, því að þetta mál er þess virði, að því sé hreyft hér, og engin tök eru á, að koma slíkum fyrirspurnum fram, nema í sameinuðu Alþ. utan dagskrár.

Ég hefði nú óskað, að hæstv. forsrh. sæi sér fært að vera viðstaddur, því að ég vildi aðeins drepa á það, sem nú hefur verið talað um, því að það snertir alla hv. þm., störf utanrmn.

Samkv. 16. gr. þingskapa, er þessari n. ætlað sérstakt hlutverk. Í fyrsta lagi er það hlutverk hennar að starfa meðan Alþ. situr á sama hátt og aðrar n. í sameinuðu þingi. Þess vegna mætti það vera gefið, að háttv. þm. gætu ekki vænzt þess, að utanrmn. væri eins konar stjórnarn. með utanríkismrh. og hans ráðuneyti, meðan Alþ. situr. Þessi n. á að taka við málum eins og þessi 16. gr. hljóðar um, sem sameinað þing eða þingdeildir vísa til hennar, á sama hátt og aðrar n. þingsins. En henni er ætlað annað hlutverk, af því að menn töldu þess nauðsyn, þ. e. a. s. að á milli þinga má hún starfa eða jafnvel að hún að starfa, og þá „skal ráðuneytið ávallt“ eins og í 16. gr. þingskapa stendur, „bera undir hana slík mál, sem fyrir koma milli þinga“, og er hér átt við utanríkismál, samkvæmt því sem stendur fyrr í 16. gr. Þess vegna skilst mér, að hv. þm. Vestm. þurfi ekki að kvarta yfir því, þó að nm. í þessari n. væru ekki kvaddir til starfa meðan þing situr. En annað mál er það, hvernig n. hefur rækt starf sitt, meðan þing sat. En vilji hæstv. ríkisstj. ráðgast við þm. meðan Alþingi situr, þá er við þingheim að ráðgast eða aðra, sem til þess eru kvaddir af Alþingi, en ekki við utanríkismálanefd, sem eingöngu á að starfa á milli þinga sem slík ráðuneytisnefnd.

Vil ég beina fyrirspurnum til hæstv. ríkisstj., að vísu nokkuð á sama hátt og áður, meður því, að oft hefur verið vegið í sama knérunn.

Eins og kunnugt er, var fyrir nokkru af herstjórn Breta hér á landi ráðizt í að handtaka íslenzka borgara, þar á meðal einn alþm. Þessi alþm. hefur, ásamt ,þeim öðrum, sem þá voru teknir, að því er bezt verður vitað, setið í Englandi. Og upplýst er, að ríkisstj. hefur mótmælt þessari handtöku og líka krafizt þess, að því er ætla má, að þetta fólk yrði laust látið og flutt heim, og þá ekki sízt, að alþingismanninum yrði skilað til Alþ. Nú hafa engin svör borizt frá hæstv. ríkisstj. um það, og hefur þó áður verið spurt um það, hvernig þessu máli gangi. Hvað líður þessu máli?

Nú hefur það komið fyrir enn á ný, að herstjórn Breta hefur tekið fjölda fólks vestur á Ísafirði, sem ekkert er upplýst fyrir almenningi, hvaða sakir eru, sem eiga að vera orsök þess, að þetta fólk er handtekið og flutt af landi brott. Ég þykist vita, að hæstv. ríkisstj. hafi nú sýnt sömu rögg af sér sem hið fyrra sinn, er íslenzkir ríkisborgarar voru handteknir og brott fluttir, að hún hafi nú mótmælt þessu harðlega við Bretastjórn, enda þótt ekkert hafi um það verið birt opinberlega, og krafizt þess, að fólkinu verði skilað aftur, á. m. k. eftir að herstjórnin hefur gefið skýrslu um, fyrir hverjar sakir þetta fólk hefur verið handtekið, sem ekkert hefur verið birt um fyrir hæstv. Alþ., og því síður fyrir almenningi. Það eina, sem komið hefur fram um sakir þessa fólks, er þannig, að enginn maður fulltíða getur talið það neinar sakir, því að eftir íslenzkum l. geta þær ástæður ekki talizt þannig vaxnar, að ástæða sé fyrir þá. hluti að taka fólkið höndum og því um sízt að koma því til útlanda. Og þá er spurningin: Hvað hefur þetta fólk brotið af sér við Stóra-Bretland, sem sé ástæða til að koma því af landi burt fyrir, til þess að gera það óskaðlegt? Mörgum finnst það vera með undrum og ódæmum og virðist þurfa skýringa við, þar sem maður á hlut að máli, sem er konsúll Breta á Vesturlandi. Ég geri ráð fyrir, að hæstv. ríkisstj. hafi fengið skýrslu frá herstjórninni um þetta og viti, hvernig tekið hefur verið í kröfur hennar um heimflutning fólksins. Ég beini því til hæstv. ríkisstj., að hún gefi upplýsingar um þessi atriði, sem ég hef spurt um. Og væntanlega mun ráðh. sá, sem fer með utanríkismál, svara þessu.