11.11.1941
Neðri deild: 20. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í B-deild Alþingistíðinda. (119)

4. mál, húsaleiga

Jón Ívarsson:

Herra forseti! Vegna þeirrar ádeilu, sem allshn. hefur orðið fyrir af hálfu hv. þm., vildi ég taka fram nokkur atriði. Frv. er borið fram til staðfestingar bráðabirgðal. frá 8. sept. s. 1. og er því upphaflegt gildi þeirra miðað við næsta reglul. Alþ., sem átti auðvitað að vera seinni hluta þessa vetrar, og mátti þá vænta endurskoðunar á lögum um húsaleigu. Nú vildi svo til, að aukaþing þetta kom saman, og urðu því brbl. að koma fyrir það, ella að falla úr gildi, ef þau ná ekki staðfestingu á því, og yrðu þau þá skammvinnari en allir hafa reiknað með. Þess vegna álítur n., sem telur tjón að svo skyndilegu afnámi brbl., einsætt, að þau megi ekki með neinu móti verða óútrædd á þessu þingi. Af þeim orsökum verður að varna því, að margar og umdeildar brtt. komi fram, enda gætu slíkar tilraunir til að bæta um frv. ekki orðið nema gagnslítið hálfverk aukaþings þessa. Það væri a. m. k. sízt til hagsbóta fyrir leigutaka að stofna til kappræðna nú um frv. og eiga með því á hættu að það yrði óútrætt.

Allshn. ber því ekki fram þær brtt. við frv., sem ella hefði verið ástæða til. Það bíður aðalþings.

Allshn. kallaði á fund sinn húsaleigunefnd og stjórn Faseignaeigendafélags Reykjavíkur og ræddi við þá um málið. Því ber ekki að neita, að þessir aðilar eru málunum kunnugri en allir aðrir, sem hægt var að ná til.

Á aðalþingi síðar í vetur ætti að sjást betur en nú, hver von er um aukinn húsakost á vori komanda hér í bænum, og með hliðsjón af því, að húsaleigul. verði þá endurskoðuð, þótti rétt að takmarka gildistíma laganna, sem fyrir liggja. Ég vil mælast til, að málið fái að ganga til næstu umr. án annarra breytinga en þeirra, sem nefndin leggur til.