03.03.1941
Efri deild: 11. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 381 í B-deild Alþingistíðinda. (725)

19. mál, óskilgetin börn

Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson) :

Herra forseti ! Frv. þetta miðar að því að breyta l. frá 1935 með tilvísun til l. frá 1921 um afstöðu foreldra til óskilgetinna barna, og er breytingin í því fólgin, að í stað þess að ákveða meðlögin til þriggja ára í senn, eins og nú er, skuli miða við eitt ár. Er þessi breyt. eðlileg vegna hinnar vaxandi dýrtíðar og hinna öru breyt. á framfærslukostnaði, þar sem erfitt er að ákveða meðlögin til langs tíma í einu.

Önnur breyt., sem frv. felur í sér, er, að þar sem þessi mál heyrðu áður undir atvinnumálaráðuneytið, skuli þau nú heyra undir félagsmálaráðuneytið.

Loks er þriðja breytingin, að meðlagsár skuli telja frá 1. ágúst ár hvert til 31. júlí næsta ár á eftir, en um þetta er ekkert ákvæði í lögunum.

2. gr. frv. gerir ráð fyrir að fella lagaákvæði þessi úr gildi með tilskipun, þegar þeirra er ekki lengur þörf.

Allshn. hefur athugað frv. þetta og leggur einróma til, að það verði samþ. óbreytt.