04.06.1941
Efri deild: 71. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 460 í B-deild Alþingistíðinda. (957)

134. mál, eyðing svartbaks

Frsm. (Ingvar Pálmason) :

Það er nú liðin vika síðan fyrri hl. umr. fór fram, og ég hafði þá kvatt mér hljóðs, áður en umr. var frestað. Það má því vera, að mér hafi gleymzt eitthvað í millitíðinni af því, sem ég hefði talið ástæðu til að segja hér. Við fyrri hl. umr. varði hæstv. forsrh. nokkrum tíma til þess að gagnrýna nál. allshn. og skoðun hennar á grundvelli þessa frv. Hæstv. forsrh. mótmælti því, sem fram kom í framsöguræðu minni, að það liti út fyrir, að frv. þetta væri tilraun, sem höfundar þess væru ekki alveg ugglausir um, að mundi verða til frambúðar, og sagði hæstv. ráðh. að það væri þvert á móti gert ráð fyrir því, að frv., ef að l. yrði. mundi verða til frambúðar. Ég ætla mér ekki að bera brigður á, að svo sé, en mér kemur það undarlega fyrir; að þrátt fyrir rækilegan undirbúning, að sögn hæstv. ráðh., sé þó svo frá gengið, að hin gildandi l. eru ekki úr gildi numin, sem þó er venja, heldur er þeim frestað. Ég sé ekki betur en að þessi ákvæði frv., sem fyrir liggja, bendi alveg ótvírætt í þá átt, að þetta frv. sé aðeins tilraun, en í bakhönd eigi að vera gildandi l. frá 1936. Annars er óþarft að deila um þetta, því að það hefur ekki mikla þýðingu.

Hæstv. ráðh. sagði, að þetta mál væri óvenjulega vel undirbúið og byggt á miklum rannsóknum og mikil vinna hefði verið lögð í að rannsaka og undirbúa frv. Ég ætla ekki að mótmæla þessu, en mér finnst, að ef þetta er rétt, sé það sönnun þess, að málstaður sá, sem fram er haldið í frv., sé ekki góður, þar sem árangurinn af þessum miklu rannsóknum hefur ekki orðið betri en fram kemur í frv., þar er frv. sjálft ólýgnasti votturinn. Ég sé því ekki, að þessi rök hæstv. ráðh. raski því áliti, sem allshn. hefur á þessu frv. Hæstv. ráðh. tók það fram, að hlunnindi þau, er æðarvarpi fylgja, gengju nú mjög, til þurrðar, og það væri vegna þess óskunda, sem svartbakurinn ylli í vörpunum. Það er fjarri mér að mótmæla því, að svartbakurinn sé vargur í varplöndum, en til hins þarf meira en staðhæfingar, að sannfæra mig um það, að sú rýrnun, sem orðið hefur á tekjum af æðarvarpi, stafi einvörðungu af aðgerðum svartbaksins. Ég vil bara benda á það, að frá því að Ísland byggðist, og sjálfsagt í margar aldir áður, hefur bæði svartbakur og æðarfugl lifað hér á landi. Að vísu eru engar sagnir til um að, hvernig þeirra viðskipti hafa gengið, áður en landið byggðist, en síðan það byggðist, hefur það verið þannig, að báðir þessir fuglastofnar virðast hafa haldizt við með líkum hætti og aðrir fuglar hér á landi. Þegar hafin var fyrst herferð gegn þessum spellvirkja í varplöndunum, svartbaknum, þá var það gert með því að taka egg hans og koma á þann hátt í veg fyrir offjölgun hans. Mönnum hefur borið skylda til þess að lögum að eyðileggja egg hans, en þegar það þótti ekki bera nægilegan árangur, voru veitt verðlaun fyrir hvern fugl, sem drepinn var, og nú á að gera enn rækilegri tilraun til þess að eyða honum með því að eitra. En eftir umsögn þeirra manna, sem hafa fengizt við rannsóknir á þessum málum, virðist sem fjölgun svartbaksins hafi orðið einna mest, síðan farið var að gefa út lagaboð um að eyða honum. Ef þetta er rétt, þá virðist sem eitthvert samband sé milli fjölgunarinnar hjá þessum fugli og þess, að löggjafinn ákveður, að honum skuli tortíma. Ég treysti mér ekki til að fara út í þá sálma að útskýra það samband, en vil benda á það, sem ég sagði í framsöguræðu minni, að það virðast vera fleiri öfl að verki, sem áhrif hafa á hlunnindi æðarvarps, en svartbakurinn einn. Ég held, að ég hafi skotið því fram í framsöguræðu minni, að þar mundi iðnaðurinn vera einna stórvirkastur. Það er ekki sagt beinlínis til áfellis mönnum að öllu leyti, en það er þó vitað, að þeir hafa átt þátt í því, að egg æðarfuglsins hafa verið nótuð til neyzlu og jafnvel til sölu, og það tel ég til áfellis. Svo kemur annað, sem hefur átt sinn þátt í því að draga úr æðarvarpi, og það eru hinar bættu samgöngur. Má þar til nefna vélbátaumferðina. Yfirleitt eru öll samgöngutæki hávaðameiri en áður og spilla því mikið æðarvarpinu, Mér er það mikið til efs, að þær miklu rannsóknir, sem liggja til grundvallar þessu frv., bendi ekki eindregið í þá átt, að rýrnun æðarvarpsins stafi meðal annars af hinni auknu og hávaðasömu umferð, þó að það sé fjarr í mér að benda á þetta mönnum til ámælis, því að það verður vitanlega ekki unnið fyrir nokkur pund af æðardún að kippa öllum samgöngum í það horf, sem þær voru fyrir 50 árum. En hins vegar er þess að gæta, að við megum ekki kenna svartbaknum, sem að vísu er ránfugl, um þau spjöll, sem við mennirnir sjálfir völdum.

Þá vil ég benda á eitt atriði enn, en ég hef það úr skjali því, sem dr. Finnur Guðmundsson hefur sent til þingsins um rannsóknir á æðarvarpi. Þar er vikið að því, að skelfiskur sé ein aðalfæðutegund æðarfuglsins. Nú er það öllum ljóst, að skelfiskurinn kringum Ísland hefur gengið svo til þurrðar, að víða þar, sem fyrir 50 árum mátti moka upp skelfiski á einni fjöru og jafnvel fylla væna báta, sést nú varla nokkur skel. Ég þekki staði við sjó, þar sem fyrir 50 árum var krökkt af æðarfugli á haustin, eftir að, kom fram í september, og var hann þá uppi undir landi svo hundruðum skipti, en nú kemur það varla fyrir, að þarna sjáist æðarfugl. Ég staðhæfi, að það er ekki af því, að fuglinn hafi verið styggður með skotum, vegna þess að fyrir 50 árum var þetta svæði ekki friðað fyrir skotum frekar en önnur meðfram landinu. Nú hefur þetta svæði aftur á móti verið alfriðað í 12 ár, og það er ekki styggð, sem hefur valdið þessu. Það er ekkert annað en það, að skelfiskurinn er horfinn, sem veldur því, að þarna sést ekki lengur æðarfugl. Það má segja, að þetta hafi ekki áhrif á varplöndin. Það kann að vera, en það hefur þó a. m. k. áhrif á lífsafkomu æðarfuglsins. Ég held, að ef við athugum allar hinar sýnilegu orsakir, sem geta legið til þess, að æðarvarpið , hefur rýrnað, þá sé ekki rétt að kenna svartbaknum einvörðungu um þá rýrnun, en að það sé meðfram honum að kenna, get ég vel viðurkennt. Ég held, að ég hafi í framsöguræðu minni bent á eitt atriði, sem veldur því, að arður af æðarvarpi hefur rýrnað hin síðari ár.

Allt þetta, sem ég hef þegar talið, virðist mér styrkja skoðun okkar allshn. á því, að of langt sé gengið hjá löggjafa að heimta svo harðvítuga árás á þennan fugl, að það skuli lögbjóða að eitra fyrir hann á hverju vori. Ég held, að Alþingi héldi sínum fulla heiðri og gæti unnið á réttmætan hátt að því að efla æðarvarp að töluverðu leyti með allt öðrum aðferðum en þessum.

Þá kem ég að einu mikilvægu atriði, er hæstv. forsrh. hélt fram. Hann taldi, að allshn. byggði skoðun sína á skaðsemd eitrunarinnar á ummælunum, sem tilfærð eru í nál. eftir dr. Finni Guðmundssyni, og skoðun allshn. byggðist á því, að ummælin væru misskilningur. Ég mótmæli því algerlega, að allshn. byggi skoðun sína á þessum ummælum, en hitt er rétt, að hún rökstuddi skoðun sína m. a. með þessum ummælum. Ég neita því þess vegna alveg, að allshn. hafi á nokkurn hátt misskilið þessi ummæli, enda eru þau svo skýr, að þau verða varla misskilin, og skal ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér upp úr skýrslu dr. Finns Guðmundssonar, sem þm. hefur verið send og er um æðarvarp og dúntekju á Íslandi. Það er þar, sem hann talar um, hvað sjálfsagt er að nota við eitrun svartbaks, og er á bls. 15 og hljóðar svo:

„Sjálfsagt er að nota stryknin til þess að eitra með. Það er hvítt duft og afar beizkt á bragðið. Það er banvænt eitur, jafnt fyrir menn sem skepnur. Skal því geyma það vel og gæta þess vandlega, að það verði engum að meini. Bezt væri að geta komizt hjá að handfjatla það, að öðrum kosti verða menn að þvo sér vel um hendur á eftir.“

Þessi ummæli eru svo skýr, að það er alveg ógerningur að misskilja þau. En það, sem hæstv. forsrh. vill koma að, að við höfum misskilið, er það, að í þessum ummælum er ekkert um það sagt, hvort hræ þeirra dýra, sem eitrið verður að bana, eru skaðleg. Ég held, að það sé hvergi hægt að finna það í nál., að skoðun okkar á skaðsemi eitursins sé byggð á því, að hræ þeirra fugla, sem drepast, séu mjög skaðleg. Skoðun okkar byggjum við ekki á þessum ummælum, en rökstyðjum með þeim, og ég álít, að þau séu nógu greinileg til þess, að þau þurfi ekki að valda neinum misskilningi.

Það er rétt og hefur einnig verið játað af læknum, að eitrið er banvænt bæði mönnum og skepnum. Þessu eitri verður að koma ofan í svartbakinn, ekki á venjulegan hátt, — væri svo, að hægt væri að mata svartbakinn á eitrinu með matskeið, þá væri það kannske hættulaust eða hættulítið. En nú hefur hæstv. forsrh. lýst því yfir, að svartbakurinn væri svo styggur, að jafnvel hinar beztu skyttur gætu ekki skotið hann. Ég tel þetta nú ekki alveg rétt, því að ég þekki ýmsar skyttur, sem að vísu eru ekki beztu skyttur, en allgóðar, og ég veit til, að þær hafa skotið svartbak og það í allstórum stíl, t. d. til refafóðurs. En hitt er aftur á móti víst, að svo styggur er hann, að hann verður ekki mataður á eitrinu með matskeið.

Í þessari skýrslu er gert ráð fyrir því að nota eitthvert æti, sem svartbakurinn nær til að eta, og blanda eitrinu í það, og er því haldið fram, að til þess séu egg tilvalin. En er þá trygging fyrir því, að þessi egg, sem sett eru til höfuðs svartbaknum, verði ekki öðrum fuglum að bana, og þar á meðal hrafninum, sem mér er vel við? Það er hætta á því, að t. d. hrafninn, sem hefur þann sið að eta ekki bráð sína á staðnum, heldur fljúga með hana heim, að hann verði á leiðinni fyrir ónæði músarrindilsins eða annarra fugla, svo að hann missi eggin, og eitrið getur þá á þennan hátt borizt út og af því stafað hætta. Að minnsta kosti held ég það.

Önnur aðferð er sú, að eitra hrognkelsi, og er það talið mjög gott ráð. Ég get vel trúað, að svo sé, — en ber bara ekki að sama brunni með það? Er nokkur vissa fyrir því, að engin önnur skepna komist í þetta æti? Ég tel miklu meiri hættu á því, þegar eitrað er með hrognkelsum, en með eggjum, og miklu meiri líkur til þess, að með því að eitra hrognkelsi, þá sé jafnframt verið að eitra fyrir æðarfuglinn, því að eins og öllum er kunnugt, þá er mesta lostæti æðarfuglsins einmitt innmatur úr hrognkelsum.

Ég held því, að álit okkar allshn. á því, að þessi aðferð sé skaðleg mörgum dýrum og jafnvel mönnum, byggist ekki einvörðungu á því, að hræ þeirra fugla, sem eitrið verður að bana, sé skaðlegt öðrum dýrum, heldur einnig og engu síður, að hið eitraða æti verði hættulegt fleiri dýrum en svartbaknum einum.

Ég skal taka það fram, að ég er ekki svo fróður, að ég geti staðhæft um það, hvort hræ þeirra dýra, sem deyja af eitrinu á þann hátt, sem gert er ráð fyrir með þessum aðferðum, eru skaðleg. Ég skal ekkert um það deila, en hæstv. ráðh. tilfærði í ræðu sinni umsögn þýzks prófessors, að ég held, um það, að þegar eitrið væri komið út í líkama dýrsins, sem hlyti dauða af þess völdum, þá væri það orðið svo útþynnt, að það gæti engri skepnu orðið að meini. Þetta breytir bara engu. Hættan af eitruninni er alls ekki aðallega í því fólgin, en í þeim varning, sem eitraður er og er ætlaður svartbaknum til matar.

Hæstv. ráðh. minntist á það, að í nál. allshn. er vitnað í ummæli stjórnar Náttúrufræðifélags Íslands frá 1935, og taldi hann þau ummæli úrelt og sagði, að fram væru komin önnur ummæli frá Náttúrufræðifélaginu, sem gengju í aðra átt.

Ég skal ekkert um það segja, því að ég hef alls ekki séð þau ummæli, en mér þykir mikið, ef þau telja, að eitrun með stryknin sé hættulaus. Þá verður að álíta, að stjórn Náttúrufræðifélagsins hafi ekki skipt um skoðun til batnaðar, og efast ég um, að sú skoðun geti staðizt. En ég get skilið, að Náttúrufræðifél. hafi breytt um skoðun síðan og að það telji nú hræ þeirra dýra, sem deyja af eitrun, ekki skaðleg, en það virtist koma fram árið 1935.

Ég held því, að hvernig sem á þetta verður lítið, þá verði aldrei hnekkt nál. allshn., að eitrunin er fyrst og fremst bæði ómannúðleg fyrir svartbakinn og einnig hættuleg öðrum dýrum.

Hitt verður svo að vera á mati hvers einstaks þm., hvort hann telur, að svo miklu sé fórnandi fyrir það að gera tilraun til að fækka svartbaknum, í von um, að þá batni eitthvað um afkomu varplandaeigenda, að hann vilji beita ómannúðlegum og hættulegum aðferðum til þess að gera þessar tilraunir.

Ég gæti líka trúað því, eftir því sem svartbakurinn virðist hafa staðið sig, að þó að þetta yrði lögboðið og framkvæmt, þá gæti hann á einhvern hátt fundið upp eitthvað á móti eitrinu, t. d. það, að hann þekkti eitrið og hann yrði svo jafnfjölmargur eftir sem áður. Það er kunnugt, að til eru dýr, a. m. k. hrafninn, sem þekkir eituragn, ef því er beitt til langframa.

Að öðru leyti held ég, að ég þurfi ekki að færa frekari rök og rökstuðning allshn. fyrir því, að Alþingi beri að víkja þessu máli frá og gera það ekki að l. Eins og ég tók fram áðan, þá verður það að fara eftir mati hvers einstaks þm., hvernig hann vill greiða atkv. í þessu máli, en því verður ekki hnekkt, að þau rök, sem allshn. hefur fært fram, verða ekki hrakin. Það má vel vera, að einhver líti svo á, að hér sé um svo mikla nauðsyn að ræða, að hjá því verði ekki komizt að beita ómannúðlegum aðferðum til að útrýma svartbaknum. En ég verð að segja, að ég mun ófáanlegur til þess að fara þá leið og m. a. vegna þess, að ég hef enga trú á því, að með þessum aðferðum náist það, sem nást á, að tryggja auknar afurðir af varplöndum manna.