26.04.1941
Efri deild: 45. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 410 í B-deild Alþingistíðinda. (823)

9. mál, gjaldeyrisverslun o.fl

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti! Ég beið andartak eftir því, hvort nokkur framsaga yrði höfð í þessu máli. Þar sem það varð ekki, vildi ég koma að nokkrum orðum og kysi, að ráðherra sá, sem fer með bankamál, væri viðstaddur. Sé hann hér. ekki, gæti ég frestað því, ef hæstv. forseti leyfir við 2. umr., að rædd séu hin almennu atriði, sem ég hugðist að ræða nú. (Forseti: Það mun verða leyft.)

Til athugunar fyrir hv. fjhn., sem væntanlega fær málið til athugunar, vildi ég aðeins minna á þörf, sem ég tel á að sýna einhverja linkind í framkvæmd l., að því er snertir hin bundnu sterlingspund, sem frv. fjallar m. a. um. Ég vildi, að ábending frá Alþingi kæmi fram í þá átt, að ekki yrði fylgt til hins ýtrasta strangleik laganna um þennan gjaldeyri með þeim afleiðingum, að það hindraði, að nauðsynlegir hlutir, t. d. skip, fengjust til landsins fyrir þann gjaldeyri, sem til er á hverjum tíma. Ég væri þakklátur, ef ég fengi að ræða milli umr. við n. um dæmi, sem komið hafa fyrir, síðan þessi lög voru sett, mjög bagaleg dæmi, sem geta endurtekizt. En þau eru sum þess eðlis, að e. t. v. er ekki rétt að tala um þau í þingræðu.