09.07.1941
Sameinað þing: 3. fundur, 57. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í D-deild Alþingistíðinda. (30)

1. mál, hervernd Íslands

Garðar Þorsteinsson:

Háttv. Alþ. hefur áður, að gefnu tilefni, lýst yfir því, að þar sem Ísland er vopnlaust og hlutlaust land, mótmæli það hvers konar broti á hlutleysi þess, eða hernaðaraðgerðum, er gagnvart því kunni að beinast. Mér vitanlega hefur Alþingi ekki til þessa fallið frá þessari stefnu sinni né gefið ríkisstj. ástæðu til að ætla. að frá þessari stefnu sé horfið.

Nú hefur það hins vegar skeð, að ríkisstj. hefur — samkvæmt hennar umsögn eftir nákvæma og ýtarlega yfirvegun á öllum málavöxtum — samþ., að herlið frá Bandaríkjunum fái hér bækistöð, með nánar tilteknum skilyrðum.

Aðstaða Íslands að því er snertir að vera hernumið land breytist ekki við það, þó að herlið frá Bandaríkjunum taki við, þar sem herlið frá Stóra-Bretlandi hverfur frá. Landið er eftir sem áður hernumið.

Þrátt fyrir það, þó að ríkisstj. hafi þannig samþ., að herlið frá Bandaríkjunum komi í stað þess herliðs, sem hér hefur setið, lít ég svo á, að enn þá standi óbreytt hin almennu og sérstöku mótmæli Alþingis og ríkisstj. gegn hernaðaraðgerðum erlends valds hér, hvaða ríki sem í hlut kann að eiga.

Ríkisstj. hefur lýst yfir, að úr því, sem komið var, hafi ekki verið aðra leið af fara en að samþ., að herlið frá Bandaríkjunum fengi hér bækistöð. Það er jafnframt vitað, að forseti Bandaríkjanna lítur á þennan samning sem endanlega gerðan, enda herlið frá því landi hingað komið.

Um leið og ég lýsi því yfir, að ég hér eftir sem hingað til mótmæli hvers konar hernaðaraðgerðum hér á landi, hvaðan sem þær koma, vil ég þó, að fengnum þeim upplýsingum, sem stj. hefur gefið, taka yfirlýsingu stj. gilda, að hún hafi ekki átt um aðrar leiðir að velja. Og í trausti þess, að samningur sá, sem hér á að samþ., verði haldinn af mótaðila, vil ég greiða atkv. með þáltill. og segi já.