26.05.1941
Neðri deild: 67. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 430 í B-deild Alþingistíðinda. (878)

7. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Sveinbjörn Högnason:

Það er nú orðið nokkuð langt síðan þetta mál var hér til umr. og þm. eru því sennilega búnir að gleyma, um hvað var ágreiningur. Nú hafa komið fram allmargar brtt., meðal þeirra er brtt. frá 8. landsk., og er auðséð, hvert er stefnt með henni, sem sé eyðileggja þá möguleika, sem eru fyrir því, að Suðurlandsbrautin komist áfram, og eiginlega er tilætlunin með þessari brtt., að Suðurlandsbrautin fengi helzt ekki nokkurn styrk frá þessum tekjustofni.

Það má náttúrlega lengi um það deila, hvort það sé rétta lausnin á þessu máli, að Krýsuvíkurvegurinn sé lagður og hvort hann sé hentugur. Hins vegar er það mál þeirra, sem vel til þekkja, að það muni mjög mikil trygging í því að fá þessa braut, og ekki sízt þegar búið er að leggja aðra braut, Þingvallabrautina, sem er meðfram Soginu, þannig að ef snjóalög leggjast misjafnlega mikið, ýmist með sjónum eða til fjalla, þá uppfylla þær hver aðra, með því að þá mundi alltaf önnur fær. Brautin um Krýsuvík mun vera nauðsynleg og líkleg til þess að fullnægja samgönguþörf Sunnlendinga, sem búa í sveitunum austan fjalls. En hv. 8. landsk. reynir að flytja þeirra mál, sem mest vilja spilla fyrir þessu máli, og ætlar hann að reyna að tefja samgöngur okkar sem mest. En það er eins og annar breyskleiki, sem honum verður að fyrirgefast, því að hann álítur, að hann hafi ekki minni skyldur gagnvart Reykvíkingum heldur en þeim, sem hafa verið hans kjósendur, enda mun hann vera á framfæri Reykvíkinga. Hv. 8. landsk. tók það skýrt fram, sem er þó ekki hans vandi, að taka hlutina skýrt fram, að hann mundi ekki hafa flutt neina brtt., ef n. hefði ekki gert við frv. brtt., og af því að n. flytti till. um, að þessum hluta af benzínskattinum verði varið til Suðurlandsbrautar, gefi það honum tilefni til þess að flytja sína brtt., en ekki af því, að hann hafi áhuga fyrir því að koma brú á Hvítá hjá Iðu. Enda mun sú brú koma eftir brúalögunum, þegar röðin kemur að henni. En það, sem n. flytur í þessu efni, er engin breyt., heldur aðeins, að l. fái að haldast eins og þau eru viðvíkjandi benzínskattinum í l. um bráðabirgðatekjuöflun ríkis og bæjarfélaga.

Það má vel vera, að hv. þm. hafi ekki fundizt ástæða til þess fyrr að hefjast handa um að eyðileggja þetta, vegna þess að það hefur ekki verið talið líklegt, að þessi tekjuafgangur yrði svo mikill, að það tæki því að spilla fyrir því, að hann gengi til Suðurlandsbrautarinnar. En nú, þegar líkur eru til þess, að tekjur af benzínskattinum hækki verulega, þá fyrst hefst þessi hv. þm. handa um að reyna að koma í veg fyrir, að það verði nokkuð, sem að gangi getur komið, sem færi til þeirrar brautar, sem er í því kjördæmi, sem hv. 8. landsk. á þingsetu sína að þakka, en vitanlega hefðu þeir ekki viljað styðja hann til þess að vinna slíkt hér á Alþ. eins og hann hefur nú hafizt handa um að þessu sinni.

Það er náttúrlega auðsætt mál, að ef allar þær brtt., sem einstakir þm. flytja við þetta frv., yrðu samþ., þá er því stefnt í hættu, og það er mjög vafasamt, að það verði samþ. Og ég get lýst því yfir, eins og ég hef áður gert, að eigi að fara að skerða þann hluta, sem Suðurlandsbrautinni er ætlaður, sem er þó mjög óviss, þá mun ég greiða atkv. hiklaust gegn, því, að framlengdur sé þessi viðbótarskattur á benzíni, sem hæstv. fjmrh. flytur till. um.

Það virðist vera ákaflega hjákátlegt, ef tillit á að taka til þeirra, sem mestan benzínskattinn borga, ef ekkert á að reyna að draga úr þeim kostnaði, sem verður við það að þurfa að flytja allar sínar nauðsynjar á bílum til sín og svo frá sér alla sína framleiðslu.

Hv. þm. A.-Húnv. talaði um, að það yrði nokkuð mikill tími, sem færi í það, ef þingið ætti í hvert skipti að fara — ef ég skildi hann rétt — að ákveða, hvernig ætti að fara að verja þessum tekjum, og þess vegna væri eðlilegast, að fjmrh. væri falið að gera það, sem hann hefur ekki farið fram á sjálfur. Hæstv. fjmrh. hefur farið fram á með sinni till., að þessar tekjur yrðu bundnar. En hv. þm. A.-Húnv. vill ganga lengra í þessum efnum, af því að það tæki svo langan tíma fyrir þingið að ákveða, hvernig þessum tekjum yrði varið. Mér finnst þetta talsvert einkennilegur hugsunarháttur hjá hv. þm., því að allt tekur þetta tíma fyrir þingið, og ekki. hvað minnstan tíma tekur það þingið að afgr. fjárl. Kannske hv. þm. A.- Húnv. vilji fela fjmrh. öll fjárl. og láta hann einan um það, hvernig fé ríkisins skuli varið, til þess að þingið þurfi ekki að tefja sig við það. Það er alveg í sama dúr og það, sem hv. þm. hélt fram. En ég álít, að það sé starf Alþ., hvort sem það kostar tíma eða ekki, að ákveða, hvernig þessum tekjum skuli varið. Þó að ég treysti hæstv. ríkisstj. vel um margt, er ég ófús til þess að leggja í hennar hendur úthlutun á þessu fé og öðru, heldur vil ég, að þingið verji tíma sínum til þess að ákveða, hvernig þessu fé er varið, og geri það eins haganlega og heppilega eins og frekast er unnt, eftir því sem þarfir krefja á hverjum stað. Þær allmörgu brtt., sem komnar eru hér fram við þetta frv., sýna það ljósast, út á hvaða braut hv. deild væri að ganga, ef hún færi að samþ. brtt. hv. 8. landsk., sem mundi hafa það í för með sér ekki aðeins að hindra það, að Suðurlandsbrautin héldi áfram. heldur líka að brú yrði sett á Hvítá hjá Iðu, því að það mundu fljótlega koma fleiri till., sem ekki eiga að koma þessari fjárveitingu við, heldur fjárveitingu til brúagerða.

Það er engan veginn víst, hver þeirra brúa, sem koma til greina, verður byggð fyrst, en það er mjög ólíklegt, að brúin á Hvítá hjá Iðu yrði fyrst, vegna þess hvernig hv. 8. landsk. lýsti þörfinni fyrir hana, þannig að eftir þeirri lýsingu virðist það vera sú minnsta þörf, sem þm. getur fært fram fyrir því, að slík framkvæmd þurfi að eiga sér stað. En tilgangurinn með þessu öllu er að eyðileggja möguleikana fyrir því, að Suðurlandsbrautin komist áfram, og þú einnig, að brúin á Hvítá hjá Iðu komi á sínum tíma, því að hann lýsti yfir, að hann hefði ekki komið með brtt., ef n. hefði ekki konið með brtt. Virðist því brtt. hv. 8. landsk. ekki vera borin fram til annars en að eyðileggja.

Hæstv. fjmrh. sagði, að það hefði ekki verið rétt hermt hjá mér, þegar ég sagði, að það hefði verið fullkomið samkomulag hjá honum og fjhn., en það hefði verið þannig, eins og nál. og brtt. bera með sér, að hann hefði getað sætt sig við þá afgreiðslu. En ég sé ekki mun á því að geta sætt sig við brtt. og að samþ. hana. Þess vegna er það í raun og veru samkomulag, sem hæstv. fjmrh. gerði við n. um, að hann ætlaði að samþ. þessa brtt. En með sinni brtt. lýsir hann því yfir, að hann gangi á bak orða sinna við n. og að hann ætli ekki að sætta sig við það, sem meiri hl. n. leggur til.

Það mætti náttúrlega tala miklu meira um þessar brtt., sem fram eru komnar. En ég vildi mjög eindregið mælast til þess, að ef þetta frv. á að fá afgreiðslu hér út úr d., þá yrðu ekki gerðar á því meiri breyt. en þær; sem meiri hl. n. leggur til, og með því móti mundi fást afgreiðsla á þessu máli.

Hv. 8. landsk. var að tala um það, að það ætti að brjóta brautina beina. En hvað meinar hv. þm. með því? Það má vera, að hann meini það, að brjóta brautina beina, að reyna að vera eins og kallað er stundum draugur í vegi fyrir máli, reyna að draga svo úr, að framkvæmdir gangi sem allra seinast. En ég hefði nú haldið, að það væri ekki það, sem kallað er að brjóta brautina beina í máli, heldur væri það, sem kallað er hlykkur eða því um. líkt.

Ég vil að lokum benda hv. 8. landsk. á það, að ef hann meinar það, sem hann hefur áður sagt, að hann vildi, að brautin yrði brotin bein í þessu máli, þá ætti hann að taka sína brtt. aftur og láta hann aldrei sjást hér framar, því að hún er honum ekki til sóma.