13.05.1941
Neðri deild: 58. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 439 í B-deild Alþingistíðinda. (899)

21. mál, húsaleiga

Eiríkur Einarsson:

Það er stutt aths. Mér skilst, að samkv. brtt. allshn. geti orðið erfitt að ákveða um það, hvað eigi að teljast viðhaldskostnaður. Mér virðist sem n. hafi í a-lið brtt. skotið sér undan að ákvarða nokkuð um það, og gætu orðið vandræði úr, þegar til framkvæmdanna kæmi, því að það er aðeins talað um almennan viðhaldskostnað, sem eigi að ákveða samkv. sérstakri vísitölu. En þegar á að finna út þann almenna aukna viðhaldskostnað, þá er þessi hækkun vafalaust atriði til úrskurðar í mörgum tilfellum, hversu vítt hann skuli taka og hvað skuli í rauninni heyra undir almennan viðhaldskostnað og hvað ekki. Við skulum t. d. taka hús, hvort sem það er gamalt eða nýtt, þar sem þarf að gera hitt og þetta til viðhalds því, svo sem að kítta glugga, mála herbergi og ganga, leggja línoleumdúka á gólf og þar fram eftir götunum. Þetta er sjálfsagður liður í framkvæmd byggingarinnar sjálfrar, þegar um nýbyggingu er að ræða, þannig að það sé leiguhæft á forsvaranlegan hátt. Hvað af þessu t. d. heyrir undir þann almenna aukna viðhaldskostnað og hvað ekki? Þetta finnst mér, að lagasetningin eftir frv. segi ekki nógu glögglega til vegar um, og segi alls ekki til vegar um, og að þetta sé undir mörgum kringumstæðum upplagt atriði til deilu, og virðist mér, að bezt sé þar eins og í fleiri tilfellum að stemma á að ósi, ef unnt væri. Ég vil því skjóta því til n., hvort ekki sé hægt að koma með frekari skilgreiningu en enn þá er orðið í till. hennar hvað skuli meta víðhaldskostnað. Við skulum taka til athugunar ný hús, sem eru tiltölulega vel gerð og leigjandi fer inn í þau með eitthvað hærri leigu, vegna þess að hann kemur inn í góða íbúð, sem ekki er hægt að finna margt til foráttu og ekki hægt að finna margt, sem veldur ágöllum. Slík aðstaða, þegar ætti að leggja álag á þessa leigu eftir almennri, sameiginlegri vísitölu, sem miðuð er við almenna aukningu á víðhaldskostnaði, þá verður það ekki samræmanlegt eða í eðlilegu hlutfalli við þá leigu, sem þeir hafa við að búa, sem búa í gömlum húsum, þar sem leigan er tiltölulega lægri, vegna þess að það er ófullkomnari íbúð, sem þeir eiga við að búa. Ég vil skjóta þessu fram og vona, að það mætti verða til athugunar fyrir allshn. enn þá, þar sem eftir er 3. umr. málsins. Ég vil skjóta þessu fram, ef það gæti orðið til þess, að n. gæti gefið skilgreiningu, sett takmarkanir, til þess að lagasetningin, ef þetta verður að l., vísi ekki í þessu verulega atriði út fyrir bókstaf sinn, eins og mér finnst verða eins og enn þá er, miðað við brtt. n., en það verður hvorum tveggja aðilanum fyrir beztu, bæði leigusala og leigutaka, að aðstaða þeirra geti verið sem skýrust og ótvíræðust í öllum atriðum og vitanlega sem sanngjörnust í hverju sem er.